Hugsum út fyrir boxið, hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér!
Eitt af því sem lengi hefur háð okkur íbúum Reykjanesbæjar er áhættan af því að hafa öll eggin í sömu körfunni þegar kemur að atvinnumálum. Kjölfestan í atvinnumálum okkar hefur gjarnan verið einn til tveir mjög stórir vinnustaðir, til dæmis herinn, flugstöðin og sveitarfélagið.
Þetta þýðir að höggið verður enn meira þegar á móti blæs og illa árar í einni grein eða breytingar verða eins og þegar herinn fór og Covid skall á.
Ólíkt mörgum öðrum sveitarfélögum liggja óþrjótandi tækifæri í túnfætinum hjá okkur. Hvar annars staðar á landinu er til staðar allt í senn; nóg af landsvæði, stórskipahöfn og alþjóðaflugvöllur?
Það gerist hins vegar ekkert af sjálfu sér í þessu frekar en öðru. Við eigum að vera óhrædd að kalla til skrafs og ráðagerða öfluga frumkvöðla og fyrirtæki sem hugsa út fyrir boxið og geta skapað hér örugg og fjölbreytt störf. Þau þurfa ekki öll að tengjast stóriðju!
Vinnumarkaðurinn er að breytast mjög hratt, einyrkjar og smærri fyrirtæki blómstra sem aldrei fyrr. Sú leið að vera eigin herra hentar æ fleirum og einstaklingsframtakið skapar verðmæti fyrir samfélagið allt. Með því að nýta mannauðinn sem í bænum býr og búa fyrirtækjum gott umhverfi náum við að styrkja enn frekar grunnstoðir okkar og þjónustu.
Drögum að öflugt fólk og njótum sjálf búsetu í okkar góða sveitarfélagi. Njótum þess að búa í bæ þar sem fólk getur fengið meira fyrir launin sín og átt fleiri gæðastundir í sólarhringnum, fjarri ys og þys stórborgarinnar en samt svo nálægt.
Ég býð mig fram í 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor og óska eftir þínum stuðningi.
Helga Jóhanna Oddsdóttir.