Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað er þetta með Suðurnesin? 1. hluti
Laugardagur 5. október 2013 kl. 12:07

Hvað er þetta með Suðurnesin? 1. hluti

Að leita að draumastarfinu er erfitt verkefni sem flesta langar til að vinna að. Að landa áhugaverðu starfi sem hentar áhuga og hæfileikum hvers og eins er verðug þraut. Hvort áhugasvið einstaklinga og fyrirtækja fara saman, er í raun spurning sem fræðsluyfirvöld þurfa að svara með stefnumótun, greiningum og áhugasviðskönnunum og framtíðarrannsóknum.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fékk í vor styrk til að kanna þekkingarþörf atvinnulífs á Suðurnesjum. MSS vann spurningakönnun í samstarfi við Vinnumálastofnun, Starf ehf., Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, Ferðamálasamtök Suðurnesja, Meistarafélag byggingarmanna á Suðurnesjum og Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Spurningakönnunin var send á þrjá hópa, atvinnurekendur og stjórnendur fyrirtækja á Suðurnesjum, atvinnuleitendur á skrá Vinnumálastofnunar og Starf ehf. og nemendur níundu og tíundu bekkja á starfssvæði skólaskrifstofu Reykjanesbæjar. Spurningarnar voru í grunninn þær sömu aðeins aðlagaðar að hverjum hóp fyrir sig. Svör hópanna voru síðan borin saman.  Alls fengust tæplega 600 svör. Spurt var um afstöðu til margvíslegra hugtaka er varða menntun og störf í framtíðinni. Meðal annars í hvaða atvinnugrein þeir teldu mestar líkur á að  þeir störfuðu í í framtíðinni, hvar þeir teldu sig helst vilja starfa og hvort þeir ætluðu í framhaldsnám.


Hvað þurfum við?

Niðurstöður eru þær helstar að miðað við áform um uppbyggingu atvinnutækifæra á Suðurnesjum er þörf fyrir margvíslega menntun og breytingar.

    Byggja upp markvissa náms- og starfsráðgjöf til nemenda á öllum skólastigum, svo nemendur átti sig snemma á starfsmöguleikum sínum.

    Bjóða verður upp á raunfærnimat sem getur hækkað formlegt þekkingarstig samfélagsins og stuðlað að framgangi í starfi.

    Efla menntun og auka þekkingu á ferðamálum, þjónustu og markaðsmálum.

    Uppbygging heilsuklasans á Ásbrú myndar þörf á starfsmönnum menntuðum í heilbrigðisþjónustu, svo sem hjúkrunarfræðingum og læknum, iðju- og sjúkraþjálfum auk annarra heilbrigðisstarfsmanna.

    Aukin starfsemi í kvikmyndaverinu á Ásbrú eykur þörf fyrir tæknifólk í myndatöku, hljóðvinnslu og upptöku ásamt leikurum og leikstjórum.

    Öll uppbygging orku- og auðlindagarðsins á Reykjanesi myndar þörf fyrir fólk með tækni- og verkfræðimenntun auk jarð- og auðlindafræðimenntaðra og efna- og eðlisfræðinga.


Hvert stefnum við?

Ný verkefni og tækifæri í atvinnulífi varpa ljósi á það sem koma skal. Ásbrú-Norður: svæðið sem markast af Leifsstöð, Rockville og Helguvík. Með langtíma uppbyggingu á þessu svæði verður fyrirsjáanlegt að fyrirtæki sem þangað sækja aðstöðu sína hafi þörf fyrir að ráða starfsmenn sem eru verkfræðingar, vélvirkjar, tæknifræðingar, vélstjórar, viðskiptafræðingar, rafvirkjar, rafsuðumenn, efnafræðingar, eðlisfræðingar, smiðir, líffræðingar og tölvunarfræðingar, auk ófaglærða starfsmanna sem öðlast sérhæfingu við störf sín og nám hjá viðkomandi fyrirtæki.

Með fullvinnslu sjávarafurða á svæðinu eins og vísir er að í Grindavík verður aukin þörf á starfsmönnum með menntun í matvælaframleiðslu þar sem áhersla er á gæði vöru, rannsóknir og þróun auk sjómanna og fiskeldis- og fiskvinnslufólks, matreiðslumanna og matartækna.
Hvað viltu verða?

Langtíma markmið samfélagsins, stjórnvalda og sveitarfélaga ætti að vera að tryggja atvinnu við hæfi sem flestra, þannig að tækifæri til menntunar haldist í hendur við þróun atvinnu, svo að hver einstaklingur geti og vilji takast á hendur nám sem tryggir honum atvinnu, þar sem hann fær notið sín og um leið skapað þjóðfélagslegan vöxt sem tryggir velferð.

Þegar atvinnuleitendur voru inntir eftir því hvaða menntun þeir hefðu lokið kom í ljós að 66,5% hafa aðeins lokið grunnskólaprófi, 11,5% fólks í atvinnuleit voru með háskólapróf. Þetta sést vel í mynd 1. Athugið að svarendur gátu valið um fleiri en eitt nám þ.e. að líklegt er að þeir sem hafa lokið háskólagráðu hafi einnig lokið stúdentsprófi.



Mynd 1. Hvaða námi hefur þú lokið?

Þegar nemendur svöruðu spurningunni um hvort þeir ætluðu í framhaldsnám eftir grunnskóla og þá hvaða,  kom í ljós athyglisverður munur á svörum nemenda milli skóla, sem sjá má í 2. mynd. Áberandi er hve hátt hlutfall nemenda Akurskóla hyggjast fara í iðnnám eða tæplega 29% og 3% nemenda Myllubakkaskóla ætla ekki í framhaldsnám.


Mynd 2. Nemendur. Ætlar þú í framhaldsnám eftir grunnskóla? Hvaða?

Mynd 3 sýnir svör nemenda eftir kyni þegar þeir voru inntir eftir því í hvaða grein þeir töldu mestar líkur á að þeir störfuðu við í framtíðinni.  29% stúlkna en aðeins 6% drengja töldu mestar líkur á að þær myndu starfa við heilbrigðis- og félagaþjónustu. 13% drengja en 2% stúlkna hyggjast hasla sér völl í verkfræði.  


Mynd 3. Nemendur í hvaða grein telur þú mestar líkur á að þú starfir í framtíðinni?

Í næstu viku mun ég fjalla nánar um niðurstöðu og skoða hvaða störf verða mögulega í boði í framtíðinni og hvaða menntun er þörf á hér á Suðurnesjum.

Kristinn Þór Jakobsson
Verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024