Hver vill álver í Helguvík?
Í vor verður kosið um framtíðina. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því verkefni að endurreisa efnahag landsins. Við það verkefni er þörf á hugrökku fólki sem leggur fram lausnir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá stofnun flokksins sett atvinnumál í forgang. Við Sjálfstæðismenn ætlum að tryggja að í landinu verði til ný störf á kjörtímabilinu auk þess að vernda þau störf sem fyrir eru.
Aðgerða er þörf
Atvinnuleysi er ekki þolandi og við Sjálfstæðismenn munum aldrei sætta okkur við að það verði viðvarandi. Á Suðurnesjum eru miklir möguleikar á því að skapa ný störf hratt og örugglega. Undirbúningur álvers í Helguvík hefur staðið yfir í nokkurn tíma og nú er svo komið að einungis er eftir að klára lokahnykkinn til að verkefnið verði leitt farsællega til lykta. Allt að 2.000 störf munu skapast á uppbyggingartíma álversins en varanlega mun það skapa um 1.200 ný störf á Suðurnesjum.
Málið er hins vegar í biðstöðu þar sem vinstri flokkarnir geta ekki komið sér saman um framgang þess. Með því að draga lappirnar í þessu máli, leggja til auknar skattbyrðar á álíka verkefni eftir á og svara engu um framhaldið eru allar líkur á að ríkisstjórninni takist að fæla fjárfesta og framkvæmdaaðila frá verkefninu. Þessi vinnubrögð eru mér algerlega óskiljanleg. Fólkið í landinu þarf á störfum að halda og íslenska ríkið þarf á útflutningstekjum að halda. Hafa vinstri flokkarnir engan metnað til þess að skapa ný störf? Hafa vinstri flokkarnir engan metnað til að veita fólki von? Hafa vinstri flokkarnir engar lausnir? Eða er staðan einfaldlega sú að stjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um afstöðu í málinu?
Í hnotskurn
Íslenska þjóðin hefur ekki efni á ákvörðunarfælnum stjórnmálamönnum. Göngum hreint til verks og styðjum atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr, við styðjum álver í Helguvík.
Unnur Brá Konráðsdóttir skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi