Hugsanir í gönguferð í norðangarra
Eitt ef helstu kennileitum Suðurnesja er Garðskagaviti – að sjálfsögðu af öðrum stöðum ólöstuðum. Og þaðan skyldi haldið í gönguferð um síðustu helgi, til suðurs eftir Miðnesfjöru. Það kom ekki til greina að láta veðrið stoppa sig og því hófst gangan með norðangarra, beint í bakið. Haustlitirnir eru fallegir og gefa landslaginu dulrænan blæ. Þegar litið er til norðurs sést Snæfellsjökull bera við hafið með sinni dulúðlegu reisn og ævintýraljóma. Og þegar litið er til vesturs sést Garðsfjaran með öllum sínum ævintýrum. Skemmtileg gönguleið Miðnesfjara!
Rokið dundi á úlpunni og ekkert heyrðist nema hvinurinn í vindinum. Og við svona aðstæður fer maður ósjálfrátt að hugsa með sjálfum sér í guðsgrænni, eða réttara sagt guðsgulri náttúrunni. Stóru spurningarnar koma upp í hugann og hugleiðingarnar streyma fram í kollinn á manni. Hversdagslegu vandamálin verða hjóm eitt þegar fylgst er með dýralífinu, sem þó er með minnsta móti á þessum árstíma. Smáfuglarnir heyja sína daglegu baráttu fyrir æti og þegar snjóa tekur að festa skríður mannfólkið fram með góðgæti í poka og dreifa í garða sína. Spurning hvort sá tími komi þennan veturinn?
Sagan liggur í loftinu í fjörunni. Hver steinn á sína sögu og hvert þang. Hver skel á sína sögu og sjóreknu veraldlegu hlutirnir eru misjafnlega á sig komnir. Sagan gerir vart við sig við hvert fótmál. Gömul kókflaska með gulum miða verður á veginum og glær flaska með einhverjum vökva liggur makindalega í fjöruborðinu. Gamalt ónýtt stígvél liggur hálffrosið í fjörukambinum. Ætli eigandi þess hafi farist á sjónum eða ætli því hafi verið hent fyrir borð á einhverjum bátnum? Ráðgáta um ókomna tíð og með stígvélinu deyr sagan, sem kannski er harmi þrungin eða full af gleði.
Á Suðurnesjum hefur sjávarútvegur verið stundaður í marga mannsaldra. Fyrr á öldum sóttu menn sjóinn fast og þá var ekki veðurspánni fyrir að fara. Sjómenn héldu í róður ef gott var veður – og ef hann skyldi blása upp var bara að drífa sig í land. Mannskaðar voru algengir. Staðið var í marga sólarhringa ef veður leyfði og þá var ekki vökulögum fyrir að fara. Menn bara unnu til að eiga í sig og á. Þá skipti herinn engu máli. Menn voru sínir eigin herrar og félagsleg aðstoð var lítil sem engin. Brauðfæða varð fjölskylduna og finna varð ráð til þess. Frumkvöðlahugsun einstaklingsins var þá með besta móti, enda valt lífið sjálft á frjórri hugsun fólksins sem þá bjó landið.
Svona út í guðsgrænni náttúrunni hverfur hugurinn ósjálfrátt til baka og þegar reynt er að gera sér í hugarlund hvernig lífið hafi verið við Miðnesfjöruna fyrir mörgum mannsöldrum verður myndin í höfðinu óskýr. Þó sést stór fjölskylda í torfbæ nálægt sjónum. Amma og afi barnanna lesa upp úr Vídalínspostillu á vetrarkvöldum og á meðan situr móðirin og biður til Guðs um að bóndi hennar komist heill úr sjóferðinni. Og þegar hann birtist færist bros yfir andlit hennar, börnin koma hlaupandi og faðma pabbann að sér. Afinn spyr hvernig hafi fiskast. Pabbinn fær að borða og segir sjóferðasögu og kannski börnunum sögu fyrir svefninn. Ró færist yfir heimilið. Og nýr dagur hefst.
Og þegar maður lætur hugann reika til vorra tíma þá verður myndin í höfðinu mjög skýr. Nú er rifist um hvað eigi að horfa á í sjónvarpinu. Pabbinn kemur heim klukkan sex og mamman líka. Börnin komu úr skólanum klukkan tvö og hafa reynt að leika sér. Það verða engir fagnaðarfundir þegar foreldrarnir koma heim. „Ekki vera með læti – ég er þreytt eftir vinnuna!“ segir mamman þegar hún kemur. „Hættu að leika þér í tölvunni,“ segir pabbinn og bíður við eldhúsborðið eftir matnum og þegar mamman er búin að vaska upp hefst sjónvarpsglápið fram eftir kvöldi.
Svona hugsanir streyma um kollinn þegar sest er niður við fjöruborðið og litið út á hafið. Var fjölskyldan sem bjó við krappan kost við Miðnesfjöruna fyrir hundruðum ára óhamingjusamari en sú sem situr fyrir framan sjónvarpið í dag? Hafið öskrar svarið á móti manni og þó manni líki ekki svarið við spurningunni – liggur það í augum uppi og hver maður sér rétta svarið!
