Aðsent

Hvað með börnin?
Miðvikudagur 2. maí 2018 kl. 10:53

Hvað með börnin?

Frá því að ég flutti heim frá Noregi fyrir 2 árum hef ég tuðað og skammast yfir hinu og þessu sem ég tel að betur mætti fara í bænum okkar. Það virðist vera alveg sama hvað ég skammast heima við þá gerist ekkert.  Þegar mér bauðst að fara á lista hjá VG og óháðum þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar. Nú væri tíminn kominn þar sem að ég gæti farið að hafa einhver áhrif á samfélagið mitt. 
 
En hvað er það helsta sem ég vil sjá betur fara? Það eru nokkuð mörg atriði sem ég hef sterka skoðun á en eitt af því er velferð barnanna okkar.
 
Fyrst ber að nefna almenningssamgöngurnar. Það að strætó gangi ekki um helgar finnst mér ekki vera í lagi. Það er hellingur af fólki sem hefur ekki aðgengi að bíl og því mörg börn sem sitja föst heima um helgar.  Þeir sem hafa bíl þurfa endalaust að skutla börnunum svo þau geti stundað sínar íþróttir eða félagsstarfsemi. Strætó þarf einnig að ganga lengur á kvöldin svo að unglingarnir okkar eigi sem bestann kost á því að sinna félagslífinu.
 
Svo ég haldi áfram að tala um börnin okkar þá er sjálfsagður réttur hvers barn að finnast það vera jafningi hinna barnanna í skólanum og þ.a.l.  finnst mér forgangsatriði að bjóða upp á fríar skólamáltíðir.  Hvað er verra en að horfa upp á barn eða börn sitja eitt til hliðar án matar á meðan bekkjafélagarnir borða sinn hádegisverð?  Það á ekkert barn að þurfa að líða skort eða að finnast það vera minna virði en önnur börn, hvað þá að vera svangt í skólunum.  Börnin eiga ekki að líða fyrir það að foreldrarnir eigi í fjárhagserfiðleikum.  Gjaldfrjáls skólamáltíð hefur tekist vel hjá nágrönnum okkar í Vogunum og Garður hefur einnig boðið upp á sklíkt með því að niðurgreiða máltíðarnar.  Það hefur sýnt sig að börnum gengur mun betur að einbeita sér að náminu þegar þau eru ekki svöng.
 
Ennfremur væri ég til í að sjá tekjutengingu á hvatagreiðslurnar. Það vita jú allir að íþróttaiðkun getur verið dýr og þungur baggi  fyrir efnaminni fjölskyldur. Oft vill það vera svo að börn eiga í hættu að flosna úr íþróttum vegna þess að foreldrarnir hreinlega hafa ekki efni á æfingagjöldunum og öllum þeim útbúnaði sem fylgir hverri iðkun. Ef að hægt væri að hækka hvatagreiðsurnar hjá þeim hóp  þar sem þörfin er mest  þá væru meiri líkur á að börn þeirra haldi lengur áfram að stunda sínar íþróttir.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en vona svo sannarlega að það séu fleiri sem styðja þessar tillögur að öllu eða einhverju leyti. Saman getum við breytt hlutunum til hins betra fyrir börnin okkar.
 
Þórarinn Steinsson
3. sæti á lista VG og óháðra í Reykjanesbæ
Public deli
Public deli