Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Laugardagur 19. júní 1999 kl. 12:32

HVAÐ HEFUR VERIÐ GERT OG HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?

Undanfarnar vikur hafa fjórir vinnuhópar, skipaðir almenningi og fulltrúum nokkurra aðila, unnið að úttekt á núverandi stöðu í nokkrum málaflokkum í Reykjanesbæ. Má þar nefna holræsi og fráveitumál, umferð og flutninga, úrgang frá heimilum og fyrirtækjum, auðlindanotkun, náttúrumengun, gæði neysluvatns, skipulagsmál, hávaða og loftmengun, menningarminjar og náttúruvernd, umhverfisfræðslu í skólum, neyslumynstur og lífstíl og opinber innkaup svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður hópanna liggja nú fyrir. Næsta skref er að setja sér markmið í málaflokkunum og síðan framkvæmdaáætlun. Þegar þeirri vinnu lýkur næsta vetur verða málið kynnt í heild opinberlega. En hvað getur hinn almenni bæjarbúi gert til þess að leggja málinu lið? Með því að leiða hugann að neysluvenjum og umgengni við umhverfið má laga mjög margt. Nú þegar eru margir byrjaðir að flokka sorp með því að setja dagblöð, mjólkurfernur og annan pappír í sérstaka gáma við stórmarkaði, gler, plast og dósir í endurvinnsluna og garðúrgang í safnkassa. Hvaða vit er í því að henda garðúrgangi, sem á 2-3 árum breytist í fyrsta flokks gróðurmold, í sorptunnuna og kaupa svo gróðurmold í garðinn? Með því að flokka sorp með þessum hætti er ekki aðeins verið að minnka það sorp sem fer til brennslu heldur einnig verið að spara stórfé. Því er fyrsta skrefið að fólk hefji nú þegar að flokka sitt heimilissorp með þessum hætti. Næsta skref er að koma sér upp sérstökum safnkassa fyrir lífrænt sorp s.s. matarafganga því á nokkrum misserum brotnar sá úrgangur niður og verður að ágætis áburði. Einnig mætti benda fólki á að skilja umbúðir, s.s. pappakassa og plast, utan af ýsmum vörum, eftir hjá seljanda. Ágæti lesandi. Hugsaðu þér hvað myndi gerast ef allir sem kaupa sjónvarp myndu skilja kassana eftir hjá kaupmanninum. Ætli liði langur tími þar til hann færi að gera þá kröfu til heildsalans að hann minnkaði umbúðirnar, sem síðan bæði framleiðandann um að gera slíkt hið sama. Hvað með pizzukassana? Af hverju ekki að biðja pizzasendilinn, næst þegar þú pantar pizzu, um að bíða rétt á meðan þú tekur hana úr kassanum og afhenda honum síðan tómann kassann og biðja hann um að farga honum. Það liði ekki að löngu þar til pizzastaðir tækju upp á því að afhenda pizzur í fjölnota umbúðum þ.e. einhvers konar hitakössum. Síðast en ekki síst gæti verið mjög gagnlegt fyrir vini og kunningja að ræða neysluvenjur sínar og sinna fjölskyldna með það að markmiði að gera betur. Reyndar hafa nágrannalöndin útbúið sérstakt námsefni sem ætlað er að nota í litlum umræðuhópum og ætlunin er að þýða og staðfæra það efni nú á næstu mánuðum hér á landi. Í framhaldi af því mætti hugsa sér að í stað þess að bjóða vinum og vinkonum heim til þess að kynna þeim plastílát eða ryksugur væri umræðuefnið umhverfismál og neysluvenjur. Mikið væri fóðlegt að sjá hvað kæmi út úr því? Meira síðar. Kveðja Kjartan Már Kjartansson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024