Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 6. nóvember 2001 kl. 09:31

Hvað er félagsleg heimaþjónusta?

Félagsleg heimaþjónusta stuðlar að því, að gera öldruðum, fötluðum og sjúkum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Starfsmenn hafa ævinlega „hjálp til sjálfshjálpar” að leiðarljósi.
Hlutverk þjónustunnar er að veita aðstoð við heimilishald, útréttingar, persónulega aðhlynningu, stuðning, umönnun og félagsskap.
Leitast er við að mæta einstaklingsbundnum þörfum hverju sinni. Einstaklingsbundið þjónustumat tekur mið af þörfum, aðstæðum og færni þjónustuþega. Félagslegur stuðningur er órjúfanlegur og samverkandi þáttur í starfsemi heimaþjónustunnar, því er jafnframt lögð áhersla á samveru, áhugamál viðkomandi og ýmiskonar hvatningu.

Félagsleg heimaþjónusta skiptist í eftirfarandi þrjá þætti:
1. heimilishjálp
2. heimsóknarþjónustu
3. heimsendingu matar

Við þjónustumat eru samræmdar starfsreglur til viðmiðunar. Þannig er reynt að stuðla að því að allir séu jafnir gagnvart heimaþjónustu.
Heimsending matar er fyrir þá sem ekki geta annast matseld sjálfir. Maturinn er greiddur af þeim sem hans njóta en sveitafélagið sér um dreifingu þeim að kostnaðarlausu.
Gjaldskrá heimaþjónustu er skv. ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hverju sinni. Þjónustan er niðurgreidd. Undanþegnir greiðslu eru þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en sem nemur óskertum bótum almannatrygginga.
Starfsmönnum heimaþjónustu ber að virða friðhelgi heimilisins og sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings. Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu.
Sótt er um heimaþjónustu og heimsendan mat hjá öldrunarfulltrúa Reykjanesbæjar á bæjarskrifstofunum Tjarnargötu 12, Keflavík, Reykjanesbæ.

Elsa Kjartansdóttir
verkstjóri heimaþjónustu
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024