Hugað að innviðum samfélagsins
Hanna Björg Konrádsdóttir skrifar.
Að undanförnu hafa þær raddir heyrst að eðlilegt sé í rekstri sveitarfélags að fjármunum sé veitt til íbúa sveitarfélagsins í stað þess að fjárfest sé í steypu eða möl. Auðvelt er að taka undir slíkan málflutning í fyrstu því það á að vera markmið hvers sveitarfélags að búa fjölskyldunni sem vænlegust skilyrði til þess að dafna og að hagur barna verði hafður í fyrirrúmi. Við nánari skoðun er þetta samspil flóknara en það virðist í fyrstu. Hagur fjölskyldna markast ekki aðeins af þeim fjármunum sem bæjarfélag ánafnar í einstök málefni heldur er um að ræða samspil gróskumikils atvinnulífs, öflugra menntastofnana sem starfa eftir markmiðadrifinni stefnu með bættan námsárangur að leiðarljósi, gróskumikils tómstundarstarfs og að sjálfsögðu vandaðrar fjölskyldu- og félagsþjónustu sem stuðlar að hamingju og heilbrigði einstaklinga og fjölskyldna í Reykjanesbæ.
Ágætt er að leiða hugann að því hvað hefur verið gert á undanförnum árum í þessum málaflokkum einmitt til þess að styrkja hag fjölskyldna og barna á svæðinu. Ný framtíðarsýn í menntamálum var smíðuð árið 2011 þar sem það metnaðarfulla markmið var innleitt að leik- og grunnskólar bæjarins kæmust í fremstu röð á landsvísu. Í framtíðarsýninni var lögð áhersla á að skapa börnum öruggt og styðjandi umhverfi sem einkennist af góðum tækifærum til náms og getu til að þroska hæfileika sína. Stórkostlegur árangur hefur náðst í grunnskólum Reykjanesbæjar á síðustu árum og mikil áhersla er lögð á skilvirkt skólastarf í leikskólum og hafa leikskólar bæjarins hlotið Evrópuverðlaun fyrir framúrskarandi verkefni í leikskólastarfi. Framtíðarsýninni er ætlað að bæta stöðu menntunar á svæðinu til frambúðar og lögð er mikil áhersla á aukna og betri menntun barna. Aðstaða nemenda við grunnskóla Reykjanesbæjar er almennt til fyrirmyndar og í flestum grunnskólum geta nemendur sótt skólasund í sundlaugum skólans. Alltaf má gott bæta og er markvisst unnið að betrumbótum þar sem þörf er á.
Umgjörð íþróttastarfs hefur á undanförnum árum breyst til hins betra og mikil áhersla er lögð á stuðning við íþróttastarf frá unga aldri. Aðstaða fimleikaiðkunar hefur gjörbreyst með tilkomu glæsilegrar aðstöðu í Akademíunni og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Sama má segja um aðstöðu til sundiðkunar, þar sem tilkoma 50 metra innilaugar hefur skapað einstaklega góð skilyrði fyrir sundíþróttamenn og hefur sundfólkið okkar náð einstökum árangri á hverju stórmótinu á fætur öðru. Taekwondo deild Keflavíkur hefur rakað til sín hverjum titlinum á fætur öðrum og það sama má segja um aðrar íþróttir.
Þjónusta í þágu aldraðra íbúa er til fyrirmyndar, þar sem nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili við Nesvelli var tekið í notkun á árinu. Vandað var til verksins og njóta íbúar hjúkrunarheimilisins fyrsta flokks þjónustu í rúmgóðum íbúðum þar sem lögð er áhersla á notalegt umhverfi.
