Hvenær ætlarðu að flytja í bæinn?
– Gígja Sigríður Guðjónsdóttir skrifar
Ég fæddist í Reykjavík og þar hef ég búið lengst af. Fyrir nokkrum árum kynntist ég kærasta mínum sem býr í Reykjanesbæ og höfum við búið hér saman síðan.
Ég fékk í fyrstu, frá vinum mínum á höfuðborgarsvæðinu, spurningar eins og “Hvenær ætlið þið að flytja í bæinn?”, “Hvernig nennið þið að keyra í skólann á hverjum degi?”, “Ertu viss um að þið viljið kaupa ykkur hús í Reykjanesbæ”, “Ætlið þið bara að eignast börn í Keflavík?”. Þessir vinir mínir skildu ekkert í því hvernig mér, borgarbúanum, datt í hug að flytja „út á land“ eins og sumir kölluðu það, þegar við gátum valið það að búa í Reykjavík.
En við völdum að búa í Reykjanesbæ eftir að hafa metið kosti og galla og sjáum svo sannarlega ekki eftir því. Hér líður okkur vel og hér viljum við vera. Við höfum allt sem við þurfum, hér er húsnæði ódýrara sem skiptir ótrúlega miklu máli fyrir ungt fólk eins og okkur sem er að byrja að búa. En fyrir okkur unga fólkið skiptir líka máli hvernig hugsað er um börnin, börnin sem við munum ala hér upp. Hér í Reykjanesbæ er frábært íþrótta- og ungmannastarf, leikskólar og grunnskólar eru í fremstu röð og metnaður mikill. Eftir þessu er tekið og vinir mínir í höfuðborginni eru farnir að sjá þetta - „Eru börnin í Reykjanesbæ hraustari en önnur börn - er þetta í vatninu?”, “Vinnið þið bara Skólahreysti á hverju ári?“
„En er einhverja atvinnu að fá þarna á Suðurnesjum?“ er spurning sem ég hef einnig fengið því umtalið um mikið atvinnuleysi fer ekki framhjá okkur unga fólkinu fremur en öðrum. En hér sér maður tækifærin út um allt og það er greinilegt að það er mikið að gerast í hinum ýmsu atvinnugreinum, nýjum sem gömlum og hlakka ég til að taka þátt í þeirri uppbyggingu með því flotta og kraftmikla fólki sem hér býr.
„Reykjanesbær er fallegri en mig minnti“ er annað sem ég hef fengið að heyra frá vinum mínum sem koma hingað í heimsókn. Þetta segja þeir sem ekki hafa komið hingað í einhver ár því það er staðreynd að umhverfi bæjarins hefur breyst ótrúlega mikið til hins betra á nokkrum árum. Við viljum öll búa í fallegum bæ sem við getum verið stolt af.
Við megum svo sannarlega vera stolt af bænum okkar og við eigum að bera höfuðið hátt. Nú er ég loks hætt að fá spurninguna: „Hvenær ætlið þið að flytja í bæinn?“ Ég er hins vegar farinn að spyrja vini mína „Hvenær flytjið þið í bæinn?“ bæinn okkar, bæ unga fólksins, Reykjanesbæ.
Gígja Sigríður Guðjónsdóttir
Skipar 19. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