Aðsent

Hvað er börnunum okkar fyrir bestu?
Þriðjudagur 10. mars 2015 kl. 13:28

Hvað er börnunum okkar fyrir bestu?

Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar skrifar:

Umræða um svokallað áfengisfrumvarp hefur verið áberandi á síðustu vikum og mánuðum og  sýnist sitt hverjum um það. Sumir hafa spurt hvað standi því í vegi að við leyfum frjálsa sölu á áfengi og þar með talið í matvöruverslunum eins og gert er ýmsum nágrannalöndum okkar. Það er svo sem eðlilegt að spurt sé en ég verð þó að segja að ég minnist þess ekki að hafa hitt fólk hér á landi sem hefur átt í umtalsverðum vandræðum með að nálgast áfengi. Og ég er alls ekki viss um að það sé til eftirbreytni fyrir okkur hvernig sumar nágrannaþjóðir okkar hafa staðið að þessum málum.

En hvað sem því líður byggjast mínar skoðanir og mín afstaða í þessu máli á allt annarri spurningu. Og hún er. - Hvað er börnunum okkar fyrir bestu?
Mér finnst að svarið við þeirri spurningu eigi að vera mikilvægasta leiðarljósið fyrir okkur  í þessu máli og raunar mjög mörgum öðrum málum. Það er oft sagt á tyllidögum að börnin séu okkar mesti fjársjóður og að þeirra sé framtíðin. Þetta er auðvitað hárrétt og ég er sem þingmaður ákveðinn í að taka þetta mjög alvarlega. Ég ætla að leggja þennan mælikvarða á flest mál og láta það sem úr því kemur ráða afstöðu minni.
Okkur er treyst fyrir börnunum, öllum börnum okkar og annarra og við berum saman ábyrgð á því að búa þannig að þeim og skila þeim þannig út í lífið að þau geti orðið heilsteypt fólk sem byggir hér upp gott samfélag þar sem allir fá tækifæri til að þroskast, höndla hamingjuna og taka virkan þátt í að móta framtíðina.

Er meiri aðgangur að áfengi en nú er líklegur til að stuðla að því að við getum staðið okkur vel í þessu verkefni? – Ég held ekki.

Er meiri aðgangur að áfengi og þau skilaboð, bein og óbein, að áfengi sér eðlilegur hluti af daglegri neyslu fólks til þess fallinn að gera okkur það verkefni auðveldara? – Ég held ekki.

Er æskilegt að rauðvín og bjór sé stillt upp í matvöruverslunum með súrmjólk, ávaxtasafa og kartöflum? – Ég held ekki.

Felast skilaboð í því sem munu ekki fara fram hjá börnunum okkar? – Ég er ekki í nokkrum vafa um það.
Ég er sannfærður um að ef aðgangur að áfengi verður meiri en nú er í íslensku samfélagi og áfengið verður meira áberandi og að þau skilaboð verða þannig gefin, beint og óbeint, að áfengisneysla sé eðlilegur hluti af daglegu lífi fólks muni fleiri börn og ungmenni missa fótanna og fara út af sporinu. Mörg þeirra munu aldrei ná áttum aftur og fara meira eða minna á mis við lífið. – Ég er ekki tilbúinn að taka þá áhættu
Ég er líka sannfærður um að ef aðgangur að áfengi verður aukinn munu fleiri börn og ungmenni þurfa að alast upp við aðstæður þar sem uppeldi þeirra og aðbúnaður og samskipti fólks eru neikvæð og spillt af ofneyslu og misnotkun áfengis. Ég er sannfærður um að þá munu fleiri börn þurf að búa við óöryggi og kvíða, vanrækslu og jafnvel ofbeldi í stað þess að njóta æskunnar og geta einbeitt sér að því að byggja sig upp fyrir lífið. – Ég er ekki tilbúinn að taka þá áhættu.

Ég held líka að það sé alls ekki að ástæðulausu að samkvæmt stefnu stjórnvalda fá árinu 2013 í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 er eitt helsta markmiðið „að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“  Og þar segir einnig: „Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi.“ – Hvernig samræmist áfengisfrumvarpið þeim markmiðum?
Ég hef fengið það verkefni að vera einn talsmanna barna á Alþingi og undirritaði yfirlýsingu um það á samkomu UNICEF, Barnaheilla og Umboðsmanns barna á 25 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember síðastliðnum. Ég tek þetta hlutverk mjög alvarlega og er afskaplega ánægður með að hafa fengið það vegna þess að mér finnst þetta vera mikilvægasta og áhugaverðasta verkefni sem mér hefur verið treyst fyrir.
Í Barnasáttmálanum er sú skylda lögð á ríki að taka mjög mikið tillit til hagsmuna barna við setningu laga. - Gera það sem er börnunum fyrir bestu.  
Ég held að þetta áfengisfrumvarp samræmist mjög illa því mikilvæga markmiði. – Þess vegna er  ég á móti því.

Páll Valur Björnsson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024