Hvað á að gera við barnið?
Hjón ein komast að því að fjölgunar sé að vænta í fjölskyldunni. Mikil gleði ríkir og lífið brosir við þeim. Bæði eru þau í góðri vinnu og allt er eins og best verður á kosið. Þegar líður á meðgönguna koma upp áleitnar spurningar. Hvað á að gera við barnið þegar móðirin þarf að fara í vinnu eftir fæðingarorlof? B-listinn vill stofna ungbarnaleikskóla til að mæta þessari þörf.
Það er sorglegt í okkar samfélagi að foreldrar geti ekki verið saman á þessum tíma þegar nýr erfingi kemur í heiminn. Mikil óvissa er um hvert sé hægt að leita þegar móðirin þarf að snúa aftur til starfa eftir fæðingarorlof. Mikill tími fer í að skipuleggja fæðingarorlof beggja foreldra svo hægt verði að brúa bilið þar til krílið kemst á leikskóla. Oftar en ekki frestar faðirinn sínu fæðingarorlofi og jafnvel sumarfríi svo hægt sé að brúa þetta bil.
Nokkur dæmi eru um að mæður hafi þurft að segja upp vinnu sinni þar sem fá úrræði eru í boði. Hér í sameiginlegu sveitarfélagi er ein dagmamma sem vitað er um og er hún augljóslega mjög umsetin.
Það er löngu orðið tímabært að komið sé til móts við þennan hóp fólks og að stofnaður verði ungbarnaleikskóli fyrir börn frá 9 mánaða aldri til 2 ára.
Við sem stöndum að B – listanum höfum brennandi áhuga á þessum málaflokki og stöndum heilshugar saman í þeim vilja að gera ungbarnaleikskóla í nýju bæjarfélagi að veruleika.
Álfhildur Sigurjónsdóttir, 2.sæti , B-listinn í Sandgerði/Garði.