Hugleiðing leikskólastjóra á Covid-tíma
Hér langar mig aðeins, sem starfandi leikskólastjóri, að stikla á stóru er varðar leikskólalífið. Í þessi tvö og hálft ár sem ég hef starfað sem leikskólastjóri í Reykjanesbæ hafa tvö ár litast af heimsfaraldrinum og hefur það verið töluverð eldskírn í nýju starfi.
Á þessum tíma sem við höfum búið við veiruna hefur okkur tekist í skólanum mínum, leikskólanum Holti, að halda uppi öflugu, faglegu og metnaðarfullu skólastarfi. Ég finn að fólkið mitt er orðið langþreytt þótt það sýni alltaf gleðina. Hjartað mitt fyllist stolti yfir þeirri góðu samvinnu og samheldni sem okkar öfluga leikskólasamfélag býr yfir, annars hefði það ekki verið hægt og aldrei gengið upp. Á tímum sem þessum finn ég hvað er mikilvægt að vinnuveitendur hlúi að starfsfólkinu sínu. Starfsfólkið er sterkasta aflið í skólastarfinu og allir hér á Holti hafa verið meðvitaðir um að hjálpast að og vinna saman að velferð og menntun barnanna. Með skipulagi, þrautseigju, velvild og jákvæðni starfsfólksins hefur það gengið upp í þessum faraldri.
Föstudagurinn 13. mars 2020 er mér alltaf ferskur í minni en þá skall á okkur fyrsta bylgjan. Í ljósi fyrirmæla heilbrigðisyfirvalda þann dag var settur á skipulagsdagur allra leikskóla, 16. mars, til að undirbúa og skipuleggja skólastarf á því tímabili sem takmörkunin átti að ná á þeim tíma og allt skólastarf var fellt niður. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og má segja að við skólastjórnendur urðum snillingar í að halda úti og skipuleggja starfið í hvert sinn sem ný sóttvarnalög tóku gildi á hverjum tíma. Stjórnendur og starfsfólk hefur þurft að vera með einsdæmum lausnarmiðað til að láta starfið ganga upp ásamt því að eyða mörgum klukkustundum í smitrakningu fyrir smitrakningarteymið sem annaði ekki því verkefni fyrir miklu álagi. Nýir foreldrar á þessu tímabili kynntust ekki hefðbundnu skólastarfi þar sem að skólinn var að mestu leyti lokaður hvað varðar aðkomu foreldra en mikill skilningur, þolinmæði og umburðarlyndi gerði það að verkum að við gátum haldið úti góðu starfi samkvæmt skipulagi sem við lögðum upp með í þeim aðstæðum hverju sinni.
Þessa dagana er mikið rætt um Covid-smit í samfélaginu og hvaða áhrif það hefur í nærumhverfi okkar. Leikskólar og grunnskólar eru mikilvægar stofnanir fyrir margra hluta sakir og áhersla er lögð á að skerða ekki þjónustu þeirra með fækkun nemenda og starfsfólk hverju sinni en óneitanlega hefur komið til þess og sérstaklega núna á nýju ári þegar fjórða „dýfan“ skall á skólanum mínum.
Þegar slökun á reglum um sóttkví, þar sem börn og unglingar eru algjörlega undanþegin reglum um sóttkví og smitgát, sem var sett fram þann 25. janúar síðastliðinn þá fagnaði ég því barnanna vegna og foreldrum þeirra en er hugsi á sama tíma hvað næstu vikur beri í skauti sér. Þær reglur um sóttkví og einangrun sem voru í gangi hafa valdið miklum fjarvistum í skólum og á vinnumarkaði með tilheyrandi truflunum. Mörg börn hafi endurtekið þurft að vera í sóttkví og hafa sérfræðingar í velferð barna bent á að slíkt geti haft neikvæðar afleiðingar.
Þegar ég lít yfir farinn veg í þessi tvö ár er heilmikið sem okkur í skólanum mínum hefur tekist þrátt fyrir þær miklu hindranir sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Til að mynda hefur fræðsluráð Reykjanesbæjar efnt árlega til hvatningarverðlauna fyrir verkefni í skólastarfi sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni. Verðlaunin eru veitt til einstaka kennara, kennarahópa og starfsmanna í leikskólum, grunnskólum og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem standa að baki verkefnunum. Deildin Lundur, sem tilheyrir leikskólanum mínum, Holti, fékk tilnefningu til hvatningarverðlauna 2021 fyrir verkefnið „Unnið með náttúruna á Lundi“ sem var verkefni um Tré. Leikskólinn minn hlaut styrk úr nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs Reykjanesbæjar 2021–2022 fyrir þróunarverkefnið „Náttúruvísindi, tækni og málörvun í smiðjum við leikskólann“. Þróunarverkefnið er sjálfstætt framhald af fyrra verkefni, „Tækifæri til náms í skapandi umhverfi“, með nýjum áherslum sem hlaut einnig styrk úr nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs Reykjanesbæjar 2020–2021.
Í vetur höfum við unnið áhugavert verkefni sem ber heitið Náttúruvísindi, tækni og málörvun en það verkefni erum við að vinna með samhliða námskeiði sem deildarstjórar og stjórnendur leikskólans sækja hjá Háskóla Íslands og kallast Menntaflétta. Rauði þráður Menntafléttunnar er að stuðla að þróun námssamfélaga. Þróunarverkefnið Náttúruvísindi, tækni og málörvun í smiðjum við leikskólann tengist gæðamenntun fyrir alla, þetta er framsækið verkefni og mikilvægt fyrir skólasamfélagið okkar. Það að mynda námssamfélag innan leikskólans mun skila sér í faglegu starfi og gæðamenntun allra, bæði barna og starfsfólks.
Það er gaman að segja frá því að starfsfólk á Hlíð við leikskólann Holt og börnin fengu gæðamerkið Quality Label fyrir eTwinning-verkefni sem unnið var í samstarfi með skólum frá Póllandi, Ítalíu og Spáni skólaárið 2020–2021. Verkefnið fjallaði um fjaðrir og í umsögn segir að um skemmtilegt verkefni sé að ræða sem kveikti bersýnilega áhuga barnanna. Búið var til lag sem sungið er á öllu tungumálum eins og sjá má hér.
Einn kennari við leikskólann var tilnefnd fyrir framúrskarandi kennslu og þróunarstarf á tímabilinu í tengslum við innlend og alþjóðleg verkefni sem beinast að því að efla skapandi leikskólastarf með áherslu á læsi og lýðræði til Íslenskra menntaverðlaunanna haustið 2020. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.
Sjá má hér að ofan að margt hefur áunnist þrátt fyrir hindranir og áskoranir sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Þetta tímabil skilur eftir sig lærdóm og reynslu sem við munum svo sannarlega nýta til framtíðar. Við hér í leikskólanum Holti hlökkum til daganna, viknanna og áranna framundan. Þau munu færa okkur ný hlutverk og enn frekari tækifæri til þess að styrkja okkur í þeim hlutverkum sem okkur hafa nú þegar verið færð.
https://www.youtube.com/watch?v=Raye5rdnmCg
María Petrína,
leikskólastjóri leikskólans Holts.