Hugleiðing um líf okkar allra
Er lífið er þess virði að lifa því? Hver er ég? Til hvers lifi ég? Þessar spurningar vakna í huga þeirra sem lenda í erfiðri lífsreynslu en það er hlutskipti flestra einhvern tíma á lífsleiðinni. Erfiðleikar geta þvingað okkur til að leita svara við erfiðustu spurningum lífsins einmitt á þeim tímapunkti sem við erum ófær um að finna skynsamlegt svar - buguð af „óleysanlegum“ vandamálum eða sorg.Við erfiðar kringumstæður á þinginu í Worms 1521 sagði Marteinn Lúther „Hér stend ég og get ekki annað. Guð hjálpi mér.“ Við verðum að sætta okkur við hvar við erum stödd hverju sinni. Við þurfum að átta okkur á hverju við viljum breyta, hverju við getum breytt og hverju verður ekki breytt. En mikilvægast af öllu er að sjá ljósið og gera sér grein fyrir að það er alltaf til leið út úr myrkrinu.Hlutskipti okkar í lífinu er afar mismunandi og vandamálin margbreytileg. Sum okkar búa við stöðugt áreiti eða óbærilega streitu meðan aðrir þrá fleiri verkefni eða aukin samskipti við samferðafólkið. Eldri kynslóðin keppist við að finna leiðir til að drepa tímann. Vinnandi fólk er hins vegar svo djúpt sokkið í verkefni daglegs lífs að 24 klst. sólarhringsins virðast oft ekki nægja. Yngsta kynslóðin, sem er okkar fjöregg, svarar í farsímann, „skorar í tölvunni“, horfir á sjónvarpið, hlustar á tónlistastöðina sína og vinnur heimaverkefnin sín - og það allt samtímis. Hvernig stendur á því að lífi nútímamannsins er þannig háttað? Þessu er erfitt að svara.Hvert sem hlutskipti okkar er getum við einhvern tímann á lífsleiðinni mætt slíkum erfiðleikum að við ráðum ekki út úr þeim ein og óstudd. Öll getum við þurft á sálrænum stuðningi eða geðrænni aðstoð að halda. Áður fyrr virðist það hafa verið feimnismál að leita sér sálrænnar aðstoðar en nú á tímum vitum við betur. Spyrja má af hverju það hefur verið sumum svo erfitt að viðurkenna að þeir þurfi hjálp. Er það virkilega svo að við skömmumst okkar fyrir það? Álítum við ef til vill að okkar vandamál sé svo slæmt að ekki sé hægt að viðurkenna það eða ræða „slíka skömm“? Slík hugsun leiðir ekki til lausnar. Það er tími til kominn að við lítum á slíka hjálp sem sjálfsagðan hlut.Spurningin er því hvert getum við snúið okkur eða hvert viljum við að leita. Sumir eiga góða vini, foreldra eða uppalendur, aðrir eiga góðann maka, börn eða nána ættingja sem geta stutt eða hjálpað. Aðrir telja sig ekki eiga neinn að sem hægt er að leita til og standa þar af leiðandi einir og úrræðalausir. Þeim og öðrum vil ég benda á að til eru fjölbreytt úrræði. Hægt er að leita til heimilslæknis, geðlæknis, Geðhjálpar, presta, sálfræðinga eða Vinalínunnar svo eitthvað sé nefnt. Allir þessir aðilar hjálpa fólki í vanda. Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur hef ég reynt að miðla þekkingu og reynslu til fólks í vanda. Reynsla mín byggir meðal annars á því að sjálf hef ég þurft á hjálp að halda. Ég hef oft burðast með svo „þungan poka á öxlunum“ að ég hef verið verið að sligast og átt erfitt með að rétta úr mér. Sem betur fer hef ég fengið hjálp þegar þörf var á, getað sleppt pokanum og byrjað uppá nýtt. Ég hef sagt við sjálfa mig: „Það sem orðið er má tilheyra fortíðinni. Kominn er nýr dagur, þar er ég stödd og ætla að byrja uppá nýtt.“ Reykjanesjabær,24. október, 2000,Hulda Guðlaug Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingurá HeilbrigðisstofnunSuðurnesja