Hvað er skátastarf?
Skátahreyfingin er alþjóðleg friðarhreyfing og starfar í 172 löndum. Skátastarf er í boði fyrir allan aldur og getur hafist snemma í fjölskyldu skátum en hefðbundið skátastarf hefst við sjö til átta ára aldur í flestum skátafélögum og það er aldrei of seint að byrja. Skátastarf er lífstíll og áhrif skátastarfs á einstaklinginn endast út ævina.
87 ÁRA
Skátafélagið Heiðabúar var stofnað þann 15. september 1937 og er því 87 ára í ár. Í fyrstu starfaði skátafélagið aðeins í Keflavík en í dag eru starfsstöðvar félagsins í Reykjanesbæ. Stofnendur voru átta drengir, þeir voru: Helgi S. Jónsson, Gunnar Þorsteinsson, Ólafur Guðmundsson, Óskar Ingibergsson, Alexander Magnússon, Helgi Jónsson, Marteinn J. Árnason og Arnbjörn Ólafsson.
Á fyrstu árunum voru erfiðleikar með húsnæði fyrir starfsemina. Þeir byrjuðu í Klappinborg á Túngötu, var síðan gefið gamalt hænsnahús sem þeir innréttuðu í tvö herbergi, þar næst Túngötu 17, sem var kölluð Skemman.
Árið 1943 stofnuðu ungar stúlkur 3. sveit í Heiðabúum. Þetta var fyrsta skátafélagið í heiminum með stúlkur og drengi starfandi saman í skátafélagi. Helga Kristinsdóttir var fyrsti sveitarforingi 3. sveitar (sem var stúlknasveitin).
Árið 1945 höfðu skátarnir byggt sér 70 fermetra skátahús langt fyrir ofan bæinn á svæði þar sem kartöflugarðar bæjarbúa voru, og er á horni Vatnsnesvegar og Hringbrautar.
Húsið var allt steypt á höndum eins og gert var í þá daga og eiga skátarnir góðar minningar frá byggingartímanum. Árið 1973 var hafist handa við að stækka skátahúsið í 200 fermetra og var það vígt 22. maí 1976. Húsið er dýrmæt eign fyrir félagið og er það eingöngu notað fyrir skátastarf. Þökk sé eldri skátum fyrir bjartsýni og framtakið.
Árin 2021–2022 var húsið tekið í gegn og nánast allt innandyra endurnýjað.
Hvað gerðu skátarnir síðasta árið?
Það er gaman að segja frá því frábæra starfi sem Skátafélagið Heiðabúar standa fyrir hér í Reykjanesbæ. Skátarnir eru rótgrónir í íslensku samfélagi og gríðarlega margir sem geta státað sig af því að vera skáti því eitt sinn skáti ávallt skáti.
Ýmis verkefni hafa verið unnin og geta skátarnir haft áhrif á það hversu mikið þau vilja taka þátt eftir því sem þau verða eldri.
Skátarnir hittust einu sinni í viku í skátaheimilinu við Hringbraut 101 og héldu þar fund með foringjum sínum þar sem þau lærðu nýja færni, leiki og mynduðu nýjan vinskap.
Farið var í félagsútilegu í október á Úlfljótsvatni þar sem allt félagið fór saman og var mikið fjör.
Í mars 2024 fóru yngstu skátarnir okkar í heimsókn í Hveragerði en þar var haldinn hinn árlegi drekaskátadagur. Breyttust þar drekaskátarnir okkar í ninjur. Nutum við dagsins í Hveragerði þar sem dagskrá var fram eftir degi, farið var í ratleik og grillaðar voru pylsur og sykurpúðar
Helgina 31. maí til 2. júní 2024 var Drekaskátamót haldið á Úlfljótsvatni og var þemað í ár Sirkus.
Dagskráin var svipuð og síðustu ár en meðal annars var boðið upp á klifur, bogfimi, báta og hoppukastala.
Á laugardeginum var Karnival þar sem að skátarnir gátu unnið sér inn miða með því að leysa allskonar skemmtilegar þrautir og gátu svo keypt sér kandífloss, popp og ferð í hoppukastalana með miðunum.
