Hvað er það sem skiptir máli?
– Guðbrandur Einarsson skrifar
Öll þurfum við mannfólkið á öryggi að halda til þess að við fáum þrifist og að okkur líði vel. Að vera óöruggur er ávísun á vanlíðan. Hins vegar er það æði misjafnt hvað það er sem stuðlar að óöryggi fólks.
Það eru þó nokkrir sameiginlegir grunnþættir sem skipta okkur máli og ef þessir þættir eru til staðar í tilveru hvers og eins, þá má ganga að því sem vísu að viðkomandi geti unnið þannig úr lífi sínu að hann geti verið sáttur við hlutskipti sitt. Það skiptir mig t.d ekki miklu máli hvort ég eigi nýjan bíl en það myndi hafa veruleg áhrif á líðan mína ef ég gæti ekki gefið börnunum mínum að borða.
Við verðum síðan alltaf að gera ráð fyrir því að þarfir okkar séu mismunandi og að þær breytist eftir æviskeiðum. Ég er í allt annari stöðu sem einstaklingur en þegar ég er orðinn pabbi hvað þá afi, sem ég varð fyrir skemmstu. Öll langar okkur til að lifa og njóta, að lífið sé ekki bara strit og áhyggjur heldur fullt af ánægjulegum tilefnum þar sem við gleðjumst hvert með öðru.
En það er bara þannig að við komum til leiks í þennan heim með misjafna forgjöf og möguleikar okkar eru ekki þeir sömu. Hvað gerum við þá? Hvernig eigum við sem hópur að bregðast við því? Erum við tilbúin til að gefa aðeins eftir af því sem við sjálf höfum á milli handanna ef það gæti orðið til þess að einhverjir fái notið á sama hátt og við? Erum við sem samfélag tilbúin til að vinna að því að fjölga möguleikum þeirra sem búa við minna öryggi en flest okkar.
Ég er næstum því viss um að flest okkar geta svarað þessum spurningum játandi þvi þannig náum við að virka sem samfélag, þannig aukum við öryggið og þannig gerum við eitthvað sem skiptir máli.
Guðbrandur Einarsson
í framboði fyrir Beina leið
í framboði fyrir Beina leið