Húrra, húrra!
Um síðustu helgi tilkynnti Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, þá ákvörðun sína að heimila byggingu 174 nýrra hjúkrunarrýma á landinu. Dreifast þau um landið eftir þörfum. Til Suðurnesja koma 30 ný hjúkrunarrými. Þar með er í höfn eitt brýnasta úrlausnarverkefni okkar – að svara vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými.
Talan 30 er í samræmi við það sem talið er ásættanlegt til að bregðast við þörfinni. Þessum 30 hjúkrunarrýmum verður ætlaður staður á Nesvöllum – nýja svæðinu milli Stapa og Samkaupa. Þar mun rísa ein glæsilegasta þjónustubyggð á landinu og gegna hjúkrunarrýmin 30 þar lykilhlutverki. Jafnframt skapast nú svigrúm til að bæta aðstöðuna á Garðvangi og Hlévangi. Stefnan er vitaskuld sú að í hverju herbergi séu ekki fleiri en ein manneskja (eða hjón).
Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti dvalið sem lengst heima. Í því skyni hefur heimahjúkrun verið aukin til muna að undanförnu. Samhliða er bætt úr hjúkrunarrýmum og þjónustustig við eldri borgara almennt aukið. Tilkynning um 30 ný hjúkrunarrými á Suðurnes er mikilvægt skref í átt að enn betra samfélagi á Suðurnesjum. Því ber að fagna.
Hjálmar Árnason,
alþingismaður.