Hvað er nýsköpun og hverjir eru það sem stunda hana?
Laugardaginn 16. apríl mun Prófessor Kaj Mickos halda opinn fyrirlestur í Andrews Theater á Ásbrú undir yfirskriftinni "Hvað er nýsköpun og hverjir eru það sem stunda nýsköpun?" Fyrirlesturinn hefst kl. 13:00 og stendur í eina og hálfa klukkustund.
Aðgangur er frír og öllum opinn en fólk er beðið að skrá sig á vefsíðunni incubator.asbru.is fyrir miðnætti föstudaginn 15. apríl.
Í kjölfarið mun Prófessor Mickos halda tveggja tíma vinnustofu í glæsilegri aðstöðu Frumkvöðlasetursins á Ásbrú í Eldey. Dregið verður úr skráningum á fyrirlesturinn og nokkrir heppnir fyrirlestrargestir munu vinna pláss á vinnustofunni.
Það er Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) sem á veg og vanda af heimsókn Prófessor Mickos hingað til lands en hann heimsótti einnig Ásbrú á Ljósanótt 2009 og hélt þá fyrirlestur og vinnustofu fyrir um 130 manns sem mæltist mjög vel fyrir.
Um Kaj Mickos
Kaj Mickos hefur starfað sem prófessor í nýsköpunarfræðum í Svíþjóð. Bakgrunnur Mickos er í atferlisfræði og sem nýsköpunarfrömuður. Hann á 30 einkaleyfi og hefur stofnað 15 fyrirtæki, einn eða með öðrum. Hann starfar nú í fyrirtæki sínu, Innovation Plant, sem hjálpar fyrirtækjum, stofnunum, landsvæðum og þjóðum að þróa nýsköpunarferla.
Rannsóknir Kaj Mickos hafa fyrst og fremst verið á því sviði að finna hraðari, nákvæmari, áhrifaríkari og hagkvæmari leiðir til nýsköpunar. Hann hefur þróað framleiðslukerfi fyrir nýsköpun, Innovation Plant módelið, byggt á rannsóknum sínum. Mickos þróaði einnig 72 tíma nýsköpunarkapphlaupið sem notar Innovation Plant módelið. Í 72 tíma kapphlaupinu byrjar ferlið með því að skilgreina vandamál og nýsköpun er notuð til að finna lausnir á því vandamáli. Lausnin leiðir til vara eða þjónustu sem eru tilbúin á markað.
Fyrirlestur Kaj Mickos: Hvað er nýsköpun og hverjir eru það sem stunda nýsköpun?
Í fyrirlestri sínum mun prófessor Kaj Mickos tala um goðsagnir og hugmyndir um nýsköpun og þá sem hana stunda. Með því að taka dæmi úr raunveruleikanum og ræða um hvernig nýsköpunarsérfræðingar horfa á nýsköpun í dag vill Kaj varpa ljósi á málefnið og gera hlustandanum grein fyrir því að með réttu verkfærunum getur hver sem er stundað nýsköpun.
Vinnustofan: Frá vandamáli til nýsköpunar
Hvað þarf til nýsköpunar? Í þessari tveggja tíma vinnustofu mun Prófessor Kaj Mickos sýna fram á flækustigið, en jafnframt einfaldleikann, við að finna lausnir á vandamálum og stunda nýsköpun. Meðal annars verður farið í hópæfingu sem lætur reyna á nýsköpunarhæfileika þátttakenda.
Innovation Plant hefur haldið tuttugu og eitt 72 tíma kapphlaup um allan heim fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Nýlega héldu Innovation Plant og Kaj Mickos kapphlaupið í Swedish Pavilion á heimssýningunni í Shanghæ 2010.
Kaj Mickos hefur einnig stjórnað 16 sjónvarpsþáttum um nýsköpun í sænska ríkissjónvarpinu.
Frekari upplýsingar um Kaj Mickos og Innovation Plant má finna á www.innovationplant.se