Veðrið stríddi okkur en við létum það þó ekki stoppa okkur og nutum okkar úti í smá regni og roki. Sólin kom þó og kvaddi okkur með geislunum á sunnudeginum.
Helgina 7.–9. júní 2024 fóru átta dróttskátar ásamt fleiri skátum af höfuðborgarsvæðinu í göngu yfir Fimmvörðuháls. Ferðin hófst á því að farið var í Bása þar sem gist var í tjöldum eina nótt. Mótto ferðarinnar var „að njóta en ekki þjóta“. Lagt var af stað frá Básum í hádeginu á laugardeginum og gengið yfir Fimmvörðuháls. Gist var í skálum uppi á hálsinum og komið niður að Skógafossi um kvöldmatarleyti á sunnudeginum.
Lagt var af stað heim með rútu en þar með sagt voru ekki öll ævintýri helgarinar upptalin, því þegar við vorum rétt komin frá Hvolsvelli hvellsprakk á einu dekki rútunar.
Þar var bílstjórinn heppinn að hafa fulla rútu af skátum, þar sem skáti er ávallt viðbúinn, fór stór hluti foringja hópsins út að skipta um dekk á rútunni. Komið var til Reykjavíkur um miðnætti.
Hápunktur starfsársins var Landsmót skáta en það var haldið á Úlfljótsvatni vikuna 12.–19. júlí 2024. Var þetta fyrsta landsmótið eftir átta ára pásu. Fóru 27 skátar frá Heiðabúum ásamt foringjum á mótið. Heppnaðist mótið vel þrátt fyrir mikla rigningu og bleytu.
Hvað er framundan?
Í vetur ætla sveitirnar að hittast einu sinni í viku og hafa gaman saman. Á skátafundum eru unnin ýmis skátatengd verkefni (tálgun, útieldun, hnútar og margt annað). Skátarnir fá sjálfir að hafa áhrif á hvað gert er á fundum. Það er tekinn tími í að fá þeirra hugmyndir og reynt að framkvæma sem flestar. Við vinnum með lýðræði og að rödd allra fái að heyrast.
Farið verður í tvær félagsútilegur yfir helgi, eina fyrir áramót og aðra eftir áramót.
Einn dróttskáti frá Heiðabúum ætlar að taka þátt í vetraráskorun Crean þetta árið.
Verkefnið er samstarfsverkefni BÍS og Scouting Ireland. Crean vetraráskorun hefur verið haldin síðustu þrettán ár og stendur yfir sjö mánaða tímabili sem lýkur í viku ferð þar sem skátinn mun gista úti og fara ferða sinna fótgangandi. Verkefnið hefur verið vel sótt og frá Írlandi koma allt að þrjátíu skátar sem hafa farið í gegnum langt umsóknar-, mats- og undirbúningsferli og er BÍS með sextán pláss fyrir þátttakendur frá Íslandi.
Næsta sumar er stefnan síðan tekin á skátamót sem haldin verða fyrir hvert aldursbil.
Auk þess ætlum við að tendra skátaljósið og vera reglulega með kvöldvökur eins og okkur skátum einum er lagið.
Framundan er nýtt starfsár með nýjum ævintýrum og höfum við skátarnir margt að bjóða.
Í Skátafélaginu Heiðabúum er pláss fyrir alla þá sem vilja vera með og hafa gaman og kynnast nýju fólki.
Við bjóðum alla krakka hjartanlega velkomna að koma og prófa skátana.
Við verðum með skátafundi vikulega hjá öllum sveitum.
Drekaskátar (7–9 ára) ætla að hittast alla þriðjudaga kl 17:00–18:30
Fálkaskátar (10–12 ára) eru á mánudögum kl 17:00–18:30
Dróttskátar (13–15 ára) eru á þriðjudögum kl 20:00–21:30
Rekka og róver skátar (16–25 ára) eru á mánudögum kl 20:00–22:00
Fyrir hönd stjórnar Heiðabúa,
Katrín Auðbjörg Aðalsteinsdóttir, félagsforingi
Guðrún Magnúsdóttir, sjálfboðaliðaforingi