Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 8. mars 2004 kl. 10:01

Hvað verður um D-álmuna?

Um fátt er meira rætt þessa dagana á meðal íbúa Reykjanesbæjar en sú  stefnubreyting sem virðist hafa átt sér stað hjá Heilbrigðisstofnun  Suðurnesja í málefnum D álmunnar. Fyrir meira en þremur áratugum sameinuðust  bæjarbúar um þá stefnu að byggð yrði sérstök viðbygging við sjúkrahúsið sem  sérstaklega væri ætluð sjúkum, öldruðum íbúum sem þyrftu mikla umönnun og  þjónustu vegna veikinda og elli. Margir einstaklingar, félagasamtök og  klúbbar lögðu hönd á plóg með skipulögðum fjáröflunum og sérstök samtök  velunnarra og dyggustu stuðningsmanna hugmyndarinnar, D-álmu samtökin, voru  stofnuð. Allir höfðu sama, skýra markmiðið; að vinna að því með öllum  tiltækum ráðum að D-álman yrði að veruleika.

Bygging langlegudeildarinnar hefur tekið langan tíma. Margir heilbrigðis- og  fjármálaráðherrar hafa setið á byggingatímanum og margir þingmenn og  sveitarstjórnarmenn komið við sögu. Miklum þrýstingi hefur verið beitt á mörgum vígstöðvum og nú er byggingin risin en innréttingu hennar ekki að  fullu lokið. Þegar menn fóru að sjá fyrir endann á byggingu hússins mátti  finna fyrir miklum létti á meðal þeirra sem höfðu barist fyrir þessu brýna  og mikilvæga hagsmunamáli bæjarbúa í áratugi.

En þá gerðist hið óvænta. Yfirmenn stofnunarinnar mótuðu nýja stefnu og hafa  frá því í haust verið að kynna hana fyrir hagsmunaðilum þ.m.t.  sveitarstjórnarmönnum. Þessar nýju hugmyndir ganga m.a. út á það að nýta  D-álmuna undir aðra starfsemi sjúkrahússins t.d. skurðstofuna. Óljósar  fréttir og sögusagnir og nokkrar reynslusögur bæjarbúa hafa gengið manna á  millum. Þessi stefnubreyting hefur farið mjög fyrir brjóstið á bæjarbúum síðustu daga, vikur og mánuði og má skynja bæði undrun og reiði á meðal þeirra. Bæjarbúar skilja ekki hvað hefur breyst. Því tel ég nauðsynlegt að stjórnendur Heilbrigðisstofunnar Suðurnesja haldi opna kynningarfundi um
þessa nýju stefnu, skýri út fyrir bæjarbúum hvað þeir ætla sér með D-álmuna og hversvegna. Einnig tel ég nauðsynlegt að stjórnendur stofnunarinnar heyri sjónarmið íbúanna og reyni þannig að átta sig hvernig hjartað í bæjarfélaginu slær í þessum málaflokki. Það eru jú íbúarnir, skattgreiðendur, sem eru viðskiptavinirnir og neytendur þjónustunnar og ef Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er ætlað að uppfylla óskir þeirra og þarfir ættu slíkir kynningarfundir að getar orðið gagnlegir fyrir báða aðila.

Með vinsemd og virðingu

Kjartan Már Kjartansson,
bæjarfulltrúi í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024