Hvað hef ég svo verið að gera í skólamálum?
– Baldur Þórir Guðmundsson skrifar
Þegar ég ákvað að bjóða mig fram til starfa fyrir bæinn okkar fyrir fjórum árum fékk ég það skemmtilega verkefni að gegna formennsku í fræðsluráði. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á skólamálum frá því að vera sjálfur í skóla í rúm 20 ár og einnig eftir að hafa fylgt börnunum mínum í gegnum skólakerfið. Það gerðum við hjónin með mjög gagnvirkum hætti m.a. í gegnum foreldrafélögin og sat ég í foreldraráði Holtaskóla í nærri 10 ár. Því var ég fullur tilhlökkunar að beita mér í þessum málaflokki.
Frá því að einsetning skóla gekk í garð árið 2000 hefur skólastarf verið að mótast og þróast á alla vegu og mikil orka og fjármagn farið í uppbyggingu mannvirkja og búnaðar. Síðasta kjörtímabil tókum við þá ákvörðun að einbeita okkur að innra starfinu og stefna að bættum námsárangri með markvissum aðgerðum. Með samstilltu átaki skólaskrifstofu, skólastjórnenda, foreldra, kennara og annarra starfsmanna skóla hafa framfarir verið miklar og vakið verðskuldaða athygli um land allt. Starfað hefur verið eftir Framtíðarsýn Reykjanesbæjar í skólamálum og fékk verkefnið sérstaka viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Niðurstöður úr samræmdum prófum hafa verið sérstakt ánægjuefni síðustu tvö árin því árangur hefur stigmagnast og erum við nú yfir landsmeðaltali í 5 af 7 greinum og höfum náð að vera meðal þeirra efstu í stærðfræði í 4. bekk. Við teljum að með skarpri framtíðarsýn og samstilltu átaki getum við bætt árangurinn enn frekar.
Á kjörtímabilinu hafa orðið mikil umskipti í hópi skólastjórnenda og hafa öflugir reynsluboltar látið af störfum eftir áratuga framlag til skólastarfs hér í bæ og má þar nefna gömlu kennarana mína Jóhann Geirdal og Gunnar Jónsson sem fékk sitt fyrsta hlutverk á kennaraferlinum að koma mér og mínum skólafélögum til manns og stóð sig afar vel. Við höfum borið þá gæfu að í okkar skólasamfélagi reyndust vera mjög verðugir arftakar og er ég afar ánægður með skipan í skólastjórastöður. Þar fer fagfólk með mikinn metnað og ekki þurfti að leita út fyrir póstnúmerin okkar til að finna hæfileikaríka einstaklinga. Einum skólastjóra var bætt við á tímabilinu þegar Háaleitisskóli fékk sitt sjálfsstæði en hann hafði verið útibú frá Njarðvíkurskóla. Mikil aukning er í nemendafjölda á Ásbrúarsvæðinu og í Innri-Njarðvík og er það verkefni næsta kjörtímabils að mæta þeirri aukningu enn frekar.
Haustið 2012 var viðbygging við sérdeildina Ösp, í Njarðvíkurskóla, tekin formlega í notkun og er aðstaðan nú til mikillar fyrirmyndar. Deildin starfar eftir þeim grunngildum að fötluð börn eigi kost á skólagöngu í heimabyggð sinni eins og önnur börn. Er okkur bæjarbúum mikill sómi af starfi deildarinnar.
Reykjanesbær fer fyrir sveitarfélögum í spjaldtölvuvæðingu innan grunnskólanna. Einn árgangur í hverjum skóla hefur nú fengið spjaldtölvur til notkunar í kennslu og verður einum árgangi bætt við á hverju ári á unglingastigi. Verkefnið er mjög spennandi og gefur það ótal tækifæri til fjölbreyttari kennsluhátta og eykur námsáhuga nemenda, bætir aðgengi að upplýsingum og jafnar aðstöðumun heimilanna.
Nýlegar kannanir og úttektir á skólastarfi í Reykjanesbæ gera ekkert annað en að gefa okkur byr undir báða vængi því almenn ánægja er meðal foreldra með nám og kennslu barna í grunnskólum bæjarins samkvæmt Skólavoginni. Námsmatsstofnun birti á dögunum skýrslu um ytra mat á Myllubakkaskóla sem náði til stjórnunar, náms og kennslu, innra mats og lesturs. Heildarniðurstaðan var afar jákvæð og er enn ein vísbendingin um það góða starf sem unnið er í öllum grunnskólunum okkar.
Leikskólarnir gegna lykilhlutverki í að undirbúa börnin okkar fyrir framtíðina. Læsi í sem víðustum skilningi er stór þáttur í skólastarfinu og eru leikskólar Reykjanesbæjar orðnir landsþekktir fyrir áherslur sínar á stærðfræði og læsi. Reglulega koma hópar leikskólakennara úr höfuðborginni og öðrum sveitarfélögum til að kynna sér starf skólanna hér í bæ. Stór hluti barna sem koma frá leikskólunum eru læs þegar þau hefja sitt grunnskólanám og þarf ekki að orðlengja hvað það gerir mikinn gæfumun í þeim verkefnum sem þeirra bíða.
Síðast en alls ekki síst skal nefna Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem er loksins kominn í húsnæði sem mætir öllum kröfum sem hægt er að gera til tónlistarskóla. Hið nýja húsnæði í Hljómahöll er afar vel búið hljóðfærum og öðrum búnaði. Tengslin við Hljómahöllina gefur síðan tækifæri sem felst í frábærri aðstöðu til tónleikahalds af ýmsu tagi. Er ég óendanlega stoltur af að hafa tekið þátt í að klára það verkefni sem faðir minn, Rúnar Júlíusson, vann ötullega við að koma í framkvæmd.
Af verkefnum hvers sveitarfélags taka skólarnir til sín mest fjármagn og er það mín skoðun að gott skólastarf sé hornsteinn hvers samfélags. Við viljum að krökkunum okkar líði vel í skólanum og nái þar góðum árangri. Þegar ég lít yfir þau verkefni sem unnist hafa á síðasta kjörtímabili þá get ég ekki annað en verið mjög kátur en er jafnframt fullur tilhlökkunar að fylgja þessu góða starfi eftir. Ég vona svo sannarlega kæri kjósandi að þú gefir mér tækifæri til þess.
Baldur Guðmundsson
formaður fræðsluráðs og frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins