Hvað á ég að kjósa?
Það hefur farið lítið fyrir stefnuskrám sumra þeirra flokka sem bjóða fram lista til bæjarstjórnar kosninga hér í Reykjanesbæ þetta árið. Þeir sem hafa birt opinberlega sýna stefnuskrá þegar þetta er skrifað eru Píratar og Framsókn. Það eru 17 dagar til kosninga og einungis tveir eru með sín mál á hreinu hvað varðar atvinnuviðtalið við okkur íbúa.
Þetta er góðfúsleg ábending til þeirra sem eru í atvinnuleit hjá okkur íbúum. Fyrir fáeinum vikum hófst eitt stærsta atvinnuráðningarferli hinna ýmsu aðila hérna í bæjarfélaginu okkar, eða það ætti allavega að vera hafið. Fyrirgefið en mér finnst sumir vera að mæta frekar seint í viðtalið, sérstaklega með það í huga að það eru bara tæpar þrjár vikur til stefnu. Til þess að íbúar geti myndað sér heilstæða skoðun á því hvern þeir vilja ráða, ættu hlutir eins og stefnuskrá að liggja fyrir allavega fimm til sex vikum fyrir eiginlegan ráðningadag að manni finnst. Ekki bara skutla henni í okkur kjósendur svona tveimur til þremur vikum fyrir settann dag. Oddvitar þeirra flokka sem eru ekki tilbúnir núna gætu kannski sett það í minnið fyrir næstu kosningar að mæta betur undirbúnir og fyrr til leiks en þeir eru að gera núna. Sýnið okkur kjósendum þá virðingu að hafa smá metnað fyrir því hvers vegna við ættum að ráða ykkur í vinnu. Við erum að ráða ykkur í hlutverk sem hefur beina tenginu við afkomu og líf okkar allra íbúa hérna í Reykjanesbæ næstu fjögur árin. Þetta er mikið ábyrgðar hlutverk sem þið eruð hugsanlega að ganga inn í en ekki eitthvað sem á að vinna með hangandi hendi.
Kveðja
Einar M Atlason
Íbúi Reykjanesbæjar