Húsnæðivandi yngri kynslóðarinar
Húsnæðismál hafa verið mikið til umfjöllunar hér á landi síðustu misserin því allir þurfa þak yfir höfuðið, en leigu- og húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega á síðustu árum og mikill skortur er á húsnæði. Fjölgað hefur á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði og biðtími lengst. Ráðstöfunartekjur lágtekjufólks duga vart til framfærslu þar sem hár hluti þeirra fer í greiðslu húsnæðis
Veruleikinn sem snýr að unga fólkinu okkar í dag er að þurfa að ílengjast í foreldrahúsum langt fram á fullorðinsár ef ekkert verður gert í þeim mikla vanda sem við blasir.
Húsnæðisvandi ungs fólks er ekki nýtilkominn en nú um stundir er hann er umfangsmikill, leiguverð er allt of hátt og framboð á íbúðum á viðráðanlegu verði er ekki í takt við eftirspurn. Margar leiguíbúðir eru á söluskrám og margir um hitunina um góðar íbúðir í langtímaleigu. Óöryggi með húsnæði veldur áhyggjum og það að vera tilneyddur til flytja oft á milli staða, gerir sérstaklega ungum barnafjölskyldum erfitt uppdráttar og slæmt með tilliti til skólagöngu barnanna. Við svo ótryggt ástand geta orðið dæmi um að fólk leigi húsnæði í óviðunandi ástandi á okurverði.
Við leigu húsnæðis þarf oft að reiða fram tryggingarfé eða bankatryggingu að verðmæti þriggja mánaða leiguverðs. Eðlilegt er að leigusali vilji hafa tryggingu en það reynist mörgum örðugt að afla þeirrar upphæðar.
Það vantar einnig fleiri úrræði fyrir fólk sem er að reyna að eignast sitt eigið húsnæði. Við íbúðarkaup þarf fólk að eiga góðan sjóð og hafa háar tekjur til að standast greiðslumat. Þeir sem eru á leigumarkaði eru yfirleitt með lágar tekjur og erfiðara er safna sér fyrir útborgun.
Það er umhugsunarvert hvort forgangsröðun yngri kynslóðarinnar sé ekki frábrugðin eldri kynslóðum, að betra sé að búa smærra sem sparar afborganir og aðlagast og sætta sig við íbúðalausnir sem spara fermetra.
Það er erfitt að berjast í bökkum í hverjum einasta mánuði og unga kynslóðin vill njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða í formi ýmissa upplifana frekar en steypu og jafnvel geta talið það vera gott að vera ekki fjárhagslega bundinn í báða skó, að hafa val um það hvernig það noti eigin fjármuni.
Afskiptaleysi ráðamanna undanfarin ár af þróun húsnæðismála hefur komið stórum hópi íslendinga illa, einkum unga fólkinu, tekjulágum einstaklingum, öryrkjum og fleiri. Stjórnvöld hafa vanrækt þennan málaflokk allt of lengi. Það er því krafa að stjórnvöld fari að beita sér fyrir úrlausnum sem fyrst, gera húsaleigubótakerfið skilvirkara og fjölga leiguíbúðum á markaðnum. Þeir sem koma að þróun húsnæðis á Íslandi virðast almennt ekki hafa áhuga á þessum stóra markhópi eða átti sig ekki á honum en augljóst er að þörfin er til staðar, að byggja skuli í takt við kröfur þessa hóps.
Það er ekki gott að festast á erfiðum leigumarkaði eins og algengt er hérlendis. Duglegt vinnandi ungt fólk vill fá tækifæri til að eignast eigið húsnæði, að hægt sé að borga húsnæðisskuldirnar sínar niður innan sanngjarns tíma, á svipuðum vöxtum og án verðtryggingar eins og er í öðrum vestrænum samfélögum.
Flokkur fólksins vill að komið verði á fót félagslegu kaupleigukerfi og leigumarkaði sem ekki hefur hagnað að leiðarljósi, að ungu fólki sé gert kleift að eignast eigið heimili. Um 30 þúsund Íslendingar hafa yfirgefið landið í leit að betri lífsgæðum. Við viljum fólkið okkar aftur heim með því að greiða götu þess, m.a með hagræðingu og lækkun húsnæðis- og leigukostnaðar. Húsnæðisöryggi er grundvöllur að hagsæld og hamingju þjóðarinnar.
Tökum höndum saman um breyttar áherslur á húsnæðisvanda unga fólksins og kjósum X F.
Heiða Rós Hauksdóttir
2. sæti í Flokki fólksins í Suðurkjördæmi