Hugleiðing fyrir jólahátíðina.
Nú er sá tími ársins að koma sem okkur finnst eigi að vera tími gleði og friðar, en oftar en ekki ef við eru ekki varkár læðist að okkur kvíði, ótti streita, þunglyndi, skömm og fíkn, það er oft ómeðvitað ef við erum ekki vakandi fyrir því.
Margir hugsa að þeir geti ekki glatt mann og annan og séu einfaldlega öðrum til ama, en það er bara alls ekki rétt. Við megum ekki gleyma því að bara það að vera til staðar gefur og gleður mikið. Hafa vilja til að gera eitthvað gott fyrir sjálfan sig, leita sér aðstoðar ef með þarf. Það er engin að dæma okkur nema við sjálf.
Af hverju að vera að kvelja sjálfan sig meira en þarf þar sem hjálpin er til staðar allt um kring, hjá fjölskyldu, vinum, Lundi og fl fagaðilum.
Besta gjöfin er að okkur líði vel og vita til þess að einhver er að gera gott fyrir sjálfan sig, það er það sem gleður mest. ( Að vera til staðar ).Við megum ekki velta okkur upp úr því að þó að við höfum gefið lítið eða ekkert síðustu jól eða jólin þar áður, að ætla fara bæta það upp núna og lenda svo í skuldasúpu og líða illa með það. Það vill enginn.
Fjölskyldan þín vill ekki að þú steypir þér í skuldir til að gefa henni gjafir, fjölskyldan þín vill að þér líði vel og að þú farir vel með sjálfan þig, það er stærsta og besta gjöfin. Ef þig langar til að kaupa gjöf þá þarf hún ekki að vera risa stór eða svaka dýr til að gleðja, hugurinn á bak við hana skiptir mestu máli.
Sonur minn var oft skakkur og illa á sig kominn yfir jól og áramót. Það olli fjölskyldu minni og mér miklum óþægindum og kvíða. En yfir hátíðirnar reyna allir að leika hlutverk, það eiga jú allir að vera svo glaðir og ánægðir á þessum dögum, það var oft erfitt að vera í þessum hlutverkaleikjum, en maður gerði það samt.Hann er edrú og í vinnu í dag, verður það vonandi áfram, allsgáður þessi jól og áramót ef guð lofar. En í dag er það hans val ef hann velur hina leiðina aftur. Við höfum ekkert með það segja eða gera, en vonum það besta.
Hvernig væri að við tækjum okkur nú saman í andlitinu Suðurnesjamenn, sýnum í verki, styrk okkar og samstöðu í þessum málum sem öðrum. Stuðlum að góðu uppbyggingarstarfi hér á Suðurnesjum með því að hjálpa og styðja þá einstaklinga sem þurfa á því að halda.
Stöndum vörð um okkar fólk. Það er enginn undanskilinn í þessum málum. Ekki láta eins og þér komi þetta ekki við. Reynum að horfa öll í sömu átt.
Minni á dagskrána hjá Lundi á mánudögum og síma Lundar. 772-5463
Lundur er til þess að hjálpa okkur, ekki bara fyrir þá sem hafa ánetjast áfengi eða fíkniefnum, heldur einnig fyrir aðstandendur þeirra og þá sem eru í áhættuhóp, sem sagt alla.
Margir hugsa sem svo, það kemur ekkert fyrir hjá mér og mínum, en það er gott að vera vel undirbúin/nn
Helgina 21 og 22 janúar 2012 verður fjölskyldumeðferð hjá Lundi ef næg þáttaka næst og hentar hún öllum foreldrum, já og þér líka.
Nánari upplýsingar og skráning í síma 772-5463
Eigið góðar stundir , Lundur Forvarnafélag. [email protected]
Gleðilega hátíð.