Hvar eru lofgreinarnar núna?
Atli Már Gylfason skrifar
Nú stendur í forsíðufrétt Víkurfrétta að eigandi United Silicon, Magnús Garðarsson, ætli sér ekki að gera sérkjarasamninga við starfsfólk sitt. Þetta gerir hann svo hægt sé að keyra verksmiðjuna áfram á láglaunastefnu sem aðeins erlendir verkamenn sætta sig við. Það var nú meiri atvinnuuppbyggingin þar. Nánast allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar studdu byggingu kísilversins sem virðist bara vera til þess fallin að færa fé í vasa eigandans, Magnúsar Garðarssonar.
Sá er þekktur fyrir að fara illa með starfsfólk sitt, er illa séður af einu af stærstu verkalýðsfélögum Danmörku og skildi fjölmarga íbúa eftir þar í landi með sárt ennið og viðgerðir upp á rúmar 140 milljónir vegna byggingaverkefnis sem hann sá um. Fyrirtækið hans var keyrt í þrot og því lítill möguleiki fyrir umrædda íbúa að fá eitthvað upp í viðgerðina. Þá var Magnúsi gert að segja upp eða verða rekinn frá fyrirtæki sem hann starfaði hjá í Danmörku. Rekinn frá hvaða fyrirtæki? Jú því sama og hann sagði að hefði búið til mengunarspá fyrir kísilverið, COWI. Þeir sverja umrædda mengunarspá af sér. Magnús sá semsagt sjálfur um sitt eigið umhverfismat. Hvar endar þessi vitleysa? Hún virðist aldrei enda.
Nú spyr ég. Hvernig ætla menn að bera ábyrgð á þessu? Kísilverið, fyrir utan innantóm loforð um hálaunastörf og gríðarlega þekkingu og námsmöguleika í Keili samtengda þessari verksmiðju, er ein mesta sjónmengun á Suðurnesjum frá því hér var byggt ból. Sama hvar þú ert í Reykjanesbæ þá gnæfir þetta yfir bæjarfélaginu og minnir okkur á þegar menn ætluðu sér að græja skuldir sveitarfélagsins með skjótfengnum gróða og uppbyggingu stóriðju í bakgarði sveitarfélagsins. Álverið á ekki roð í þessa sjónmengun kísilversins. Þessi verksmiðja og hinar verksmiðjurnar koma til með að standa sem minnisvarði um það þegar kjörnir bæjarfulltrúar hlustuðu ekki á kröfur íbúa. Virtu þær að vettugi og skelltu fram sýndarkönnun á netinu í formi íbúakosningu sem þó skiptu engu máli þegar öllu var á botninn hvolft.
Búið er á nokkrum árum að rústa öllum innviðum sveitarfélagsins og ekki bara það heldur er búið að selja frá okkur nánast allar þær eignir sem voru einhvers virði. Hitaveitunni hefur verið skipt í tvennt og HS Orka er farin. Það eina sem situr eftir eru 50% í HS Veitum, fyrirtækinu sem tryggir okkur kalt og heitt vatn. Fyrirtæki sem tryggir okkur rafmagn. Í stuttu máli þá er þetta fyrirtækið sem sér okkur fyrir þeim hlutum sem við þurfum á að halda til þess að lifa af sem samfélag. Samt er búið að selja eignarhaldsfélagi rúman 34% hlut í fyrirtækinu. Eignarhaldsfélagi sem vill sjá fjárfestingu sína gefa af sér arð. Hvað þýðir það? Jú. Neysluvatnið okkar, heita vatnið okkar og rafmagnið kemur til með að hækka smám saman næstu ár og áratugi sem endar með því að við Suðurnesjamenn komum til með að greiða hæsta verð fyrir þessa nauðsynjahluti. Þessi þróun er nú þegar byrjuð. Nú á að setja mæla upp í hverju einasta húsi á Suðurnesjum svo peningakallarnir fái nú örugglega sitt og að rukkað sé fyrir hvern einasta dropa.
Hvar eru þessir fjármálasnillingar sem áttu hlut að þessum gjörningum og komu fram í fjölmiðlum og greindu okkur frá því að þetta væri bæjarbúum fyrir bestu? Hvar eru bæjarfulltrúarnir sem sögðu að "þverpólitísk samstaða" væri um þessa uppbyggingu? Hvar eru lofgreinarnar í Víkurfréttum núna?
„Við sjálfstæðismenn létum ekki erfiða fjárhagsstöðu hafnarinnar eða seinkun á greiðslum vegna óvæntra tafa hindra þá möguleika að hér gæti risið öflug atvinnustarfsemi með vel launuð störf. Við náðum loks að brjótast í gegnum öldurót andstöðu og vonbrigða yfir á lygnari sjó og loks meðbyrs þessara verkefna. Úrtöluraddir og háð, sem náðu því miður eyrum of margra, eru nú hjóm eitt en eiga samt sem áður að vera okkur umhugsunarefni. Ég mun sannarlega standa stoltur yfir því að loksins eru slík tímamót atvinnuverkefna að sigla inn í hafnarmynnið,“ sagði Árni Sigfússon fyrrum bæjarstjóri þegar skrifað var undir samninga við Magnús, eiganda United Silicon. Ertu ennþá stoltur Árni?
