Hvað nú Sjálfstæðismenn?
Það vitlausasta sem við Sjálfstæðismenn gerum er að blása á skoðanakannanir. Og enn vitlausara er hjá okkur Sjálfstæðismönnum ef við ætlum ekki að hlusta á reiði almennings.
Við verðum að viðurkenna að stefna nýfrjálshyggjunnar innan flokksins hefur beðið algjört skipbrot.Flestir í þjóðfélaginu standa andspænis gífurlegum erfiðleikum. Margir hafa þegar tapað miklu og framundan eru erfiðir tímar með atvinnuleysi o.s.frv.
Ég tel að forysta Sjálfstæðisflokksins standi frammi fyrir miklum vanda eftir að ráðherrar Samfylkingarinnar leggja fram bókun á fundi ríkisstjórnarinnar að Davíð Oddsson starfi ekki á þeirra ábyrgð. Reyndar finnst mér Samfylkingin einnig standa frammi fyrir miklum vanda einnig. Hvað ætlar hún að gera ef Davíð verður áfram. Ætla ráðherrarnir að sitja áfram? Ber Björgvin bankamálaráðherra enga ábyrgð á Seðlabankanum?
Geir H. Haarde hlýtur að standa frammi fyrir þeim vanda hvort hann ætlar að hafa Davíð áfram sem Seðlabankastjóra í óþökk Samfylkingarinnar. Velji Geir að halda Davíð áfram getur hann ekki setið áfram í ríkisstjórn með Samfylkingunni.
Ég hef ávallt metið Davíð mikils sem stjórnmálamann. Aftur á móti hafði ég efasemdir um að hann gæti verið Seðlabankastjóri af því það væri alveg sama hvernig hann myndi vinna þar, hann er svo umdeildur einstaklingur að hann myndi aldrei geta notið sannmælis.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú í frjálsu falli eins og krónan. Forysta flokksins getur ekki látið eins og þetta sé allt í sómanum. Flokkurinn hlýtur að þurfa að ræða þessi mál, alvarlega á sínum vettvangi.
Það var sagt á dögunum í vandamáli flokksins í Reykjavík, að enginn einstaklingur væri svo merkilegur að hann ætti að ganga fyrir heildarhagsmunum flokksins.
Auðvitað hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að þurfa að hlusta á þjóðina. Ef það er best fyrir hagsmuni hennar til að skapa aukið traust að víkja Seðlabankastjórunum og fá nýja aðila, þá á að gera það.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að reikna með því að kosið verði í vor. Krafan um það á eftir að aukast. Sjálfstæðisflokkurinn verður að gera út um það hvernig á að horfa til framtíðar varðandi ESB, hvort taka á upp aðra mynt en krónuna, sjávarútvegsstefnuna og fleiri mál.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir því að við þessir gömlu velferðasinnar,sem trúðum á stétt með stétt gerum kröfur um áherslubreytingar. Það er ekki tímabært að efna til kosninga nú en stefna þarf á vorið. Með því gefst tími til að gera málin upp, hlusta á grasrótina í þjóðfélaginu og endurnýja á framboðslitum flokksins. Það þarf að fá fólk sem kjósendur treysta betur og þá sem leggja áherslu á hin gömlu og góðu gildi sem eru í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Eingöngu þannig mun flokknum takast að ná fylginu til baka.
Sigurður Jónsson