Hvar er Reykjavegur?
Árið 1995 vorum við Pétur Þorleifsson, ferðagarpur og rithöfundur með meiru, fengnir til þess verkefnis að hanna langa gönguleið á Reykjanesskaga. Verkefnið var unnið undir stjórn Péturs Rafnssonar, þá formanns Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, á vegum sérstakrar samstarfsnefndar nær allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Gangan um Reykjaveg hefst á Nesjavöllum og endar við sjó hjá Reykjanesvita, alls sjö áfangar, sá lengsti um tuttugu kílómetrar (sjá t.d. https://ferlir.is/reykjavegurinn/).
Leiðin var stikuð árið eftir. Auk Bláfjallsskála átti að nýta skála við Þorbjörn og skála á Hengilssvæðinu en sá stóð ekki lengi við. Ég samdi leiðarlýsingu sem var prufuprentuð en aldrei gefin út í dreifanlegu magni. Skemmst er frá að segja að ekki tókst að skálavæða leiðina, ekki að útbúa tjaldstæði eða tryggja aðgang að vatni. Ástæðan var tvíþætt. Nægt fjármagn fékkst ekki (né samningar þar sem gistirými lá fyrir) hjá sveitarfélögunum sem komu að verkefninu og ekki tókst heldur finna rekstrarform og rekstraraðila. Var leiðin nýtt um tíma til raðgöngu, þ.e. ein dagleið í einu. Nú eru stikurnar víða fallnar og þessi rúmlega 120 km og sex nátta, góða gönguleið ekki auglýst sem valkostur í útivist og ferðaþjónustu.
Nú eru breyttir tímar. Ferðaþjónustan eflist (þar þarf að gæta að þolmörkum í stóru og smáu) en til eru fólkvangar kenndir við Bláfjöll og Reykjanes og nýjasta viðbótin er Reykjanes jarðminjagarður. Ég tel að dusta skuli ryk af Reykjavegi. Kanna hvort vinna ætti gönguleiðina upp sem rekstrarbæra margdægru og, ef svo er talið, koma henni í gagnið. Vissulega setur langt óróatímabil, sem líklega er hafið í fjórum eldstöðvakerfum skagans, spurningamerki við ýmsar framkvæmdir og rekstur á suðvesturhorninu (og í samfélaginu í heild). Þær áskoranir þarf af vinna með í ferðaþjónustu líkt og í öðrum þáttum atvinnu- og öryggismála. Ef til vill getur nálægðin við þéttbýlið auk þes verið galli en meta má nokkuð hlutlægt hvort svo sé.
Nota hér tækifærið til þess að minna á tvær stikaðar gönguleiðir sem ég lagði að beiðni Reykjanes Geopark ásamt Ólafi Þórissyni, ljósmyndara og markaðsstjóra, fyrir allmörgum árum. Upphafsstaður beggja er við geirfuglstyttuna skammt frá Reykjanesvita. Sú styttri (tæpir fimm km) liggur yfir Valabjargargjársigdalinn, að minni vitanum suðaustan við hinn, upp á eldstöðina Skálafell, niður að Gunnuhverasvæðinu og þaðan að upphafstað. Lengri leiðin (100 gíga leiðin, um þrettán km) sneiðir Gunnuhverasvæðið, borholur og gamla gíga, liggur upp á Sýrfell (95 m) með útsýni yfir nálægt 100 gíga, þverar sandborin hellu- og apalhraun. Liggur meðfram Yngri-Sampagígaröðinni og framhjá Reykjanesvirkjun, allt til leifanna af stórum gjóskugíg við hafið. Með göngu að geirfuglinum er hringunum lokað. Þessar forvitnilegu náttúruleiðir mætti kynna og nýta mun betur er nú virðist vera.
Ari Trausti Guðmundsson