Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Húsnæðismál unga fólksins
Miðvikudagur 24. maí 2006 kl. 17:46

Húsnæðismál unga fólksins

Málefni unga fólksins hafa því miður ekki verið í kastljósi bæjarstjórnar Sandgerðis undanfarið kjörtímabil. Með þeirri uppbyggingu á húsakosti innan Sandgerðis virðist sem það hafi gleymst að gera ráð fyrir ungu fólki sem er að kaupa sínar fyrstu íbúðir. Ungt fólk er í mörgum tilfellum láglaunafólk, einstætt og/eða í námi. Í Sandgerði vantar litlar íbúðir sem gefa ungu fólki tækifæri til að komast inná á húsnæðismarkaðinn.

Ungt fólk hefur í fæstum tilfellum efni á að kaupa sér einbýlishús. Við missum því unga fólkið úr bænum um leið og það kaupir sína fyrstu fasteign. S-listinn mun vinna að því að húsnæði verði byggt fyrir ungt fólk og að því verði gert kleift að kaupa sér eign innan bæjarfélagsins. Alltof hátt hlutfall þeirra sem alast upp í Sandgerði flytjast í burtu. Við þurfum fleiri atvinnutækifæri, fjölbreyttari búsetuskilyrði og skilvirkari stefnu í fjölskyldumálum. Gróska bæjarfélagsins sýnir að góðar hugmyndir kvikna hjá Sandgerðingum.

Fræðarasetrið, Ný-vídd, Jöklaljós og Púlsinn eru allt dæmi um hugmyndir sem var hrint í framkvæmd og tókust vel. Með því að virkja íbúa bæjarfélagsins er hægt að stofna fyrirtæki og jafnvel stofnanir sem kalla á sérfræðiþekkingu og þannig getum við fengið unga fólkið aftur heim. Við þurfum að kynna fyrir því atvinnumöguleika innan bæjarfélagsins, t.d. með því að bjóða nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja hingað til almennrar kynningar á möguleikunum sem fyrir hendi eru. Spyrjum unga fólkið um framtíðardrauma þeirra, kynnum bæjarfélagið fyrir þeim og gefum þeim tækifæri til að setjast að í heimabyggð.

S-listinn ætlar að stuðla að stofnun ungmennaráðs í Sandgerði, sem er vettvangur fyrir ungt fólk til að fjalla um hagsmunamál sín. Þannig fær ungt fólk tækifæri til að vinna að eigin málum, koma skoðunum sínum á framfæri við bæjarstjórn og þannig hafa bein áhrif á það hvað er gert í málefnum ungmenna í Sandgerði.

Setjum x við S á kjördag, fyrir unga fólkið.

Þráinn Maríusson skipar 5 sæti á S-lista í Sandgerði




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024