„Bæði þessi fyrirtæki sýna áhuga á að tengja menntun og þjálfun væntanlegra 260 starfsmanna við heimafyrirtæki. Menntamiðstöðin okkar, Keilir, hefur þegar hafið undirbúning að slíku samstarfi, enda stofnuðum við Keili til að vera tengingu vísinda, fræða og atvinnulífs á svæðinu. Þá er mér kunnugt um að United Silicon er þegar að leggja mikið fé til stuðnings félagastarfsemi, sem oft hefur verið af skornum skammti frá mörgum stærstu fyrirtækjunum hér á svæðinu.“ þetta er að verða efni í góða úttekt - er Keilir að undirbúa menntun og þjálfun erlendra verkamanna í kísilverinu sem verða á skítalaunum? Þetta sagði Árni líka. Skrifaði þetta allt sjálfur í Víkurfréttir 27. febrúar í fyrra. Hvar eru lofgreinarnar núna Árni?
„Við þurfum betur launuð störf – ekki láglaunastörf. Barátta okkar fyrir betur launuðum störfum heldur því áfram. Uppbygging hundruða starfa í Helguvík þar sem meðallaun verkafólks eru nær 600 þúsund kr. er enn áhersluverkefni okkar sjálfstæðismanna,“ sögðu Sjálfstæðismenn í Víkurfréttum þegar þeir mótmæltu framkvæmdahópnum sem stóð fyrir íbúakosningunni. Úps.
„Gunnar Þórarinsson, sem situr í meirihluta í bæjarráði Reykjanesbæjar fyrir Á-listann, segir að þverpólitísk samstaða sé um málið í bæjarstjórn. Ef nægilega margar undirskriftir safnast og íbúakosning verður haldin þar sem meirihlutinn er andvígur kísilverinu mun það litlu breyta, sagði Gunnar í fréttum Stöðvar tvö 31. maí 2015" <- og svo núverandi meirihluti sem kaus að hlusta ekki á óánægjuraddir íbúa í Reykjanesbæ. Gunnar er enn í meirihluta. Kvittaði undir alla vitleysuna á sínum tíma en þykist nú ætla að bjarga öllu með nýjum meirihluta. Meiri brandarinn.
Það þyrfti ekki annað en að „gúggla“ eiganda United Silicon til þess að komast að því að hann er með slóð svika á eftir sér. Verkalýðsfélög í Danmörku kölluðu hann úlf í sauðargæru. Í Reykjanesbæ er hann álitinn hetja og frumkvöðull!
Þverpólitísk samstaða? Það vita það allir sem hafa kynnt sér málin að þetta er ein aumasta bæjarstjórn í manna minnum einfaldlega vegna þess að hún er samofin þeirri síðustu sem keyrði hér allt í þrot. Þetta er allt gott fólk, ekki misskilja mig. En það er bara staðreynd að það þorir enginn að rugga bátnum af ótta við að upp úr slitni í þessu meirihlutasamstarfi. Ég hálf vorkenni bæjarfulltrúunum okkar því allir virðast hlekkjaðir saman og enginn þorir að rísa upp og gagnrýna það sem miður fór. „Verum jákvæð og horfum til framtíðar, hættum alltaf að líta tilbaka“ eru þau rök sem notuð eru gegn því að þessar hamfarir eru ræddar. Þetta er góð taktík. Þannig er hægt að láta mig og fleiri líta út sem einhverja neikvæða niðurrifsseggi sem best væri bara að flyttu úr bæjarfélaginu.
Því miður er allt of langt þangað til þessir bæjarfulltrúar þurfa að endurnýja umboð sitt hjá íbúum Reykjanesbæjar. Við erum nefnilega svo fljót að gleyma.
Hver verða næstu loforð í næstu kosningum? Að fjölga starfsmönnum slökkviliðsins hér í bæ svo hægt sé að slökkva í þessari rjúkandi brunarúst sem þetta bæjarfélag okkar er orðið? Það þorir enginn að gagnrýna neitt því sá háttur er hafður á í Reykjanesbæ að viðkomandi er einfaldlega settur út í kuldann, hrakinn úr bæjarfélaginu og menn keppast um að skrifa níðgreinar um hann í fjölmiðla. Þetta er bara staðreynd. „Guð minn góður hvað Atli Már er neikvæður alltaf. Afhverju er hann er ekki bjartsýnn eins og við og horfir til framtíðar?“
Á sama tíma virðist allt þetta góða sem eftir er í bæjarfélaginu vera að deyja hægt og bítandi. Þegar maður þarf að hringja dyrabjöllu á sjúkrahúsinu okkar til þess að komast inn um helgar því það fær ekkert fjármagn til þess að reka sig almennilega þá erum við komin á hættubraut. Við erum reyndar fyrir löngu komin inn á hana og búin að velta mörgum sinnum. Skurðstofan safnar meira ryki en sófi í gömlu keiluhöllinni á varnarliðssvæðinu.
