Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvernig á að myndskreyta frétt um hundsbit?
Þriðjudagur 29. nóvember 2005 kl. 18:00

Hvernig á að myndskreyta frétt um hundsbit?

Myndbirting á vef Víkurfrétta í gær með frétt um hund sem beit konu í Keflavík hefur farið fyrir brjóstið á hundaeigendum. Myndin var af geltandi hundi og fengin úr myndabanka undir flokknum "hundur bítur". Hér meðfylgjandi eru tvö bréf sem okkur hafa borist vegna myndarinnar:

“Góðann daginn.
Árdís heiti ég og er að skrifa fyrir hönd Rottweiler & Dobermann klúbbs Íslands.
Ég er stofnandi þessa klúbbs og hef verið að vinna að málefnum þessara stærri hundategunda, sem og Schafer, Husky og fleirri.
Ástæða þessa bréfs er að þið hafið birt frétt um að kona hafi verið bitin af Schafer blending, og birtið mynd af Schafer sem að lítur út fyrir að vera með hundaæði, og tilbúinn að bíta næsta mann. EKKI er þetta gott fyrir ímynd tegundarinnar, sem að margir hafa verið að vinna hörðum höndum fyrir, til að mýkja þeirra orðróm.
Að sjálfsögðu er slæmt að konan hafi verið bitin, en hvað akkúrat réttlætir svona mynd með frétt?
Þetta á eftir að skapa móðusýkisköst hjá fólki þegar það sér fólkið úti að labba með schaferana sína. Fyrir utan það þá er standandi hundabarátta á Íslandi, við erum að reyna að berjast fyrir því að við séum ekki annars flokks borgarar. Þessi mynd eyðileggur alveg ansi margt og vil ég biðja þig um að fjarlægja hana.
Ég get sagt þér að það er ansi mikið af reiðu fólki þarna úti núna, útaf þessari mynd, og tala nú ekki um sáru.

Með von um skjót viðbrögð,
Árdís Pétursdóttir
www.rottweiler.is“


„Sæll.
Ég heiti Arna Björk Halldórsdóttir og er stoltur Rottweiler eigandi í Hafnarfirði. Ég ætla bara að láta þig viða að mér býður við þessari mynd sem þið létuð fylgja fréttinni um hund sem beit.
Ég get ekki ýmindað mér hversu miklir fordómarnir yrðu ef að allir fjölmiðlar landsins færu að herja á okkur hundaeigendur. Það eru til slæmir og góðir hundeigendur og hegðan hundanna þeirrra ræðst af því uppeldi sem að þeir fá á sínu heimili og er enganveginn lýsandi fyrir hegðun þeirra tegundar sem hundurinn er! Ég veit allt um það.
Mér finnst ekki góð blaðamennska að láta sinn persónulega smekk flæða um hverja grein og myndirnar eru engin undantekning. Því að ein mynd segir meira en þúsund orð!!!
Það er ekki til slæmir hundar, aðeins slæmir hundaeigendur!!! og ég ætla að biðja þig um að láta ekki þá fáu svörtu sauði, skemma fyrir okkur hinum sem erum að vinna að bættri hundamenningu, fræðslu og skilningi í þessu landi..
Með fyrirfram þökk og von um að þú fáir betri sýn inn í þessa baráttu.

Arna Björk Halldórsdóttir,
meðlimur úr Starfshópi H.R.F.Í um bætta hundamenningu
og Ronja Rottweiler hundur.“


Eftir stendur að í gær var laus hundur sem beit konu í Keflavík svo úr blæddi. Fyrir nokkrum dögum, 13. nóvember sl., var tilkynnt til lögreglu að hundur sem var laus með eiganda sínum í Sandgerði hafi stokkið á konu, sem þar var á gangi, og bitið hana í lærið. Konan fór á sjúkrahús og fékk stífkrampasprautu.

Á síðustu 30 dögum hefur lögreglan í Keflavík þurft að hafa afskipti af lausagöngu hunda átta sinnum. Sex þeirra voru í Reykjanesbæ, hinir tveir við Voga og í Sandgerði.

Víkurfréttum tókst að vekja athygli á því vandamáli sem lausir hundar eru með því að sýnda tennurnar í hundi. Hundurinn beitti nefnilega tönnunum í gær, svo undan blæddi. Víkurfréttir vöktu fólk sem er í "réttindabaráttu" fyrir stóra hunda. Það fólk þarf að halda áfram baráttu sinni og sérstaklega innan sinna raða. Hundaeigendur sjálfir þurfa að passa upp á dýrin sín, að þau séu ekki á vergangi um götur bæjarins og beiti tönnunum á fólk.

Því miður hefur það verið þannig í gegnum aldirnar að sendiboðinn hefur verið hengdur, bakari hengdur fyrir smið.

Þegar notast er við leitarvélar eins og Goooooogle og aðrar slíkar og leitað að "hundur bítur" á enska tungu, þá er það raunin að margar eru myndirnar í anda þeirrar sem við notuðum með fréttinni í gær, stórir hundar að bíta fólk eða ljótir áverkar eftir hundsbit.

Læt fljóta með öllu þægilegri mynd með þessu innslagi, en þarna er rakki fréttastjórans, blendingur af íslenskum hundi og Border Collie. (Þykir örugglega ekki fínn pappír í kokteilboðum þeirra hreinræktuðu en er örugglega afsprengi þess að lausaganga og lóðarí átti sér stað). Ekki víst að þessi mynd hefði hreyft eins mikið við fólki og tanngarðurinn sem sást í gær.

Farinn í hundana :)
Hilmar Bragi Bárðarson
fréttastjóri Víkurfrétta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024