Húrra fyrir okkur !
Það var mjög sérstök blanda af tilhlökkun og kvíða sem ég fann fyrir þegar ég tók við embættinu formaður Menningarráðs í sumar sem leið. Eftir fyrsta fund minn með Valgerði Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Menningarsviðs, hvarf allur kvíði og tilhlökkunin tók yfir enda Ljósanótt næsta verkefni sviðsins. Það er ekkert sjálfgefið að manni sé tekið vel á nýjum starfsvettvangi, en það hefur verið reynsla mín þessar fyrstu starfsvikur og vil ég þakka Valgerði, félögum mínum í menningarráði og framkvæmdaráði Ljósanætur sérstaklega fyrir frábæra viðkynningu. Lengi býr að fyrstu gerð.
Þessi ellefta Ljósanótt okkar tókst með eindæmum vel. Einhverjir hafa vafalaust fett fingur út í atriði eins og veðrið, sem þó var svo bljúgt að slota á meðan hin glæsilega flugeldasýning var í loftinu, en sem betur fer erum við Suðurnesjamenn öllu vön þegar að veðri og hátíðarhöldum kemur og látum það ekkert eyðileggja fyrir okkur stemmninguna. Við getum með sanni sagt að það sé partur af okkar menningu og jú Ljósanótt er nú menningarhátíð.
Mig langar til að óska öllum þeim fjölda listamanna á öllum sviðum innilega til hamingju með vel heppnaða hátíð svo og öllum öðrum þátttakendum og skipuleggjendum fyrir glæslega umgjörð og ekki síst þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrktu hátíðina svo hægt væri að framkvæma. Að lokum segi ég : „húrra fyrir Reykjanesbæ og okkur sem mættum og nutum skemmtunarinnar, sjáumst að ári”.
Björk Þorsteinsdóttir,
formaður Menningarráðs