Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað er að gerast í skipulagsmálum?
Föstudagur 14. maí 2021 kl. 10:56

Hvað er að gerast í skipulagsmálum?

Áhugi bæjarbúa á umhverfis- og skipulagsmálum hefur farið vaxandi undafarin ár og er það vel því mikilvægt er að sem flestir bæjarbúar komi að því að móta umhverfi okkar og hafi áhrif á hvernig bærinn þróast. Frá 2014 hefur stefnan verið að upplýsa íbúa markvisst um skipulagsmál og auðvelda aðkomu þeirra að skipulagsvinnu – því þannig gerum við bæinn okkar einfaldlega betri. Ákveðin áskorun hefur falist í því að virkja þennan áhuga, beina athugasemdum og ábendingum bæjarbúa í skýra farvegi sem gott verklag í stjórnsýslunni og skipulagslög kalla á.

Leitast hefur verið eftir að tryggja aðkomu bæjarbúa að endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar sem stendur nú yfir. Boðað var til íbúaþings í byrjun aðalskipulagsvinnunnar og í framhaldinu voru haldnir íbúafundir í öllum hverfum bæjarins haustið 2019 þar sem gott samtal átti sér stað og góðar hugmyndir komu fram. Þá hafa fjölmargir bæjarbúar sent inn ábendingar á vefnum og í tölvupósti sem skilað hafa sér til starfshópsins sem vinnur að endurskoðun aðalskipulagsins. Tillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi verður svo auglýst í sumar og þá gefst íbúum aftur tækifæri til þess að koma með ábendingar og athugasemdir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðalskipulag gefur tóninn

Mikilvægt er að vanda vel til verka og tryggja að sem flest sjónarmið komist að því aðalskipulag sveitarfélags er mjög mikilvægur leiðarvísir um það hvernig við viljum hafa bæinn okkar, hvað við viljum hafa hvar, hvaða línur við leggjum til framtíðar og hvernig við viljum sjá bæinn okkar þróast. Megináherslur núgildandi aðalskipulags voru vel ígrundaðar í síðustu endurskoðun sem hófst 2014 og vilji kom fram á íbúaþinginu og íbúafundunum haustið 2019 til þess að halda áfram á þeirri braut.

Megináherslur Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2015–2030

Þétting byggðar

Áhersla á hönnun bæjarrýmis, yfirbragð hverfa og bygginga

Endurskipulagning vannýttra svæða

Vinna með séreinkenni svæðisins og styrkja uppbyggingu

Skapa lifandi og skemmtilegan miðbæ

Fjölbreyttari, greiðari og öruggari samgöngur

Vinna við aðalskipulagið felst líka í því að móta bænum stefnu í mikilvægum málum. Umhverfis- og skipulagsráð og framtíðarnefnd unnu saman að því að móta metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir bæinn okkar sem bæjarstjórn hefur staðfest og unnið er að samgöngustefnu Reykjanesbæjar sem verður einnig hluti af aðalskipulaginu eins og umhverfis- og loftslagsstefnan.

Deiliskipulag útfærir nánar

Öll önnur skipulagsvinna í bænum okkar er unnin innan ramma aðalskipulagsins og tekur því mið af ofangreindum megináherslum þess. Segja má að aðalskipulagið rammi inn heildarmyndina en deiliskipulög sem unnin eru teikni nánari útfærslur inn í þá mynd – í samræmi við aðalskipulagið.

Lagt hefur verið í skipulagsvinnu á mörgum svæðum í bænum undanfarin ár sem ekki hefur verið vanþörf á því stór svæði í bænum hafa ekki verið deiliskipulögð. Mikil vinna hefur verið lögð í deiliskipulagsvinnuna og rammaskipulag fyrir ákveðin svæðið þar sem stærri svæði eru undir.

Unnið hefur verið metnaðarfullt rammaskipulag fyrir Ásbrú og hafin er gerð rammaskipulags fyrir Vatnsnes en nokkur deiliskipulagsverkefni eru í vinnslu þar. Horft er til rammaskipulags fyrir Reykjanestá með það að markmiði að skilgreina svæði til verndar eða nýtingar nánar en í aðalskipulagi og veita nánari leiðbeiningar við uppbyggingu þar sem það á við.

Fjöldi íbúðahverfa, miðsvæða og útivistarsvæða hafa verið deiliskipulögð undanfarin ár eins og Hliðarhverfin tvö með hundruðum íbúða, Hafnargata 12 með 40 íbúðum (SBK-reiturinn), Skólatorg með 86 íbúðum (milli Hafnargötu og Suðurgötu ofan Litla skólans), Framnesvegur með 68 íbúðum (við gömlu sundhöllina), Víkurbraut/Hafnargata með 81 íbúðum (Saltgeymslu-reiturinn) og Sólbrekkur við Seltjörn þar sem unnið er að uppbyggingu útivistarperlunnar okkar í samræmi við nýgert deiliskipulag. Ekki má gleyma endurskoðun á deiliskipulagi Nesvallahverfisins með hundruðum íbúða og tvöföldun á hjúkrunarheimilinu, þar er  uppbygging hafin og hjúkrunarheimilið að komast á byggingarstig. Þá staðfesti bæjarstjórn á dögunum metnaðarfullt deiliskipulag í hjarta bæjarins við Hafnargötu/Klapparstíg/Tjarnargötu með 34 íbúðum og síðast en ekki síst er Dalshverfi 3 í Innri-Njarðvík með 300 íbúðum sem verður klárt til úthlutunar síðsumars.

