Hvað vakir fyrir þér Hjálmar?
Hvað hefurðu ÞÚ gert Hjálmar?
Ég gat ekki orða bundist þegar ég las grein Hjálmars Árnasonar, alþingismanns í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Þar bölsótast Hjálmar yfir því hve sjálfstæðismenn séu vondir útí Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, þegar hún neitar að lýsa yfir ánægju með það að kostir álvers í Helguvík verði skoðaðir. Ég sem gamall krati græt ekkert yfir því að sett sé út á sjálfstæðismenn þegar þeir eiga það skilið, en það sem vekur enn meiri furðu hjá mér er það að Hjálmar sem eini þingmaðurinn sem búsettur er í Reykjanesbæ skuli lísa frati á það þegar stórfyrirtæki lýsir yfir áhuga á því að rífa upp atvinnumöguleika hér á svæðinu. Fólk sem ég hef rætt við eftir lestur greinar þinnar blöskrar algjörlega og enginn áttar sig hvaða kenndir reka þig í svona skrif.
Orð Hjálmars
Hjálmar segir orðrétt í grein sinni: “Fögnuðurinn hefur þó verið ærinn. Eigum við ekki frekar að bíða með fögnuðinn og vona að hann geti orðið af einhverju tilefni?”. Þingmaðurinn sér semsagt ekki að það að Norðurál, Hitaveita Suðurnesja og Reykjanesbær undirriti viljayfirlýsingu um að skoða hagkvæmni þess að reisa álver í Helguvík sem NEITT TILEFNI. Því spyr ég, hvað hefur þú gert Hjálmar í atvinnumálum fyrir Suðurnesin? Þú hefur haft átta ár til þess að vinna að atvinnumálum hér á svæðinu á meðan suðurnesin hafa gengið í gegnum miklar hremmingar í atvinnumálum með uppsögnum hjá varnarliðinu, hruni á kvóta og mörgu öðru. Í stað þess að beita þér fyrir þetta svæði hefur öll orka þín farið í vetnisframleiðslu í Reykjavík. Það hafa verið ófáar uppákomurnar þar sem skálað hefur verið fyrir áfangasigrum í vetnisframleiðslu þó að það sé vitað að slíkt verði ekki raunverulegur valkostur hér fyrr en eftir einhverja áratugi. Er það virkilega tilefni til að skála Hjálmar. Er það EITTHVERT TILEFNI? Væri ekki nær að taka tappa úr flösku og samfagna með suðurnejsamönnum þegar okkur er boðið
uppá raunverulegan valkost í atvinnumálum í stað þess að bölsótast útí sjálfstæðismenn.
Brettu nú upp ermar Hjálmar
Nú er kjörtímabilið hálfnað Hjámar og þú hefur enn möguleika á að láta ljós þitt skína. Hættu nú að eyða kröftum þínum í að skrifa níðgreinar um sjálfstæðismenn og spíttu í lófana og leyfðu okkur suðurnesjamönnum að sjá hvað í þér býr. Nú er kominn viljayfirlýsing um álver í Helguvík og við bíðum spennt eftir hvaða tromp þú hefur á hendi. Ekki láta segja um þig að þú hafir verið mesti óþarfi suðurnesja þegar þínum þingmannsferli lýkur.
Baráttukveðjur,
Ólafur Eyjólfsson