Tónlist hefur lengi verið flaggskip menningarlífs Reykjanesbæjar. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur verið í forystu þegar kemur að kennsluháttum og þjónustu við grunnskólanemendur með tónlistarkennslu á skólatíma og ýtt hefur verið undir tónlistariðkun með markvissum hætti með forskólanámi. Með tilkomu Hljómahallarinnar hefur aðstöðu til tónlistariðkunar verið gert hátt undir höfði og markvisst skal efla tónlistarmenntun og stuðla að tengingu tónlistar við atvinnusköpun til framtíðar. Einnig býður húsnæðið upp á frábæra ráðstefnusali, tónleikaaðstöðu, æfingaaðstöðu fyrir einstaklinga, veislusali og popp/rokkminjasafn sem varðveitir íslenska tónlistarsögu. Hljómahöllin leggur grunn að auknum atvinnutækifærum Reykjanesbæjar í sköpunar- og afþreyingariðnaði og jafnframt miklir möguleikar til ráðstefnuferðamennsku. Framtíðarsýn Reykjanesbæjar er að virkja þá möguleika sem húsnæðið býður upp á og Hljómahöllin verði miðstöð tónlistariðkunar og ráðstefnuhalds í sveitarfélaginu. Skapandi atvinnugreinar fara sífellt vaxandi og verða æ mikilvægari í samfélaginu og mikilvægt að tónlist verði gert hátt undir höfði í blómlegu menningarlífi.
Tækifæri í atvinnusköpun krefjast grunnfjárfestinga og hefur sterkur grunnur verið lagður að undirstöðum atvinnulífs svo tryggja megi vel launuð störf sem hækka meðaltekjur íbúa svæðisins. Þróunar- og frumkvöðlastarf er í miklum vexti á Ásbrú og framsæknar hugmyndir hafa orðið að blómlegum fyrirtækjum á hinum ýmsu sviðum og á skömmum tíma hefur myndast öflugt samfélag frumkvöðla. Átta fyrirtæki stefna að framkvæmdum í Helguvík og eru nokkur þeirra langt á veg komin með fjármögnun. Viðskiptahugmyndir byggja á ólíkum grunni frá vatnsútflutningi til þróunarlanda til nýtingar varmaorku frá kísilmálmverksmiðjum á svæðinu til framleiðslu á lífalkahóli- og glýkóli, sem meðal annars er notað í ýmis plastefni, snyrtivörur og afísingarvökva fyrir flugvélar. Mikil vinna hefur verið lögð í uppbyggingu efnavinnslugarðs í Helguvík. Hugmyndir um efnavinnslugarða byggir á þeim grunni að nýtt eru samlegðaráhrif fyrirtækjanna meðal annars með nýtingu á framleiðsluafurð eða úrgangi hvers annars. Slíkt stuðlar að umhverfisvænni framleiðslu en styður jafnframt við aðra uppbyggingu í Helguvík og er hér um að ræða umhverfisvæn fyrirtæki sem minnka úrgang og útblástur sem dregur úr losun koltvísýrings í andrúmsloftið.
Reykjanesbær hefur glímt við vandamál sem fylgdu brotthvarfi varnarliðsins og efnahagsþrenginga, en á sama tíma unnið stórkostlega sigra í bættri þjónustu, fegrun umhverfis og ásýndar bæjarins og bættri menntun ungviðis. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hefur góður grunnur verið lagður að uppbyggingu skólastarfs og mikil vitundarvakning hefur átt sér stað í viðhorfi til bættrar menntunar á svæðinu, sem skilar sér í auknum atvinnutækifærum þegar menntunartíma er lokið. Forgangsatriði er að koma atvinnumálum í þann farveg að fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf verði einkenni bæjarins. Umgjörðin sem smíðuð hefur verið miðar að því að fjárfesta í innviðum og fólki. Reykjanesbær þarfnast kraftmikils fólks, sem þorir að takast á við krefjandi verkefni, hugmyndaríks fólks, sem fer ótroðnar slóðir og athafnasams fólks sem lætur verkin tala. Vilt þú vera í þeim hópi?
Hanna Björg Konrádsdóttir frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins