Aðsent

Hvað er frúin að pæla?
Föstudagur 27. október 2017 kl. 06:00

Hvað er frúin að pæla?

Að fæðast með fötlun eða missa starfsgetuna er ekki það sem fólk óskar sér heldur gerist margt í lífinu sem við getum ekki vitað fyrirfram. Ég skil vel þá sem eru á örorku, gæti ekki lifað sjálf á þeim launum sem þeim er boðið upp á og þar sem ég veit þetta persónulega þá að sjálfsögðu myndi ég ekki lofa upp í ermina á mér heldur vinna að þeirra hag.

Ég er sjálf öryrki eftir vinnuslys, en nám hefur fleytt mér þangað sem ég er í dag. En það eru margar hindranir fyrir öryrkja að komast þangað, þeir þurfa að lifa eins og aðrir en ef þeir fara í fullt nám lítur TR á það sem fulla vinnu og fólk missir laun sín frá TR, er sagt að sækja um námslán. Þetta er stór hindrun fyrir öryrkja því ef þeir missa þessi laun og er gert að sækja um námslán geta þeir enn frekar fests í fátæktargildru á þann hátt að ef þeir ná ekki vegna sinnar fötlunar eða veikinda að ljúka námi þá sitja þeir í verri stöðu að fara aftur á laun frá TR og nú með námslánaskuldir á bakinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er dyggð að spara og eiga sparnað til efri ára. En er þetta rétt? Nei, því ef þú sparar og átt einhverjar krónur til að njóta efri áranna þá eru tekjur þínar skertar, krónu á móti krónu. Þetta heitir þjófnaður og engin ástæða að fela þessa aðgerð ríkisvaldsins á baki við sykurhúðaðar reglur þar sem reynt er að slá ryki í augu kjósenda um að það sé bara ekki hægt að gera þetta öðruvísi. Í mínum huga er þetta einfalt, afnema strax tekjutengingar og hætta með öllu að ræna fólk.

Heilbrigðisþjónusta er mannréttindi, það eiga allir að sitja við sama borð þegar kemur að heilsugæslu og annarri læknisþjónustu, það á ekki að skipta máli hvort þú búir í Fljótshlíð eða Reykjavík hvort þú fáir fyrsta flokks þjónustu eður ei. Það er tekið fram í lögum að ALLIR eigi rétt á heimilislækni en íbúar í Suðurkjördæmi njóta þess réttar ekki, má þakka fyrir að fá tíma hjá lækni á dagvinnutíma, oftast þarf að sækja tíma á dýrasta tímanum, þ.e að fara á vaktina eftir klukkan 16 eða á bráðavaktina. Til þess að halda utan um fólkið sem hefur menntað sig til þjónustu í heilbrigðisgreinunum og fá það til vinnu á landsbyggðinni þarf að bjóða laun sem fylgja þessari ábyrgð og menntun, bjóða að auki góðar starfsaðstæður. Einnig mætti hugsa sér að þeir sem mennta sig á þessu svið og ráða sig út á landsbyggðina í x mörg ár gætu fengið námslánaskuldir felldar niður að hluta eða öllu leiti sem út af standa. Að geta átt heimili eru mannréttindi en eins og staðan er í dag eru þessi réttindi fótum troðin. Unga fólkið situr í þeirri stöðu að þurfa að búa í foreldrahúsum fram á þrítugs- eða fertugsaldur, nú eða þangað til foreldrarnir flytja að heiman á ellideildina. Það hvílir sú lagalega skylda á fólk að það sé staðsett í húsi og þá þarf fólk að hafa húsnæði en einnig hvílir sú skylda á sveitarfélög að sjá fólki fyrir húsnæði sem getur það ekki sjálft, þetta er brotið daglega. Á Suðurnesjum hef ég átt frumkvæði að og fengið til liðs við mig fólk úr öðrum flokkum til þess að stofna óhagnaðardrifið húsnæðissamvinnufélag sem stefnir að byggingu 60 til 80 íbúðaklasa í Reykjanesbæ og ef vel gengur, verður horft til fleiri byggðarlaga. Þessar íbúðir eru langtíma leiguréttaríbúðir að norrænni fyrirmynd með ca. 20% lægri leigu og fólk getur búið í þeim eins lengi og það vill á meðan það greiðir leigu og fer að reglum. Þetta húsnæðisform er eitt helsta baráttumál Dögunar í þessum málaflokki og ég tel þetta form eitt það skynsamlegasta sem hægt væri að bjóða ungu fólki í dag. Sumir velja það líka að leigja og nota peninga sína í annað.

Flestir vegir eru löngu komnir á tíma varðandi viðhald og því mun dýrara í framkvæmd. Í Suðurkjördæmi eru Reykjanesbraut og Suðurlandsvegur auk Hellisheiðar þær umferðaræðar sem eru löngu komnar á tíma. Þessir vegir eru með þeim hættulegustu á landinu sökum álags, fjölda og hraða ökutækja. Á þessum vegum verða einnig flest alvarlegustu slysin og dauðaslysin. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt (fyrir exel fólkið) að stórbæta þessar umferðaræðar. Það á ekki að setja vegatolla á þessa vegi heldur nota það sem nú er tekið af bifreiðaeigendum í þau verkefni. Það er heldur engin sanngirni í því að suðvesturhornið, sem er eitt atvinnusvæði, rukki menn fyrir það að fara í og úr vinnu, það er kjararýrnun.

Fólk skiptir e.t.v. um starfsvettvang tvisvar til þrisvar á ævinni, þarf þá að eiga möguleika á meira námi eða öðru námi sem hentar nýju starfi. Vegna þessa þá er ótækt að loka á fólk eldra en 25 ára í framhaldsskólum og sé ekki alveg hvernig það þjónar samfélaginu sem krefst aukinnar menntunar og sérhæfingar. Þetta hlýtur að líta vel út í exel, það er eina skýringin sem ég gæti séð.

Velferðarráðuneytið hefur látið reikna út hvað það kostar að lifa og án þess að húsnæðiskostnaður sé tekinn með. Niðurstaðan er sú að velflestir elli- og örorkulífeyrisþegar, auk þeirra sem eru á lægstu launum, eru langt fyrir neðan þau framfærsluviðmið og fólkið þarf samt að greiða húsnæðið með þeim tekjum. Að keyra fram hjá fjölskylduhjálpinni á fimmtudögum og sjá þar fjölda fólks sem kemur til þess að fá matargjafir er ótrúlega sárt, það á ekki að þurfa í svona ríku landi að setja fólk í þá stöðu að þurfa slíka hjálp.

Skatta sem jöfnunartæki að norrænni fyrirmynd, því lengra sem þú býrð frá þjónustunni því lægri skatta greiðir þú. Þetta finnst mér mjög sanngjörn og eðlileg krafa.

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir 1. sæti í Suðurkjördæmi
Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði