Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvaða sveitarfélag svaf á vaktinni?
Fimmtudagur 7. maí 2009 kl. 22:50

Hvaða sveitarfélag svaf á vaktinni?

Á vef Víkurfrétta þann 7. maí s.l. er greint frá ársreikningi Reykjanesbæjar  fyrir árið 2008.  Í skýringum á neikvæðri stöðu reikningsins segir orðrétt: „Reykjanesbær stóð vaktina þegar önnur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitunni og lögðu hagnað á ávöxtunarreikninga.“  
Af gefnu tilefni er rétt að rifja það upp að þegar ríkið ákvað að selja 15% hlut sinn í HS var það skilyrt að hvorki sveitarfélögin eða aðrir opinberir aðilar gætu boðið í hlutinn.  Í framhaldi af því að Geysir Green Energy keypti hlut ríkisins gerði það fyrirtæki einnig tilboð í  hluti sveitarfélaganna.   Það fór svo, eftir nokkurn darraðadans,  að  öll sveitarfélögin á Suðurnesjum seldu. Grindavík seldi reyndar ekki til GGE, eins og flestir eflaust muna.  
Reykjanesbær seldi næstmest , eða 5% hlut, um 2.5 milljarða.  Eftirfarandi er að finna í bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 12.07.07: „Samþykkt var á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í morgun að selja hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja. Jafnframt var samþykktur lánasamningur milli Reykjanesbæjar og Geysir Green Energy ehf. að upphæð kr. 4.755.604.927 krónur vegna kaupa Reykjanesbæjar á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.“
Grindavíkurbær átti stærstan þátt í því að í stað hlutabréfa í GGE voru hlutir sveitarfélaganna greiddir út í peningum.   Grindvíkingar hafa ekki haft neitt hátt um þetta eða stært sig af því.  En sjóðir urðu til, sem svo sannarlega hafa breytt miklu fyrir þessi byggðarlög og íbúana.
 Uppbygging  í sveitarfélögunum hefur notið góðs af þessum fjármunum.  Öll sveitarfélögin hafa jafnframt haft stóran hlut sjóða sinna á innistæðureikningum hjá SpKef.  Fjármununum hefur  verið haldið á svæðinu hjá sveitarfélögunum sem standa vaktina og verja hagsmuni íbúanna.  
Ljóst er að minni sveitarfélögin hafa alls ekki sofið á vaktinni og Reykjanesbær á góða granna allt um kring.

Með góðri kveðju úr nágrannabyggð
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
bæjarstjóri  Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024