Hver vill sameinast þeim, sem vill ekki samstarf?
Þessi spurning var það fyrsta sem kom í hugann þegar ég las fyrirsögnina á forsíðu síðustu Víkurfrétta. Svo hvarflaði að mér, að þeir sem vilja ekki samstarf viti líklega ekki hver merking orðsins er, en samstarf er samkvæmt orðabók Máls og Menningar „ samvinna, en samvinna þýðir það að menn vinni saman og hjálpi hverjir öðrum.“ Það væri því sorglegt að vita til þess, ef til eru menn sem vilja ekki vinna saman að framtíðarskipulagi öldrunarþjónustu á Suðurnesjum.
Við þurfum einmitt á því að halda núna að vinna saman, ekki snúa baki við samvinnu heldur snúa bökum saman. Núna skiptir það máli að komast að samkomulagi og fyrst og fremst vita hvert við stefnum í allri þjónustu við aldraða. Hættum að velta þessu fram og til baka með því að þrasa um hver ræður mestu eða hefur mestan ávinninginn, þá verða allar framkvæmdir í skötulíki.
Ég sat sem gestur á síðasta aðalfundi DS, þar var samþykkt samhljóða tillaga um endurbyggingu Garðvangs þannig að þar verði hægt að reka allt að 30 hjúkrunarrými. Í greinargerð með þessari tillögu segir m.a. „Stjórnin telur að rekstur 30 hjúkrunarrýma á Garðvangi undir stjórn HSS verði til þess að leysa þann bráðavanda sem upp er kominn í þjónustu við aldrað fólk á svæðinu. Þá þarf að efla og samþætta betur samstarf félagsþjónustu sveitarfélaganna og HSS. Hugsa þarf til framtíðar og byrja undirbúning nýrrar 60 rýma álmu við Nesvelli.“
Samstaða fulltrúa DS á fundinum um samvinnu að uppbyggingu þjónustu við aldraða á Suðurnesjum var mikil og lofaði góðu. Samhljómur var einnig á síðasta aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, þar sem málefni aldraðra voru í brennidepli, en í ályktun, sem samþykkt var kom m.a. fram „Það hlýtur að vera forgangsmál að vinna nú þegar að fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum.“
Orð eru til alls fyrst hugsaði ég eftir þessa fundi, nú verður farið í umræður um uppbyggingu og framtíðarsýn. En nú virðast áðurnefndar samþykktir ekki skipta máli, talað um sorglegt samstarf og finna leið út úr þeim verkefnum sem menn telja sig geta gert betur sjálfir. Gott og vel þá er þar komin tillaga, sem vinna þarf að og gerir áðurnefndar samþykktir viðkomandi ómerkar.
Við höfum alltaf val, en verum sjálfum okkur samkvæm þegar við vinnum með jafn viðkvæman málaflokk sem þjónusta við aldraða er, málaflokk sem fer ört vaxandi og kallar á samstöðu og jákvæðan vilja til að takast á við verkefnið.
Ég tel mikilvægt að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum vinni saman, gott og vel ef aðrir vilja annað en þá þarf að takast á við það. Það er svo ótalmargt ógert, bæði í nærumhverfi hvers sveitarfélags og í stærri verkefnum eins og byggingu og rekstri hjúkrunarrýma.
Nýlega hef ég skoðað aðstöðuna í Víðihlíð og á Hlévangi, þangað var gott að koma og ég fann góðan anda og vellíðan fólksins, en á báðum stöðum þarf að bæta og laga húsnæðið til að nýta það betur og bæta aðstöðu þeirra sem þar búa. Hér þarf að taka afstöðu, viljum við vinna þessi verkefni saman?
Við þurfum að huga að samvinnu og samþættingu á þjónustu við aldraða í sem víðasta skilningi. Þar þurfum við líka að vita hvert við stefnum fá heildarsýn, hætta að vera eins og Lísa í Undralandi sem spurði köttinn „Viltu vinsamlegast segja mér hvaða leið ég á að fara héðan“ og hann svaraði „ Það fer mikið eftir því hvert þú vilt fara.“ „Mér er svosem alveg sama hvert,“ sagði Lísa. „ Þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur“ sagði kötturinn.
Kæru Suðurnesjamenn stefnum öll í sömu átt með sömu framtíðarsýn þegar við byggjum upp góða og öfluga þjónustu fyrir aldraða, ræðum saman og finnum lausn. Það skiptir máli að komast að niðurstöðu, hvort sem það verður á þann veg að halda áfram samstarfi eða að slíta því. Við eldri borgarar á Suðurnesjum erum tilbúnir í samstarf, getum miðlað reynslu og hugmyndum um hvernig okkar framtíðarsýn er.
Með kærri kveðju
Jórunn Alda Guðmundsdóttir
Sandgerði.