Aðsent

Hver er ábyrgð kjörinna fulltrúa?
Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 09:28

Hver er ábyrgð kjörinna fulltrúa?

Hver er ábyrgð kjörinna fulltrúa?


„Ertu hamingjusamur?” er spurning sem flest allir fá eða spyrja sjálfan sig að, af og til. Nær ávallt er hægt að segja að hamingjan kemur frá hinu innra. „Þú skapar þína eigin hamingju” er oft sagt. Já, ég er svo sannarlega sammála því að forsenda hamingju einstaklingsins sé að finna hið innra og hver og einn ræktar hana með viðhorfi sínu til umhverfis síns, samskiptum við vini og vandamenn og ræktunar sjálfsins. En það er samt ekki svo einfalt því vissulega eiga utanaðkomandi áhrifavaldar einhvern þátt í hamingju hvers og eins. Sem dæmi má taka ef manneskja býr við hliðina á hættulega mengandi verksmiðju og mengunin hefur áhrif á heilsu hennar og fjölskyldu, þá mun hamingjan rýrna því það er utanaðkomandi áhrifavaldur sem skerðir þá hamingju sem hún vinnur að. Hvað ef þessi slæmi áhrifavaldur er tilkominn því fulltrúar hennar, sem hún treysti atkvæði sínu fyrir eru einn helsti ábyrgðavaldurinn að þessu ástandi? Þá hlýtur að vakna upp gremja og vonbrigði gagnvart viðkomandi fulltrúum því þau lofuðu að sinna henni vel ef hún myndi greiða þeim sitt atkvæði.
Hver og einn myndi skilja það vel ef viðkomandi einstaklingur vill fá svör við því af hverju þetta sé að gerast því hamingja fjölskyldu hennar er skert. En hvað ef hún fær engin svör? Hvað ef þessir fulltrúar hennar halda áfram þeirri stefnu sem þau hófu en segja við hana „já við heyrum í þér og lofum að breyta til, sko sjáðu við ætlum að halda íbúakosningu um þennan áhrifavald“. Þá hlýtur hún að spyrja sig; „Bíddu, það var íbúakosning en þið fóruð ekki eftir henni“. Hví ætti hún að treysta þeim nú frekar en áður?

Public deli
Public deli

Píratakóðinn:
Gagnsæi og ábyrgð
Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.

Kjörnir fulltrúar eru í vinnu fyrir fólkið því þeir eru kosnir af fólkinu. Þeirri ábyrgð fylgir sú skylda þeirra að vinna ávallt að því að bæta utanaðkomandi áhrifavalda sem gætu haft áhrif á hamingju okkar. Ef við kjósendur viljum vita af hverju þessir kjörnu fulltrúar tóku sínar ákvarðanir þrátt fyrir vitneskjuna um þá hættu sem þeim fylgdi, þá eigum við að geta nálgast upplýsingar um allt ákvarðanaferlið. Gagnsæi og ábyrgð kjörinna fulltrúa er nauðsynleg fyrir fólkið því það eina sem við  höfum er atkvæðið okkar og traust á að það atkvæði fari til þeirra sem vinna best að hamingju okkar. Ef kjósandinn upplifir ekki að það sé hægt að treysta þér kæri kjörni fulltrúi þá mun hann leita að öðrum fulltrúa sem hann getur treyst á. Það er einmitt það sem við sjáum svo vel í landinu í dag þegar svo margir leggja traust sitt frekar í hendur verkalýðsfélaganna en stjórnmálaflokkana.
En þetta á ekki að vera svona, traustið á að vera til staðar. Við búum við lýðræði og formið er  fulltrúalýðræði. Það þýðir að við veljum ykkur sem fulltrúa okkar til að sinna því starfi að reka landið meðan við sinnum lífi okkar og innri hamingju. Ég tel mig geta sagt með fullri vissu að það sé enginn flokkur sem stendur jafn hart og Píratar að mikilvægi gagnsæis og ábyrgð gagnvart ríkjandi valdamönnum. Að mati okkar Pírata þá er ólíðandi að kosnir fulltrúar þiggi laun fyrir að leggja fólk í hættu með ákvörðunum sínum. Ef kjörinn fulltrúi er staðinn að slíku athæfi á hann að víkja úr því starfi því hann hefur sýnt fram á að hann beri ekki einlægan hug að vellíðan fólksins sem kaus hann til starfsins og ábyrgðin er á hans herðum.

Guðmundur Arnar Guðmundsson
Sagnfræðingur
Frambjóðandi Pírata 4. Sæti Reykjanesbæ.