Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað á bæjarstjórinn við?
Fimmtudagur 11. janúar 2007 kl. 10:16

Hvað á bæjarstjórinn við?

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, segir í Fréttablaðinu 4. janúar s.l. að gerðar verði ríkar kröfur til mengunarvarna hjá hugsanlegu álveri i Helguvík. Hann segist vita að til sé fullkomnari mengungarvarnartækni en sá sem hingað til hefur verið notaður í álverum hér á landi og að hann vilji að slíkur búnaður verði notaður. Hvers konar tækni bæjarstjórinn er að vísa til er þó ekki ljóst og mikilvægt er að hann greini opinberlega frá því hann hefur í huga. Hingað til hafa tvær leiðir í mengunarvörnum álvera verið ræddar á Íslandi, þurrhreinsun og vothreinsun. Hin síðarnefnda er betri kostur m.t.t. til loftmengunar. Ekkert álver á Íslandi hefur vothreinsibúnað enda er þess konar búnaður dýrari.

Vel má vera að bæjarstjórinn vilji að Norðurál gangi mun lengra í mengunarvörnum í Helguvík en á Grundartanga, en eitt er vilji og annað er vald og það er einfaldlega ekki á valdsviði sveitarstjórna að ákveða hvaða mengunarvarnarbúnaður er notaður. Umhverfisstofnun ákvarðar um slíkt og til þessa hefur stofnunin látið nægja að umhverfismörkum sé náð utan þynningarsvæðis. Innan þynningarsvæðis má mengun hins vegar vera yfir leyfilegum  mörkum enda svæðið utan byggðar.

Nýlega bárust þær fréttir að álverið yrði fært um set norður í Garðinn. Breytt staðsetning kann að gefa Norðurálsmönnum svigrúm til þess að nota lakari mengunarvarnabúnað en ella þar sem álverið verður fjær íbúabyggðinni.

Í sömu frétt í frétt segir Árni Sigfússon Suðurnesjamenn stolta yfir áformað Bæjarstjórinn virðist ekki vita ekki að Reykjanesskaginn hafi jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu; að stór hluti orkuöflunar eigi að fara fram innan verndarsvæðis Reykjanesfólkvangs. Háspennulínur munu liggja um skagann þverann og endilangann frá nokkrum nýjum jarðvarmavirkjunum á miðjum skaganum, þ.e. frá Seltúni, Austurengjum,og Sandfelli í Krýsuvík auk Trölladyngjusvæðisins. Þessar línur munu þvera gönguleiðir skagans og þar með rýra útivistargildi hans til muna. Framkvæmdunum mun fylgja rask á svæðum sem í dag eru lítt snortin.

Ekki er prýði af öllu sem Hitaveita Suðurnesja gerir til þess að útvega ódýra orku fyrir álver í Helguvík.Tilgangur vegagerðarinnar sem sjá má á myndinni [til hliðar] var að bora rannsóknarholur á Trölladyngjusvæðinu. Tvær holur hafa verið boraðar en hvorug þeirra er vænleg til orkuvinnslu en tjónið á náttúru svæðisins verður þó ekki aftur tekið. Spyrja verður bæjarstjórann, hvort hann sem stjórnarmaður í Hitaveitu Suðurnesja sé stoltur af þessari vegagerð?

Myndatexti: Eitt af nýlegum afrekum Hitaveitu Suðurnesja er að gjöreyðileggja umhverfið við Sogalæk sem er einn örfárra lækja á Reykjanesskaganum.
Ljósmynd :Árni Tryggvason.


Árni Finnsson.
Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024