Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvaða vakt stóð Reykjanesbær umfram önnur sveitarfélög?
Fimmtudagur 7. maí 2009 kl. 10:52

Hvaða vakt stóð Reykjanesbær umfram önnur sveitarfélög?



Á vef Víkurfrétta eru birtar skýringar ónafngreindra forsvarsmanna Reykjanesbæjar vegna neikvæðrar rekstrarniðurstöðu í ársreikningi ársins 2008. Það er til marks um opna og góða stjórnarhætti að veita skattgreiðendum skýringar á fjárhagsstöðu opinberra aðila og ber að fagna því.

Hinsvegar er látið að því liggja við þá skýringu sem merkt er númer eitt að sveitarfélög sem seldu hluti sína í HS hf sumarið 2007 hafi á einhvern hátt brugðist og ,,ekki staðið vaktina“ með forsvarsmönnum Reykjanesbæjar. Í skýringunni segir orðrétt:
,,Stærsti einstaki áhrifavaldur á neikvæða stöðu, um rúmlega 4 milljarða kr ., er Hitaveita Suðurnesja, en á bæinn er skráð  35% af 11,7 milljarða kr. tapi Hitaveitu Suðurnesja 2008. Reykjanesbær stóð vaktina þegar önnur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitunni og lögðu hagnað á ávöxtunarreikninga.“ (áherslan er höfundar)

Það kemur ekki fram í skýringunni hvaða vakt Reykjanesbær stóð sumarið 2007 og fyrir hverja. Hafi sveitarfélög sem seldu hluti í Hitaveitunni brugðist á vaktinni, þá hefur Reykjanesbær gert slíkt hið sama þar sem bærinn seldi umtalsverðan hlut í félaginu.

Gott er að rifja upp að fjármálaráðherra ákvað fyrir hönd ríkisins að selja hlut ríkisins í HS hf árið 2007. Ekki kom til greina að selja sveitarfélögunum hluti ríkisins þar sem með sölunni átti að opna á aðkomu einkaaðila að orkumarkaðnum. Geysir Green Energy(GGE) bauð hæst í hlut ríkisins og bauðst í kjölfarið til að kaupa hluti af sveitarfélögunum og greiða fyrir m.a. með hlutabréfum í GGE. Allar bæjarstjórnirnar höfnuðu því tilboði og stóðu þannig vaktina um hagsmuni sinna íbúa. Að lokum bauðst GGE til að greiða að fullu með peningum á hærra gengi en þeir keyptu af ríkinu. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum, þ.m.t. Reykjanesbær seldu hluti í HS hf á þessum tíma. Vogar minnst, Grindavíkurbær mest og Reykjanesbær næstmest eða um 5% hlut. Rétt er að halda til haga að Reykjanesbær var á þessum tíma hluthafi í GGE.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti að selja 2,6% hlut sinn í HS hf til GGE í ljósi þess að fyrirsjáanlegt var að sveitarfélagið myndi verða áhrifalaust í félaginu og tilboð GGE var mjög hagstætt. Bæjarstjórn stóð vaktina og varði hagsmuni íbúa Voga.

Allur söluhagnaður Sveitarfélagsins Voga, rúmlega 1,2 milljarður króna var settur í sérstakan sjóð, Framfarasjóð Voga sem hefur verið ávaxtaður í samstarfi við eignastýringu Sparisjóðsins í Keflavík. Ávöxtun hefur verið með ágætum og skilað bæjarsjóði og þar með skattgreiðendum í Vogum miklum tekjum sem hafa nýst til rekstrar og fjárfestinga. Sjóðurinn tapaði engu í bankahruninu og stendur stofnframlag hans óskert og munu íbúar njóta ávaxtanna um ókomin ár. Bæjarstjórn stóð vaktina og varði hagsmuni íbúanna.

Rétt er að halda því til haga að Framfarasjóður Voga hefur nýst í þágu samfélagsins alls á Suðurnesjum. Peningarnir hafa verið í vörslu SpKef og þar með stuðlað að betri lausafjárstöðu sparisjóðsins. Ég vil halda því fram að stuðningur þeirra sveitarfélaga á Suðurnesjum sem eiga miklar peningalegar eignir hafi verið sparisjóðnum gríðarlega mikils virði í bankakreppunni. Nærri lætur að Sveitarfélagið Vogar, Sveitarfélagið Garður, Sandgerðisbær og Grindavíkurbær eigi um 10 milljarða í lausu fé. Það fé hefur að mestu verið lagt inn á reikninga í SpKef til að styrkja stöðu hans. Þessi sveitarfélög hafa ekki slegið sér upp á þessum mikla stuðningi, heldur látið verkin tala. Þau standa vaktina.

Með vísan til ofangreinds vísa ég dylgjum  um að Sveitarfélagið Vogar hafi á einhvern brugðist og ,,ekki staðið vaktina“ til föðurhúsanna.  

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024