Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hugleiðingar að loknu útkalli
Mynd tekin í leit Björgunarsveitarinnar Suðurnes að Birnu Brjánsdóttur.
Mánudagur 30. janúar 2017 kl. 09:32

Hugleiðingar að loknu útkalli

- Aðsend grein frá formanni Björgunarsveitarinnar Suðurnes

Samfélagið allt hefur haldið í sér andanum í rúma viku í þeirri von að ung stúlka í blóma lífsins finnist heil á húfi. Allir lögðust á eitt að finna þessa stúlku og snerti þetta mál taugar samfélagsins á einn eða annan hátt. Ég og félagar mínir í Björgunarsveitinni Suðurnes og aðrir meðlimir í Landsbjörgu vorum ein af stórum hópi leitarfólks sem tóku virkan þátt í leitinni að þessari stúlku. Þarna vorum við saman komin til að aðstoða lögreglu, landhelgisgæslu og aðstandendur Birnu í leitinni. Þessi leit var skipulögð og víðfeðm því ekki var vitað hvar hún væri. Eftir rúma viku skilaði svo leitin árangri og var staðfest að Birna væri fundin en því miður var hún ekki heil á húfi. Um leið og maður heyrði þær fréttir var maður sáttur sem leitarmaður að markmiðið „að finna hana“ hafi náðst en um leið voru engin orð sem fá því lýst hversu hryggur maður var að vita að hún væri ekki á lífi. Maður finnur til með ættingjum og vinum hennar og vil ég senda fjölskyldu hennar, aðstandendum og vinum mínar dýpstu samúðarkveðjur.  

En nú þegar leitinnni er lokið og heim er komið að þá fór hugur minn að reika. Ég fór að hugsa um þessa ungu stúlku, leitina í heild sinni og hvernig samfélagið tók þátt í þessu leitarverkefni með einum eða öðrum hætti. Samkennd, fagmennska, fórnfýsi og kærleikur eru orð sem eru ofarlega í mínum huga. Það birtist vel í störfum björgunarsveita, slysavarnadeilda, lögreglu og landhelgisgæslu sem voru með það eitt að markmiði að finna stúlkuna. Ég er stoltur af öllum þeim sem tóku þátt og af mínu fólki og er stoltur að vera partur af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Í því samhengi, eftir að hafa starfað í mörg ár í björgunarsveit, þá get ég sagt það með sanni að starf björgunarsveita og slysavarnadeilda er á engan hátt sjálfgefið. Á bak við hverja björgunarsveit og slysavarnadeild eru þó nokkrir bakhjarlar og ber fyrst að nefna maka okkar og fjölskyldur sem gera okkur kleift að gefa okkur tíma til að sinna þessu óeigingjarna starfi. Ásamt þeim er líka samfélagið í heild sinni sem hefur sýnt það undanfarin ár að vera okkur dyggur bakhjarl. Það hefur sýnt sig með ýmsum styrkjum til okkar í formi matar, peninga sem og að styðja okkur í þeim fjáröflunum sem við höfum lagt í sbr. okkar árlegu Neyðarkallasölu og flugeldasölu. Fyrir þetta erum við afar þakklát því án þessa stuðnings væri starf okkar mun erfiðara.  Þessi samkennd og samhugur samfélagins sýndi sig enn á ný um síðustu helgi í leitinni að Birnu. Þá buðu hin ýmsu fyrirtæki og einkaaðilar fram aðstoð í formi matar, peninga og tækja svo eitthvað sé nefnt. Allir lögðust á eitt að hjálpa. Fyrir það sem okkur í Landsbjörgu bárust um helgina er ég sem björgunarsveitarmaður þakklátur og hrærður. Ég er einnig þakklátur fyrir allan þann stuðning sem við höfum fengið og falleg orð í okkar garð í samfélaginu. Takk fyrir okkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Suðurnes,
Bjarni Rúnar Rafnsson
Formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes