Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvar er Reykjanes?
Mánudagur 17. september 2007 kl. 12:01

Hvar er Reykjanes?

Ég er kolruglaður eftir að hafa lesið Ferðahandbók Víkurfrétta 2007 sem heitir Reykjanes og mun vera til þess að kynna Reykjanes fyrir ferðamönnum. Það er alls ekki ljóst hvar þetta Reykjanes er – og það er hvergi útskýrt í bæklingnum.

Ég bý í Vogum og veit að Vogar eru á Reykjanesskaga og tilheyra að margra áliti Suðurnesjum – en getur verið að Vogar séu á Reykjanesi? Eftir að hafa lesið bæklinginn bendir margt til þess! Lítum nánar á innihald bæklingsins.

Annað orð yfir Suðurnes?
Á bls. 2 er eins konar formáli undir fyrirsögninni “Velkomin til Reykjaness”. Þar talar höfundur um Suðurnes en minnist ekki einu orði á Reykjanes. Á að skilja það svo að Reykjanes sé annað orð yfir Suðurnes?

Á blaðsíðu 6 er grein undir fyrirsögninni “Saga og menning á Reykjanesi” en í greininni sjálfri er mikið talað um Suðurnes og Suðurnesjamenn en þegar efnið er dregið saman undir lokin er talað um Reykjanes. Það mætti skilja þetta svo að allir eigi að vita það að Suðurnes og Reykjanes séu eitt og hið sama. Mun þá senn koma að því að við þurfum að skýra upp hinn þekkta söng Ólínu Andrésdóttur, Suðurnesjamenn, og að við munum innan skamms syngja: Sagt hefur það verið um Reykjanesmenn; fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn!

...eða stytting á Reykjanesskagi?
Á bls. 6 er fyrirsögnin “Jarðfræði Reykjaness”
Þar segir orðrétt.: Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans, sem Suðurnes eru hluti af. Elsti hluti Reykjaness, Rosmhvalaness, er um 200 þúsund ára gamalt.” Gott og vel. Samkvæmt þessu er Rosmhvalanes á Reykjanesi sem er á Suðvesturhorni Reykjanesskaga, en á öllum landakortum sem ég hef komist yfir er Reykjanes aðeins Suðvesturhorn skagans, eins og þarna er sagt, en Rosmhvalanes hins vegar á norðvesturhorni hans þar sem Sandgerði, Garður og Keflavík eru. Jarðfræðigrein þessi er sögð byggja á ritinu Kynnumst Suðurnesjum, frá 1998. Í því riti er grein eftir Hauk Jóhannesson, jarðfræðing, um jarðfræði Reykjanesskagans. Það vekur athygli að á flestum stöðum þar sem Haukur talar um Reykjanesskaga er búið að skipta því orði út fyrir Reykjanes í bæklingnum. Þýðir það að Reykjanes sé stytting á orðinu Reykjanesskagi? Þá getur það ekki jafnframt verið annað orð yfir Suðurnes, því eins og áður segir eru Suðurnes hluti af Reykjanesskaga. Reykjanes getur ekki bæði verið hluti af Reykjanesskaga og skaginn allur.

Á öftustu opnu bæklingsins er kort af Reykjanesskaga og þar er Reykjanes aðeins Suðvesturhorn skagans, eins og á öðrum kortum. Opnan þar á undan ber yfirskriftina Vitar á Reykjanesi – og hefði maður þá haldið að þar væri aðeins að finna Reykjanesvita og e.t.v. líka hálfvitann þar fyrir auk rústa gamla vitans sem eitt sinn var á Valahnúki. Nei, þar er að finna myndir og lesmál um 11 vita, m.a. Gerðistangavita (á Vatnsleysuströnd), Krýsuvíkurbergsvita og Selvogsvita. Eru þeir virkilega á Reykjanesi?

Opnan þar fyrir framan ber yfirskriftina Kirkjur á Reykjanesi, og viti menn, þar eru m.a. Kálfatjarnarkirkja og Grindavíkurkirkja, en þó ekki Selvogskirkja, þó skammt sé frá henni að Selvogsvita.

...eða gælunafn á Reykjanesbæ?
Ég kíkti á upplýsingavefinn www.Reykjanes.is  sem mun vera rekinn af Ferðamálasamtökum Suðurnesja. Þar fann ég m.a. yfirskriftina “Um Reykjanes” en enga skilgreiningu á við hvaða landsvæði væri átt, en þar er fjallað um Keflavík, Njarðvík og Hafnir. Mætti þá halda að Reykjanes sé stytting á nafni Reykjanesbæjar ef ekki væru annars staðar að á þeim sama vef klausur um öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og Hafnarfjörð að auki!

Er ég þá Reykjanesmaður?
Í ritinu er kynnt merkilegt félag sem nefnist Leiðsögumenn Reykjaness. Vonandi veit það fróma fólk hvar þetta Reykjanes er sem það kennir sig við – og getur þá svarað því hvort ég eigi að teljast Reykjanesmaður! Ég leit á vefinn þeirra; www.reykjanesguide.is og þar er að finna fróðleik um “Reykjanesið” en þó ekki stakt orð um hvar það sé að finna. Á vefnum er mikið fjallað um Suðurnes og sveitarfélögin þar. Þau einskorða sig ekki við þetta litla en merkilega nes á suðvesturhorni skagans sem á öllum kortum heitir Reykjanes og þar býr enginn eftir að vitavörðurinn var lagður niður fyrir áratug síðan.

Ef Leiðsögumenn Reykjaness geta ekki leitt mig í allan sannleikan um hvað teljist til Reykjaness, þá treysti ég á að ritstjóri Víkurfrétta hafi það á hreinu, en hann er skráður ritstjóri þessa bæklings.

Virðingarfyllst.

Þorvaldur Örn Árnason, Vogum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024