Mikil skipulagsvinna í gangi

Áfram verður unnið að skipulagsvinnu af miklum krafti. Nýtt deiliskipulag fyrir Fitjarnar, þar sem lögð er áhersla á náttúruna og lýðheilsu, er á lokastigi. Verið er að skoða skipulag efsta hluta Hringbrautar og slökkviliðsstöðvarlóðina, spennandi svæði sem er að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga. Á reitinn kæmi blönduð notkun íbúða og þjónustu.

Hafnarsvæðin í Reykjanesbæ verða endurskipulögð í samræmi við breyttar áherslur og fyrst í röðinni er Njarðvíkurhöfn. Undirbúningur er hafinn fyrir skipaþjónustu í Njarðvík með stækkun athafnasvæðis Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, nýjum viðlegukanti og endurskoðun deiliskipulags iðnaðarsvæðisins við Fitjabraut. Stýrihópur hefur verið skipaður til að vinna rammaskipulag fyrir svæðið.

Hafin er vinna við deiliskipulag á nokkrum lykilsvæðum á Ásbrú. Deiliskipulagsverkefni eru í vinnslu á Vatnsnesinu, svæðið í kringum Vatnsneshúsið, reitur við Hrannargötu og Byko-reiturinn. Áfram er litið til Hafnargötunnar og stefnt að gerð deiliskipulags fyrir samliggjandi lóðir nr. 15–39 við Hafnargötu að Ægisgötu og upp að Suðurgötu að hluta. Vinnu rammaskipulags vegna heilsuþorps við Grindavíkurafleggjara er lokið og stefnt á að deiliskipulagsvinna hefjist á árinu.

Þá er hafin undirbúningsvinna að skipulagsbreytingum á íþrótta- og útivistarsvæðinu við Njarðvíkurskóga. Aðlaga þarf deiliskipulag íþróttasvæðis að breyttum áherslum, skilgreina umfang Njarðvíkurskóga og undirbúa staðsetningu grunnskóla og vegtenginga.

Af ofantöldu er ljóst að starfsfólk umhverfis- og skipulagsviðs hefur ekki slegið slöku við í skipulagsmálum frekar en í öðrum málaflokkum sem undir þau heyra.

Má bjóða þér í umhverfis- og skipulagsrölt?

Sem fyrr segir þá hefur frá 2014 verið lögð höfuðáhersla á að upplýsa bæjarbúa um og auðvelda beina aðkomu þeirra að skipulagsvinnu í bænum okkar. Haldin hafa verið íbúaþing og hverfafundir þegar unnið er að aðalskipulagsbreytingum og gætt hefur verið að lögboðnu kynningar- og auglýsingaferli við skipulagsbreytingar. Því til viðbótar hafa verið haldnir íbúafundir í hvert skipti sem meiriháttar deiliskipulag er í kynningarferli til þess að upplýsa bæjarbúa og kalla eftir athugasemdum þeirra og ábendingum.

Íbúafundirnir hafa reynst mikilvægir, t.d. tók skipulagið á reitnum í kringum Hafnargötu 12 miklum breytingum til batnaðar í kjölfar fyrri íbúafundar um það svæði. Kófið hefur vissulega sett strik í reikninginn en við höfum haldið okkar striki með því að halda íbúafundina á netinu – og víst er að með aukinni æfingu þá verðum við betri í því. Leitað verður áfram allra leiða til þess að upplýsa bæjarbúa um þá skipulagsvinnu sem í gangi er og auðvelda þeim að koma með athugasemdir eða ábendingar. Þessa dagana erum við í umhverfis- og skipulagsráði að taka samráðið við íbúa skrefinu lengra með gerð viðhorfskannana meðal íbúa í grónum hverfum þar sem verið er að skoða breytingar eins og t.d. í Ásahverfinu – áður en lagt er upp í formlegt skipulagsferli.

Það er aldrei nógu mikið rætt og spjallað um bæinn okkar að mínu mati, hvernig við viljum byggja hann til framtíðar. Í takt við það mun ég á næstu misserum að bjóða áhugasömum í umhverfis- og skipulagsrölt um áhugaverð svæði í bænum. Fyrsta röltið verður um Fitjar laugardaginn 15. maí og hefst klukkan 12:00 frá gömlu steypustöðinni (þar sem endurnar og álftirnar eru). Allir eru velkomnir í röltið.

Eysteinn Eyjólfsson,
formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar.