Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Við upphaf nýs árs horfum við fram á veginn og veltum fyrir okkur hvað árið muni bera í skauti sér og leggjum á ráðin um hvernig við best náum markmiðum okkar. Þá er gott að líta um öxl og nýta reynslu fyrri ára til að gera enn betur á því nýja.
Í stjórnmálunum urðu skörp kaflaskil með kosningunum síðastliðið vor. Í stað vinstristjórnar, sem forðaði landinu frá gjaldþroti og endurreisti samfélagið við fordæmalausar aðstæður í kjölfar efnahagshruns, kom hægristjórn. Með aðgerðum vinstristjórnarinnar var jöfnuður í landinu aukinn og margt fært til betri og sanngjarnari vegar en aðgerðir hægristjórnarinnar hafa miðað að því að auka ójöfnuð og færa fjármuni til þeirra sem nóg hafa fyrir frá þeim sem ekki eru aflögufærir.
Vinstristjórnin náði ekki að gera allt sem nauðsynlegt var að gera við þessar aðstæður á aðeins fjórum árum en lagði grunn að mörgu sem unnt hefði verið að byggja á. Hægristjórnin hefur nú afturkallað margt það besta úr áætlunum sem fyrri ríkisstjórn gerði til lengri tíma. Þar á meðal eru mál er varða atvinnustefnu, byggðastefnu, stefnu í utanríkismálum og náttúruvernd. Allt eru þetta málaflokkar sem brenna á öllum landsmönnum og ekki síst á okkur í Suðurkjördæmi.
Hægristjórnin lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að skera niður styrki við nýsköpunarverkefni og skapandi greinar. Þar eru þó helstu vaxtasprotar atvinnulífsins og tengjast fjölbreyttum atvinnutækifærum og óhefðbundnum leiðum til að efla byggðalög sem hafa verið í lægð. Okkar mikilvægasta atvinnugrein, sjávarútvegurinn, er háð náttúrulegum takmörkunum. Það er stóriðjan einnig og reyndar ferðaþjónustan líka. Allt eru þetta greinar sem lifa á auðlindum þjóðarinnar. Þær takmarkanir há hins vegar ekki nýsköpunargreinum sem geta, m.a. byggt á afurðum frá fiskverkun. Þá starfsemi eigum við að styrkja í sjávarbyggðum og aðra nýsköpun, hugvit og skapandi greinar um allt land og hlúa að sprotum sem geta vaxið og gefið af sér arð þó síðar verði.
Aukinn jöfnuður
Stjórnarandstöðunni tókst með baráttu sinni í tímahraki stjórnarmeirihlutans fyrir jól, að fá aukið fjármagn til nýsköpunar, skapandi greina og til að halda áfram vinnu með brothættar byggðir. Einnig tókst okkur að tryggja greiðslu desemberuppbótar fyrir atvinnulausa, afnám sjúklingagjalds og færa efra viðmið lægsta skattþreps ofar. Þannig tókst okkur að bæta fjárlagafrumvarpið en það er eftir sem áður langt frá því að samræmast stefnu jafnaðarmanna.
Ég hef verið hugsi yfir því sem ein ágæt kunningakona mín sagði þegar ég var að gleðjast yfir þeim árangri sem stjórnarandstaðan náði fyrir jól og hvað sá árangur skipti marga máli. Hún sagði: „Já, þið létuð stefnu ríkisstjórnarinnar líta betur út. Þið gerðuð ásýnd hennar mildari og hafið sennilega lengt líf hennar líka og það hefur slæm áhrif á líf margra til lengri tíma litið.“ Þetta er umhugsunarefni en samt held ég að við hefðum alltaf barist gegn eyðileggjandi áformum hægristjórnarinnar vegna þess að við vitum hversu margir hefðu annars liðið fyrir þá stefnu. Í þessari lotu hefðu það verið atvinnulausir, þeir sem eru svo veikir að þeir þurfa sjúkrahússvist, fólk með lág laun, ungir vísindamenn, frumkvöðlar á ýmsum sviðum og brothættar byggðir með erfið búsetuskilyrði.
Það er von mín að á nýju ári verði fleiri til að leggja hönd á plóg til að auka jöfnuð í okkar annars ágæta samfélagi og til að auka fjölbreytni í atvinnulífi með stuðningi við ungt fólk, nýsköpun og skapandi greinar. Með því búum við til enn betra samfélag fyrir alla.
Með kærum nýárskveðjum,
Oddný G. Harðardóttir
alþingismaður Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands