Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 30. janúar 2003 kl. 13:06

Hvernig aðstoðar þú barnið þitt við heimanámið?

-Veita þarf námi barnsins jákvæða athygli allt skólaárið .Það er hægt að gera með því að tala um heimanámið með jákvæðum hætti, hrósa barninu fyrir dugnaðinn þegar það er að læra og sýna að það skiptir þig máli að barnið sinni heimanáminu eða námi almennt.
-Ef gagnrýna þarf barnið á að gera það með þeim hætti að barnið geti tekið gagnrýninni. Það á að gagnrýna það verk sem barnið er að vinna ekki barnið sjálft. Til dæmis að segja barninu að það þurfi að laga legginn á ákveðnum staf, ekki að barnið sé ómögulegt í skrift.
-Ef barnið sýnir frumkvæði eða sjálfstæði í vinnubrögðum á að umbuna fyrir það. Öll börn þurfa einhvern stuðning við nám, en markmiðið er auðvitað að barnið geti staðið á eigin fótum.
-Þegar barnið er að sýna og segja frá því sem það er að gera í skólanum, þarf að gefa sér tíma til að hlusta á barnið og taka þátt í upplifun þess á jákvæðan hátt. Með því ertu að segja barninu að það sé þér mikilvægt að barnið stundi skólann samviskusamlega.
-Þegar próf standa yfir eykst álag á börn og mörg þeirra verða pirruð og uppstökk og þá þarf barnið á auknum skilningi að halda. Þú getur hjálpað barninu mikið með því einu að sýna að þú takir eftir því að barnið er undir álagi og er að leggja sig fram. Tilvalið er að elda uppáhaldsmatinn, og mikilvægt að hliðra til þannig að þú sért til taks ef barnið þarf á aðstoð að halda.
-Besti undirbúningurinn undir próf er að hafa lært samviskusamlega allan veturinn. Með því að fylgjast stöðugt með námi barnsins og umbuna því meðvitað fyrir vinnusemina býrðu barnið þitt mjög vel undir próf. Rannsóknir sýna til dæmis a sterk fylgni er milli þess að ná góðum námsárangri og læra samviskusamlega heima.
- Mikilvægt er að halda áfram að fylgjast með námi barnsins þótt það sé komið á unglingsár og þér finnist að barnið eigi að geta borið ábyrgð á eigin námi.
-Stundum gefst vel að umbuna börnum með áþreifanlegum hætti fyrir námsárangur en efnislegri umbun verða skil síðar í annarri grein.
-Stundum sýnir barnið ekki þá hegðun sem til er ætlast. Þá þarf að umbuna barninu fyrir hegðun sem er í átt að því sem stefnt er að. Sem dæmi má nefna lestur. Barnið er kannski ekki orðið læst en er farið að tengja saman stafi og hljóð. Það er undanfari þess að verða reiprennandi læs og eðlilegt að umbuna barninu fyrir það.
-Mikilvægt er að hrósa fyrir framfarir. Ef barninu fer fram og tileinkar sér færni sem það hafði ekki áður, er sjálfsagt að umbuna fyrir það. Varast ber að velta sér upp úr neikvæðum samanburði við önnur börn. Markmiðið er að laða fram þá hæfileika sem búa í barninu. Það að einhver annar sé staddur framar á sinni þroskabraut skiptir einfaldlega ekki máli. Aðalatriðið er að gleðjast yfir því að barninu þínu fer fram.
-Lýsandi hrós er áhrifarík umbun. Lýsandi hrós er það að nefna hið æskilega sem barnið gerir og hrósa fyrir það. Til dæmis má segja: Ég er ánægð með þegar þú kemur beint heim úr skólanum og byrjar strax að læra. Ef þú notar lýsandi hrós er barnið ekki í vafa um til hvers þú ætlast af því. Dæmi um hrós sem auðvelt er að misskilja er: Þú ert svo góður... Það er óneitanlega líklegra að barnið skilji hvað átt er við ef þú notar lýsandi hrós og segir barninu hvaða hegðun er æskileg að þínu mati.
-Hafðu hugfast að ef þú sýnir námi barnsins og góðum vinnubrögðum jákvæða athygli ertu að auka líkurnar á því að því gangi vel í skólanum.


Gangi þér vel.
Gylfi Jón Gylfason
yfirsálfræðingur á Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024