Hvað ætlum við að gera fyrir eldri borgara?
– Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir
Þau voru misjöfn viðbrögðin þegar ég tilkynnti mínum nánustu að ég ætlaði að gefa kost á mér í bæjastjórnarkosningum nú í vor. Ekki að fólkið mitt hafi ekki haft trú á mér eða málstaðnum heldur voru þau hrædd um viðhorf fólks og framkomu við þá sem gefa sig að pólitíkinni. Bæjarbúar hafa misjafnar skoðanir á pólitík og gleyma því oft að við sem tökum þátt í pólitíkinni erum líka fólk, fólk með tilfinningar og hjarta.
Við þurfum að virða hvert annað, við búum við lýðræði og eigum öll rétt á að hafa skoðanir. Ég ákvað að gefa mig í þetta af einlægri væntumþykju um bæinn minn, þar sem ég hef alist upp og el börnin mín upp. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að gera Reykjanesbæ að enn betri bæ til að búa í og ala upp börnin okkar. Ég vona það að hér í þessum fallega bæ muni ég njóta þeirrar gæfu að fá eldast.
Öll vonumst við eftir að fá tækifæri til að lifa góðu lífi og njóta eldri áranna. En hvað ætlum við að gera fyrir eldri borgarana okkar?
Fyrir 20 árum þegar ég hóf störf sem fótaaðgerðafræðingur, þjónustaði ég eldri borgara í heimahúsum, dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum en ég sá ég strax að þörf væri fyrir betri þjónustu við aldraða. Hlévangur var þá rekið sem dvalarheimili en ekkert hjúkrunarheimili var rekið hér í bæ, heldur þurfti fólk að reiða sig á nágrannasveitafélögin Garð og Grindavík. Reyndar finnst mér það ekki aðalmálið, því samvinna sveitarfélaga hér á Suðurnesjum er nauðsynleg.
Árið 2005 breyttist Hlévangur og varð hjúkrunarheimili að hluta og þar með þurfti fólk ekki að flytjast þaðan þegar heilsunni hrakaði. Með tímanum urðu svo öll 30 rúmin á Hlévangi að hjúkrunarrúmum.
Nýlega var opnað nýtt hjúkrunarheimili að Nesvöllum með 60 herbergjum. Garðvangur sem var með 38 vistmenn, var lokað og heimilismenn þar fluttu á Nesvelli. Frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja voru 21 fluttir til Nesvalla, 18 manns sem voru með vistunarmat og höfðu verið þar lengi, plús þrír aðrir sem ekki gátu farið aftur heim sökum heilsubrests. Eftir stóðu fá pláss fyrir aðila sem bjuggu heima og voru í mestri þörf. Samkvæmt mínum upplýsingum eru nú átta manns á legudeildinni og 29 manns komnir á biðlista eftir plássi á Nesvöllum.
Þetta eru engan veginn nægjanleg rými hjá sveitarfélagi á stærð við Reykjanesbæ. Við hjá S-listanum teljum að við þurfum strax að hefjast handa við að auka hjúkrunarrými í Reykjanesbæ eða á Suðurnesjum og það gerum við með því að efla samstöðu Suðurnesjamanna um frekari uppbyggingu. Við verðum að tryggja öldruðum öryggi.
Mér þykir mikil synd að hér sé ekki til dvalarheimili, því hjúkrunarheimili er jú fyrir fólk sem þarf á hjúkrun að halda. Ég hef aldrei skilið þessa stefnu að allir eigi að vera heima eins lengi og unnt er. Einangrun er aldrei af hinu góða , allt of margir búa við öryggisleysi og margir eru í þeirri stöðu að aðstandendur vinna allan daginn og hafa lítil tök til að hugsa um aldraða foreldra. Við þurfum að hlúa betur að þeim sem heima eru og sjá til þess að allir búi við mannsæmandi aðstæður og fái þá þjónustu sem þeir þurfa inn á heimili sín.
S-listinn mun bæta og auka öryggi aldraðra í heimahúsum og koma á öldrunarráði. X við S á kjördag hjálpar okkur að gera allt til þess að hlúa eins vel og mögulegt er að eldri borgurum í Reykjanesbæ.
Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir
8. sæti á S-listanum