Hvað varð um uppbygginguna á Ásbrú? Afhverju þorir enginn að segja neitt? Þetta mikla háskólasamfélag sem þarna átti að byggja upp er orðið svo stéttaskipt að það er ekki einu sinni fyndið. Þessar íbúðir sem þarna eru áttu aldrei að fara inn á almennan leigumarkað en að sjálfsögðu er græðgin aldrei langt undan. Þarna búa nú námsmenn við hækkandi húsaleigu á milli ára í bland við láglaunaverkamenn frá útlöndum sem stórfyrirtæki svína á í húsaleigu eins og enginn sé morgundagurinn. Þarna fá öll stórfyrirtækin skjól fyrir láglaunaverkamennina. Ætli erlendu starfsmenn kísilveranna komi ekki til með að búa þarna? Það kæmi mér ekkert á óvart. Svo ekki sé nú minnst á "business" menn úr bæjarfélaginu sem hafa farið í milljarðaþrot en fá samt að kaupa þarna fjölbýlishús með það fyrir augum að leigja til fyrirtækja sem sérhæfa sig í starfsmannaleigurekstri. Rekstri sem hvergi í heiminum er með gott orðspor - eflaust svipað orðspor og þeir sem nú kaupa fjölmargar eignir í bæjarfélaginu á brunaútsölu.
Hvað með Thorsil? Hitt kraftaverkið sem átti að bjarga öllu? Hin sjónmengunin sem kemur til með að spúa eiturefnum í allar áttir í Helguvík? Þeir hafa ekki einu sinni lokið fjármögnun verkefnisins? Afhverju gengur svona illa að fjármagna kraftaverkið?
...og nú nýjustu fréttirnar. Tjarnarverk sem keypti hundruði íbúða af Íbúðalánasjóði hér í Reykjanesbæ er að færa allar eignirnar í annað félag, félag sem nokkrum sinnum hefur skipt um kennitölu. Nú hafa allir þessir hundruð leigutaka fengið til sín senda nýja leigusamninga. Þetta er í gangi núna. Núna er verið að skipta um kennitölu og núna er verið að biðja fólk um að skrifa undir við nýja félagið. Það þykir mjög líklegt að Tjarnaverk fari í þrot á næstu mánuðum. Áfram heldur vitleysan. Leigumarkaður hér er af skornum skammti út af fasteignafélögum eins og Tjarnarverk sem keyptu íbúðir og keyrðu upp húsaleigu. Þeir virðast keyra reksturinn áfram á loftinu einu saman.
En álverið? Menn hafa ekki einu sinni tryggt því raforku. Hvaða endemisrugl er alltaf í gangi hérna fyrir sunnan? Ekki má svo gleyma starfsfólki Reykjanesbæjar þar sem einhverjir toppar búa í öðru bæjarfélagi og borga því ekki einu sinni útsvar hér - takk fyrir að taka þátt í uppbyggingunni!
Það eina sem virðist gangfært þarna í Helguvík er skítadreifari sem sér til þess að stór hluti bæjarbúa fær ekki einu sinni að njóta góðviðrisdaga fyrir óþef. En nei. Óþefurinn er í lagi því verksmiðjan, líkt og önnur stóriðja í landinu, fær að vakta sig sjálf og senda sínar eigin tölur til Umhverfisstofnunar. Verksmiðja sem græðir peninga fyrir örfáa kvótakónga sem sýnt hafa það og sannað að þeir hugsa aðeins um rassgatið á sjálfum sér en fela það undir því yfirskini að hér sé verið að búa til gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Ég er bara frekar til í að njóta þess að búa í bænum mínum. Það má búa til gjaldeyri og skítalykt annars staðar.
...svo má ekki gleyma Eignarhaldsfélaginu Fasteign. Það er bara svo mikið rugl að það er efni í heila bók.
Hvernig ætla menn að axla ábyrgð á þessari vitleysu? Halda áfram að þiggja laun bæjarbúa og halda vitleysunni áfram? Það er bara ekki endalaust hægt að þegja og láta sig fljóta með straumnum þegar straumurinn liggur fram að bjargi þar sem enginn lifir af.
Við ættum að einbeita okkur að því að hlúa að menntakerfinu okkar hér í bæ, greiða götu sprotafyrirtækja og frumkvöðla sem ekki standa í verksmiðjurekstri með tilheyrandi hamförum, standa almennilega við bakið á íþróttafélögunum okkar og tryggja það að innviðir Reykjanesbæjar verði ekki seldir til auðjöfra sem hugsa aðeins um gróða og ekkert annað. Ég vona svo innilega að við komum til með að muna eftir þessu rugli öllu þegar við kjósum næst.
Við höfum alla burði til þess sem samfélag að segja STOPP og rísa upp úr öskunni en það verður samt erfitt á meðan bæjarfulltrúar standa í kringum okkur með kveikjarabensín og eldspýtur.
En hey. Þangað til getum við glaðst yfir því að eiga breskan símaklefa, Eifell-turn frá Kína og flott hringtorg. Það er lítið eftir af öðrum eigum í bæjarfélaginu.
Áfram við, áfram Reykjanesbær!
Atli Már Gylfason
áhugamaður um betri Reykjanesbæ