Næst verður það önnur fjara sem gengin verður og þá koma upp aðrar hugsanir. Hugsanlega rata þær á síður Víkurfrétta – hver veit!
Kveðja frá Gönguhrólfi
Rokið dundi á úlpunni og ekkert heyrðist nema hvinurinn í vindinum. Og við svona aðstæður fer maður ósjálfrátt að hugsa með sjálfum sér í guðsgrænni, eða réttara sagt guðsgulri náttúrunni. Stóru spurningarnar koma upp í hugann og hugleiðingarnar streyma fram í kollinn á manni. Hversdagslegu vandamálin verða hjóm eitt þegar fylgst er með dýralífinu, sem þó er með minnsta móti á þessum árstíma. Smáfuglarnir heyja sína daglegu baráttu fyrir æti og þegar snjóa tekur að festa skríður mannfólkið fram með góðgæti í poka og dreifa í garða sína. Spurning hvort sá tími komi þennan veturinn?
Sagan liggur í loftinu í fjörunni. Hver steinn á sína sögu og hvert þang. Hver skel á sína sögu og sjóreknu veraldlegu hlutirnir eru misjafnlega á sig komnir. Sagan gerir vart við sig við hvert fótmál. Gömul kókflaska með gulum miða verður á veginum og glær flaska með einhverjum vökva liggur makindalega í fjöruborðinu. Gamalt ónýtt stígvél liggur hálffrosið í fjörukambinum. Ætli eigandi þess hafi farist á sjónum eða ætli því hafi verið hent fyrir borð á einhverjum bátnum? Ráðgáta um ókomna tíð og með stígvélinu deyr sagan, sem kannski er harmi þrungin eða full af gleði.
Á Suðurnesjum hefur sjávarútvegur verið stundaður í marga mannsaldra. Fyrr á öldum sóttu menn sjóinn fast og þá var ekki veðurspánni fyrir að fara. Sjómenn héldu í róður ef gott var veður – og ef hann skyldi blása upp var bara að drífa sig í land. Mannskaðar voru algengir. Staðið var í marga sólarhringa ef veður leyfði og þá var ekki vökulögum fyrir að fara. Menn bara unnu til að eiga í sig og á. Þá skipti herinn engu máli. Menn voru sínir eigin herrar og félagsleg aðstoð var lítil sem engin. Brauðfæða varð fjölskylduna og finna varð ráð til þess. Frumkvöðlahugsun einstaklingsins var þá með besta móti, enda valt lífið sjálft á frjórri hugsun fólksins sem þá bjó landið.
Svona út í guðsgrænni náttúrunni hverfur hugurinn ósjálfrátt til baka og þegar reynt er að gera sér í hugarlund hvernig lífið hafi verið við Miðnesfjöruna fyrir mörgum mannsöldrum verður myndin í höfðinu óskýr. Þó sést stór fjölskylda í torfbæ nálægt sjónum. Amma og afi barnanna lesa upp úr Vídalínspostillu á vetrarkvöldum og á meðan situr móðirin og biður til Guðs um að bóndi hennar komist heill úr sjóferðinni. Og þegar hann birtist færist bros yfir andlit hennar, börnin koma hlaupandi og faðma pabbann að sér. Afinn spyr hvernig hafi fiskast. Pabbinn fær að borða og segir sjóferðasögu og kannski börnunum sögu fyrir svefninn. Ró færist yfir heimilið. Og nýr dagur hefst.
Og þegar maður lætur hugann reika til vorra tíma þá verður myndin í höfðinu mjög skýr. Nú er rifist um hvað eigi að horfa á í sjónvarpinu. Pabbinn kemur heim klukkan sex og mamman líka. Börnin komu úr skólanum klukkan tvö og hafa reynt að leika sér. Það verða engir fagnaðarfundir þegar foreldrarnir koma heim. „Ekki vera með læti – ég er þreytt eftir vinnuna!“ segir mamman þegar hún kemur. „Hættu að leika þér í tölvunni,“ segir pabbinn og bíður við eldhúsborðið eftir matnum og þegar mamman er búin að vaska upp hefst sjónvarpsglápið fram eftir kvöldi.
Svona hugsanir streyma um kollinn þegar sest er niður við fjöruborðið og litið út á hafið. Var fjölskyldan sem bjó við krappan kost við Miðnesfjöruna fyrir hundruðum ára óhamingjusamari en sú sem situr fyrir framan sjónvarpið í dag? Hafið öskrar svarið á móti manni og þó manni líki ekki svarið við spurningunni – liggur það í augum uppi og hver maður sér rétta svarið!
Næst verður það önnur fjara sem gengin verður og þá koma upp aðrar hugsanir. Hugsanlega rata þær á síður Víkurfrétta – hver veit!
Kveðja frá Gönguhrólfi