Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvað á að gera við ruslið?
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 13:22

Hvað á að gera við ruslið?

Á síðastliðnum 4 til 5 árum hefur magn úrgangs sem berst til Kölku aukist að meðaltali um nær 2 þúsund tonn á ári. Sorpbrennslan okkar brennir á milli 11 og 12 þúsund tonnum árlega og hefur því verið fullnýtt undanfarin ár. Brennslustöðin Kalka er að eldast, komin á 15. árið og góð umhirða og gott viðhald starfsmanna hefur haldið stöðinni gangandi, en mikið álag er á þeim búnaði sem er í stöðinni. Bæjarbúum hefur fjölgað ört að undanförnu og með fjölgun íbúa eykst magn úrgangs og það sem ekki er hæft til endurvinnslu þarf að brenna eða urða.

Flokkun heimilissorps hefst í haust

Síðastliðið ár hefur staðið yfir undirbúningur við að hefja flokkun á heimilissorpi í Reykjanesbæ og nágrannasveitafélögum. Á haustmánuðum mun hvert heimili fá afhenda græna tunnu sem er ætluð fyrir endurvinnanlegan úrgang, svo sem pappa, pappír, fernur, plast og minni málmhluti. Innihaldið verður síðan flokkað frekar og sent til endurvinnslu. Sorpgjöld munu ekki hækka við þessa breytingu en íbúar munu fá nánari kynningu á fyrirkomulagi flokkunarinnar þegar nær dregur. 

Enginn urðunarstaður á Suðurnesjum og úrgangur fluttur í burtu

Á Suðurnesjum er enginn urðunarstaður og þess vegna erum við upp á aðra komin með eyðingu á þeim úrgangi sem ekki er hægt að endurvinna eða brenna. Á árinu 2017 þurfti að flytja frá Kölku tæp 9 þúsund tonn af úrgangi til Sorpu og fleiri aðila á höfuðborgarsvæðinu til endurvinnslu og urðunar.

Allt frá árinu 2010 þegar Kalka var svo gott sem gjaldþrota og fram til ársins 2014 voru viðræður á milli Kölku og Sorpu um hvort félögin ættu að sameinast. Það var svo árið 2016 sem stjórn Kölku tók ákvörðun í samráði við Sorpu um að stíga næstu skref og fá utanaðkomandi fagaðila frá Capacent til að skoða og meta hvort fýsilegt væri að sameina þessi tvö fyrirtæki og hvernig væri best að því staðið.

Sú vinna er enn í fullum gangi og miðar vel áfram. Búið er að kynna tillögur um mögulega skiptingu eignarhluta fyrirtækjanna og er nú verið að skoða meðal annars framtíðarsýn og mögulegt eigendasamkomulag í sameinuðu félagi. Engin ákvörðun liggur fyrir ennþá um hvort af sameiningu getur orðið. Þegar endanleg skýrsla liggur fyrir verður málið kynnt fyrir bæjarstjórnum á Suðurnesjum sem eignaraðila Kölku og bæjarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu sem eignaraðila Sorpu og hafa bæjarstjórnirnar lokaorð um niðurstöðu málsins.
 
Lagaleg ábyrgð sveitarfélaga


Eitt er víst að sveitarfélögin bera lagalega ábyrgð og skyldu til að annast alla eyðingu úrgangs sem til fellur. Það er því skylda stjórnar og framkvæmdastjóra Kölku að tryggja farveg fyrir allan úrgang sem berst til fyrirtækisins og nýlega samþykkti stjórnin að undirrita viljayfirlýsingu ásamt Sorpu, Sorpsamlagi Suðurlands og Sorpurðun Vesturlands um að þessir aðilar standi saman um að leysa skylduverkefni sveitarfélaganna í sorpmálum. Í þessu sambandi hefur verið rætt um að Kalka sjái um brennslu, Sorpa sjái um urðun á öllum lífrænum úrgangi í gas og jarðgerðarstöð sem verið er að fara að byggja og Sorpsamlag Suðurlands og Sorpurðun Vesturlands munu leggja til landsvæði fyrir urðun á óvirkum úrgangi.
 
Hvort sem af sameiningu Kölku og Sorpu verður eða ekki, þá er nauðsynlegt fyrir okkur hér á Suðurnesjum að taka innan tíðar ákvörðun um hvort við ætlum að byggja aðra brennslustöð. Til lengri tíma og næstu framtíðar mun Kalka ekki getað brennt öllu því sorpi sem til hennar berst og þess vegna er mjög brýnt að taka ákvörðun um framtíðarstefnu í úrgangsmálum á næstu misserum.

Birgir Már Bragason, stjórnarformaður Kölku.
Skipar 4. sæti á lista Beinnar leiðar
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024