Aðsent

Hverfandi líkur á mengun í íbúabyggð
Teikning af stóriðju Thorsil í Helguvík.
Föstudagur 17. apríl 2015 kl. 13:59

Hverfandi líkur á mengun í íbúabyggð

Stefán Árni Stefánsson skrifar.

 

Fyrr í vikunni skrifaði ég svargrein í Víkurfréttir við grein eftir Hannes Friðriksson.  Í greininni varð mér það á að nota orðið rangfærslur um málflutning Hannesar þar sem rangtúlkun hefði verið réttara orðaval.  Hannes hvatti mig í framhaldinu til að gera grein fyrir þeim atriðum sem ég teldi hann fara rangt með og þykir mér bæði rétt og sjálfsagt að verða við því.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ástæða greinarskrifa minna var sú að mér fannst Hannes líta skýrslu Skipulagsstofnunar um mengun á íbúðasvæðum frá stóriðujuverum í Helguvík full svartsýnum augum.  Skýrsluna hafði ég sjálfur lesið og reyndi því að varpa hlutlausu ljósi á innihald hennar með því að benda á að þó mengun frá starfseminni yrði talsverð væri það engu að síður niðurstaða skýrsluhöfunda að hún yrði innan heimilda. Að auki yrði uppbygging áfangaskipt og því yrði hægt að bregðast við stæðust forsendur mengunarútreikninga ekki. Hannesi fannst ástæða til að kalla grein mína ómálefnalega og óskaði þess að ég hætti að haga mér eins og barn í sandkassa.

Þessi afstaða Hannesar kom mér í nokkuð opna skjöldu og þar sem ég vil ekki sitja undir áburði um barnaskap í málflutningi mínum leitaði ég til skýrsluhöfunda eftir nánari upplýsingum um niðurstöður þeirra varðandi loftgæði í íbúðabyggð bæjarins.  Hér fyrir neðan fylgir svar Sigurðar Ásbjörnssonar, annars skýrsluhöfunda, en hann veitti mér góðfúslega leyfi til að birta svarið í heild sinni:

„Spurningu þinni um afdráttarlausar upplýsingar um loftgæði í íbúðarbyggð í Reykjanesbæ er ekki hægt að svara af mikilli nákvæmni. Við erum að fást við matskenndar upplýsingar um mengun frá þremur fyrirtækjum sem eiga eftir að starfa á svæðinu. Ég ætla samt að reyna að svara eins afdráttarlaust og mér er unnt.

Þegar ákveðið er að reisa málmiðjuver á borð við ál- eða kísilver þá er tvennt sem ekki verður umflúið. Annars vegar má búast við rýrnandi loftgæðum vegna mikils útblásturs frá fyrirtækjunum og hins vegar uppsöfnun á þungmálmum. Þetta eru neikvæðustu umhverfisáhrifin af iðjuverunum.

Í stuttu máli er ferli allra iðjuveranna þannig að innan við þriðjungur af hráefnum verður að fullunnum afurðum. Stærstum hluta efnanna er blásið út í loftið með tilheyrandi loftmengun. Sú mengun er að mestu afturkræf sem þýðir að ef að menn tækju ákvörðun um að hætta starfseminni myndu loftgæði umsvifalaust færast í fyrra horf. Þungmálmarnir eru öðru vísi. Þeir koma sem brotabrot úr prósenti í hráefnum en berast með rykögnum frá verksmiðjunni. Þeir berast hins vegar ekki um langan veg heldur safnast að mestu leyti allra næst verksmiðjunum. Þeir munu hins vegar ekki hverfa úr umhverfinu þó svo að við myndum loka verksmiðjunum. Þeir eru komnir til að vera.

Varðandi áhrif á loftgæði í þéttbýlinu þá mun mengun aukast þar eftir að verksmiðjurnar hefja rekstur. Það eru hins vegar hverfandi líkur til að nokkur íbúi yrði þess var, en við myndum örugglega geta mælt breytingarnar með nákvæmum mælum. Í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum undir höndum þá er ekkert sem bendir til þess að styrkur mengunarefna fari nærri viðmiðunarmörkum reglugerða fyrir mengunarefnin. En viðmiðunarmörkin eru nánast þau sömu víðast í Evrópu og byggja á vísindalegum heilsufarslegum forsendum. Ég myndi því ekki óttast um heilsufar íbúanna á svæðinu miðað við fyrirliggjandi forsendur.

Sú sterka einkunn í áliti Skipulagsstofnunar sem sem þú vitnar til þ.e. "talvert neikvæð" tekur til samlegðar allra verksmiðjanna þriggja en lýsir ástandi sem nær út fyrir þynningarsvæði en ég myndi ekki nota hana til að lýsa væntanlegum loftgæðum í næstu íbúðarbyggð.

En við megum ekki gleyma því að við byggjum álit okkar á spám um ástand sem ræðst af starfsemi þriggja stórra fyrirtækja. Þess vegna er mjög brýnt að vakta svæðið frá upphafi og hafa í huga að öll fyrirtækin stefna að því að byggja starfsemi sína upp í áföngum. Ef mengun reynist meiri heldur en spár gerðu ráð fyrir þá eiga menn ekki að hika við að láta staðar numið eftir fyrsta áfanga.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni. Þú verður að virða það við okkur að við reynum að beita vísindalegri varkárni við matskenndar upplýsingar og því er ekki hægt að segja fyrir um mál af þeirri nákvæmni sem maður helst kysi.

Virðingarfyllst,

Sigurður Ásbjörnsson“

Ég vona að þessa upplýsingar nægi til að draga úr þeim áhyggjum sem fólk hefur af mengun frá væntanlegum iðjuverum og að með þessu svari geti ég lokið samtali mínu við Hannes Friðriksson um þetta málefni.

Stefán Árni Stefánsson, íbúi í Reykjanesbæ.