Hvað með Keili?
Nýjasti ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar er milli Framsóknar og Sjalla og sá fjallar um sameiningu MA og VMA sem ráðherra Framsóknar virðist ætla að keyra í gegn. Ekki ætla ég að hafa skoðun á þessari ráðagerð en Sjallarnir hafa alveg séð um að halda uppi andstöðunni í þessu máli. Það er eitthvað mikið að í ríkisstjórn sem virðist ekki geta útkljáð mál, sín á milli, heldur skammast endalaust opinberlega um mál sem ætti að vera búið að leysa innan flokkanna sjálfra og innan ríkisstjórnarinnar en það væri efni í aðra grein að fjalla um ást þeirra til hvors annars.
FS og Keilir
Það eru hins vegar fleiri sameiningar sem standa til hjá ráðherra en þessi og ein þeirra er sameining Keilis við Fjölbrautaskóla Suðurnesja eða ætti ég frekar að segja innlimun Keilis í FS.
Keilir var stofnaður árið 2007, eftir að herinn fór, með það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag á Suðurnesjum. Markmiðið var að bjóða upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Það markmið hefur náðst þrátt fyrir að ýmislegt hafi dunið á á starfstíma skólans, svo sem eins og eitt stykki efnahagshrun og kórónuveirufaraldur sem hafði veruleg áhrif á vöxt skólans.
Sérstaða Keilis
Fjórir skólar eru nú reknir undir regnhlíf Keilis, þ.e. Háskólabrú, Flugakademía, Heilsuakademía og Menntaskólinn á Ásbrú. Þarna er margt frábært að finna og sérstaða Keilis er mikil, eins og Háskólabrúin sem veitt hefur fjölmörgum tækifæri til að hefja háskólanám. Menntaskólinn á Ásbrú býður síðan upp á tölvuleikjanám sem nýtur algjörrar sérstöðu. Í Heilsuakademíu er að finna einkaþjálfaranám og nám í fótaaðgerðafræði.
Sérstaða Keilis er því mikil og það er hætt við að margt af því sem Keilir býður upp á hverfi komi til þess að skólinn verði innlimaður í FS.
Sveitarfélögin sammála
Suðurnesjamenn hafa verið sammála um mikilvægi Keilis alveg frá stofnun hans enda lögðu fjölmargir skólanum lið strax í byrjun. Þá hafa sveitarfélögin á Suðurnesjum lagt skólanum til talsverða fjármuni til þess að viðhalda rekstri hans. Keilir hefur enda haft víðtæk áhrif hér á Suðurnesjum þar sem menntunarstig hefur verið lágt samanborið við aðra landshluta. Að koma einhverju fyrir annars staðar er ekki eins augljóst og margir virðast halda. Það þarf að gera meira en að færa til skrifborð.
Samstaða sjálfstæðismanna
Eins og ég hef áður rakið hafa sjálfstæðismenn talað mjög gegn sameiningunni fyrir norðan í bullandi ágreiningi við Framsóknarflokkinn. Margir af þeim sem haft hafa sig í frammi tengjast Suðurnesjunum beint, verið starfsmenn en einnig hefur þingflokksformaður flokksins (sem hann var á þessum tímapunkti), Óli Björn Kárason, lýst andstöðu sinni við þessa sameiningu.
Ég sé ekki neinn sérstakan mun á sameiningunni fyrir norðan og fyrirhugaðri sameiningu hér fyrir sunnan og reikna því með talsverðri samstöðu gegn innlimun Keilis í FS. Ég vænti þess jafnframt að Keilir fái að sitja við sama borð og aðrar menntastofnanir í landinu.
Guðbrandur Einarsson,
þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.