Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 18. mars 2004 kl. 15:04

Hugarleikfimi

Eitt af því skemmtilegra sem ég geri í frístundum mínum er að iðka hugarleikfimi.  Má vera að nokkru ráði hversu ódýr hún er, hvorki þarf að fara á námskeið til þess að ná árangri né kaupa kennslugögn og skriffæri.  Þessi leikfimi býður upp á ýmsa möguleika; að hoppa yfir staðreyndir, fara kollhnís í meðferð málefnis án eftirþanka, fara heljarstökk á hugarfluginu, getað spunnið og snúist í hringi, þá jafnvel hlegið að útkomunni ef verkast vill.
Birtingarformið á þessari íþrótt er oft framandi þegar það er síðan fært til veruleikans og langar mig að nefna nokkur dæmi:

Það getur verið ágætis verkefni að taka einfalda setningu og hræra henni þannig saman að hún verði í sjálfu sér rétt en mætti lukkast betur:
„Maðurinn var einn á báti í flugvél.”
„Ég er búinn að fá upp í háls af þessum ljótu skóm.” 
„Allt fór upp í loft þegar hann velti um koll vatnsglasinu við matarborðið.”
„Best er að ganga beint á ská til Grindavíkur.”
„Þvottakonan lagði höfuðið í bleyti, drykklanga stund, áður en hún byrjaði að skúra gólfið.” 

Einnig er hægt að setja saman undarlega setningu sem nær flugi þegar hún er sögð en ekki skrifuð:
„Hvurt atli Atli atli?   Atli Atli atli í bíó?”   „Atli Atli atli það ekki bara.”
(Hvert ætli Atli ætli?  Ætli Atli ætli í bíó?   Ætli Atli ætli það ekki bara.) 
Af svipuðum toga er setningin: „Bóndinn  á Á á á á Á.” 
(Bóndinn sem býr á bænum Á, hann á kind sem er á bænum Á.)

Þau stærðfræðirök að tvær mínustölur sem margfaldaðar eru saman (önnur innan sviga) gefi jákvæða niðurstöðu geta verið eftirsótt hverjum skuldara; að skuldabréfalánið margfaldað með lífeyrissjóðsláninu gefi jákvæða niðurstöðu á yfirdráttinn á tékkareikningnum,  jú takk, þá niðurstöðu myndi ég alveg sætta mig við. 

En þessi hugarleikfimi gefur líka af sér ýmsa aðra möguleika.    
Dæmi:
„Veistu hvað NO þýðir á ensku?” 
„Nei.”
„Ertu virkilega svona slappur í ensku?” 
Hér vill svarandi spurningarinnar fá að koma að leiðréttingu og sú málamiðlun samþykkt að hann fái að spreyta sig aftur.
„Veistu hvað NO þýðir á ensku?”  
„Já.”
„Því miður er þetta vitlaust svar.  N0 þýðir NEI á ensku.”

Við erum ekki enn laus við stærðfræðina því næsta dæmi býður upp á fullyrðingar sem standast þá aðeins að þeim sé ekki raðað saman:
 „Köttur hefur fleiri rófur en enginn köttur.”
Hér á að svara “já eða nei” og svarið er: “Já,” (það er rétt.) 
Þá kemur næsta fullyrðing: 
„Enginn köttur hefur 13 rófur.” 
Þessari fullyrðingu verður og að svara með jái.
Þá er komið að því að fá niðurstöðu í dæmið í samræmi við svörin en þá bregður nýrra við því dæmið stenst ekki.  “Ef köttur hefur fleiri rófur en enginn köttur og enginn köttur hefur 13 rófur hversu margar rófur er þá kötturinn kominn með?”  Svar: “14.”

Einhverju sinni þegar ég horfði á teiknimyndaútgáfu af Batman með syni mínum kom ansi skondið atriði fyrir í myndinni.  Sá grímuklæddi var staddur efst uppi í 100 hæða stórhýsi og ætlaði niður á jarðhæð með lyftu. Um leið og lyftudyrnar lokuðust, slitnaði vírinn sem hélt henni uppi og hún æddi af stað niður með ofurhugann innanborðs. Þegar hraðinn var orðinn slíkur að aðeins fjöldi lóðréttra strika teiknuðu útlínur hetjunnar, stoppaði atburðarásin og spurning kom á skjáinn: “Hvað gerir Batman nú?”  Nokkur dæmi voru sýnd af þeim möguleikum sem hann ætti að eiga í stöðunni en lausnirnar jafnharðan dregnar til baka með rauðu X-i.  En spurningunni var enn ósvarað hvað myndi Batman sjálfur gera í stöðunni?  Það eitt skipti máli. Jú, þetta varð honum ekki ofviða frekar en annað.  Furðuleg athöfn sem reyndist lausn gátunnar, birtist á skjánum og stóðst rökhugsun eitt augnablik áður botninn datt úr henni:
„Þegar 20 tommur voru eftir af fallhæðinni og lyftan rétt við að snerta kjallaragólfið, stökk Batman  upp jafnfætis, þandi út skikkjuna og sveif mjúklega til jarðar.”  

Svona getur þessi hugarleikfimi verið óútreiknanleg, oft fjarri veruleikanum en samt veitt manni sjálfum og jafnvel öðrum dálitla skemmtun.


Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024