Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað var ykkur sagt?
Miðvikudagur 10. apríl 2013 kl. 09:52

Hvað var ykkur sagt?

Ágætu Suðurnesjamenn. Nú spyr ég: Hvað var ykkur sagt? Ég spyr því ég hef verið að renna yfir þau gögn sem opinber teljast og varða hugmyndir um flutning allar starfsemi Landhelgisgæslunnar (LHG)til Suðurnesja.

Ekkert varð af þeim flutningi – eins og þið best vitið sjálf. En, hvað var ykkur sagt?
Það má lesa út úr öllum þessum gögnum eitt leiðarstef: Áhugaleysi. Og annað hliðarstef: Neikvæðni. Þessi stef eru svo fegruð með rangfærslum, óskhyggju og almennu bulli. Ég er alls ekki – og ég ítreka alls ekki – að draga í efa góðan vilja þeirra þingmanna sem vildu greiða fyrir þessum flutningum LHG á svæðið. Þau gerðu öll eins vel og þau gátu – samkvæmt sinni aðferðafræði. Þeirri aðferðafræði sem flokkarnir leyfa að beitt sé – sú aðferðafræði dugir bara stundum svo skammt vegna þess að allt er þar svo andskoti hefðbundið og auk þess bundið á klafa óskráðra reglna um það hvernig tipla eigi á tánum í kringum embættismenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þið þekkið mig mörg – ég er ekki hefðbundinn (ekki einu sinni í vexti) – og ég er ekki maður sem læt „bullshita í mér“ svo notað sé fágað orðalag eldri dóttur minnar þegar gelgjan reis sem hæst. Ég er um margt meingallaður – eins og allt gott fólk – en, ég læt ekki „bullshita í mér“.
 
A. Landhelgisgæslan hafði ekki áhuga, sem stofnun, á þessum flutningum.
B. Yfirmenn LHG voru á móti þessum hugmyndum.
C. Stjórnmálamenn – ALÞINGI – ræður því hvar þessi stofnun er staðsett.
D. Stofnunin var ekki flutt og þær fyrirætlanir settar á hinn margfræga ís
.

Sé lesið í þessar staðreyndir blasir við eitt og aðeins eitt; löggjafinn sem fer með málefnið og Innanríkisráðuneytið sem svo á að framkvæma vilja Alþingis hafði ekki bein í nefinu til þess að flytja Landhelgisgæsluna. Og nú er ísinn sjálfsagt bráðnaður.
Alþingi þarf mannskap sem lætur ekki embættismenn og sérhagsmunaseggi kerfisins stjórna sér. Af öllum starfandi mönnum á Íslandi ættu starfsmenn LHG að vita að þeir eiga að gera eins og þeim er sagt. Framfylgja skipunum. Háir sem lágir. Þar vantar enn mikið upp á; Landhelgisgæslan er ekki eina stofnunin sem veður fram í eigin vilja æðstu ráðamanna. Fangelsismálastofnun er önnur sem fær að komast upp með gerræðislegar aðgerðir sem byggjast á sérhagsmunum og sérhlífni – af því að Alþingi lætur „bullshita í sér“.


Ein tylliástaðan sem dregin er fram í einni málamyndaskýrslunni, gegn flutningi allrar starfsemi LHG, er sú að á Suðurnesjum sé læknaleysi og sjúkrahúsið ekki nógu öflugt. Það lá að – það væri nú par djöfullegt ef flutningur stofnanna eins og LHG hefði þau áhrif að efla mætti sjúkrahúsið og málefni heilsugæslunnar! Það er nú einsgott að ekki verið stofnað til slíkrar vitleysu! Stundum heyrum við talað um „samlegðaráhrif“ það er svakalega fínt orð – en má samt greinilega ekki komast í daglega umferð á Suðurnesjum.


Á dögunum skrifaði ég aðra grein hér á vf.is þar sem ég gerði grein fyrir því hvernig það myndi efla heilbrigðisgeirann á svæðinu ef innanlandsflugið yrði flutt til Keflavíkurflugvallar. Og nú hrópar þetta verkefni líka á eflingu þess málaflokks. Við sjáum að öll eru þessi mál innan seilingar – ef menn taka sig til og fara að STJÓRNA og hætta að láta sérhlífna embættismenn „bullshita í sér“.


Á þá að stjórna með eintómum tilskipunum og frekju? Kann nú einhver að spyrja. Svarið er einfalt: Þegar dragbítar eru ófáanlegir til að vinna þjóðinni og heilu landsvæðunum nema til tjóns – þá er bara tvennt í stöðunni: Skipa fyrir – og sé því ekki hlýtt – leysa menn frá störfum. Þessa þjóð – og allra síst þetta landsvæði, Suðurnesin – vanhagar um fleiri embættismenn sem halda að þeirra eigin dýrð og drottnunargirni eigi að ganga fyrir þjóðarhag. Til einföldunar: Þjóðahagur er hagur allra landsmanna – ekki bara Reykvíkinga og ekki bara excelskjala.
Ég, Guðmundur Brynjólfsson, hef áhyggjur af því hvað ykkur var sagt vegna þess að ég læt ekki „bullshita í mér“.

Guðmundur S. Brynjólfsson er rithöfundur og djákni og skipar 2. sæti á J – lista Regnbogans í Suðurkjördæmi í komandi kosningum.