Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

  • HS Veitur útskýra breytingar á innheimtu
  • HS Veitur útskýra breytingar á innheimtu
    Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna.
Þriðjudagur 19. maí 2015 kl. 09:37

HS Veitur útskýra breytingar á innheimtu

Á vef Víkurfrétta í dag (mánudag 18. maí) er aðsend grein eftir Ívar Pétur Guðnason undir fyrirsögninni „Furðulegt háttalag HS Veitna um nótt“. Eftir lestur greinarinnar er greinilegt að það þarf að skýra þessi mál mun betur en gert hefur verið hingað til og gefur grein Ívars gott tækifæri til þess og verður það því reynt hér á eftir.

Þegar fjölbýlis-/sameignarhús er byggt þá ákveður byggingaraðili, verktaki eða húseigandi/eigendur, fyrirkomulag hitakerfis í húsinu. Valið stendur þá milli þess að vera með eitt hitakerfi í húsinu öllu eða sér hitakerfi fyrir hverja íbúð og svo sameign þar sem það á við. Undantekningalítið velja byggingaraðilar, ekki HS Veitur, að hafa eitt hitakerfi í húsinu. Kostirnir eru fyrst og fremst fjárhagslegir eins og farið verður yfir hér á eftir en ókosturinn fyrst og fremst sá að notkun hverrar íbúðar er þá ekki sérmæld. Helstu kostirnir fyrir byggingaraðila/ íbúðareigendur eru þá þessir:

Langstærsta atriðið er að eitt hitakerfi í húsinu er umtalsvert einfaldara og ódýrara í upphafi sem leiðir til lægri byggingarkostnaðar og þá til sparnaðar húseigenda.
Tengigjald er yfirleitt lægra.
Fastlega má búast við að heildarnotkun hússins sé meiri í heild sinni með sundurgreindum kerfum en með einu hitakerfi þó það geti verið mismunandi.

Þetta eru helstu kostir sameiginlegs kerfis en þá er ókosturinn eftir, notkun hverrar íbúðar/eignarhluta er ekki sérmæld. Eins og að ofan greinir er þetta fyrirkomulag ákvörðun byggingaraðila en ekki HS Veitna.

Kjósi íbúðareigendur að hafa notkun sína sérmælda þá er HS Veitum ekkert að vanbúnaði að sérmæla þá notkun en áður þarf íbúðareigandi/eigendur að gera nauðsynlegar breytingar innanhúss til að slíkt sé unnt.
HS Veitur hafa í meginatriðum skipt notkuninni eftir eignarhluta en nokkuð hefur borið á því að íbúar bendi á að vegna stærða fjölskyldna eða af öðrum ástæðum sé það ekki sanngjarnt. Skipti húsfélagið kostnaðinum er unnt ef vilji er fyrir hendi að hafa hvaða skiptingu sem er en HS Veitur hafa enga möguleika til að þekkja slíkt og taka tillit til þess.

Hjá HS Veitum eru í dag um 6.000 mælagrindur og af þeim um 600 skiptar og hafa vegna þessara 600 mælagrinda verið sendir um 2.800 reikningar mánaðarlega. Breyting á þessu fyrirkomulagi hefur verið til umræðu alllengi en ef til vill má segja að dropinn sem fyllti mælinn hafi verið þegar beiðni barst í maí 2014 um að skipta reikningum í 18 fjölbýlishúsum á Ásbrú á 252 notendur. Stjórn samþykkti þá tillögu starfsmanna um að þessari beiðni yrði hafnað. Í framhaldinu var síðan rökrétt að vinda ofan af þessu fyrirkomulagi enda HS Veitur eina veitan sem hefur verið með þetta sem almenna reglu og sameiginlegur reikningur gengið ágætlega árum saman hjá öðrum veitum svo sem á Reykjavíkursvæðinu.

Þegar sagt er að HS Veitur séu að skikka einhvern til að taka ábyrgð á skuldum annarra þá er í raun verið að snúa hlutunum á haus. Eina sem HS Veitur eru að gera er að krefjast þess að þeir sem standa saman að kaupum á vatni standi saman að greiðslu fyrir þjónustuna með sama hætti og gert hefur verið um árabil hjá öðrum veitum. HS Veitur ætla þannig að hætta að innheimta fyrir þá sem standa að sameiginlegum innkaupum en ekki öfugt. Sameiginleg ábyrgð hefur reyndar í raun fylgt aðgreindri innheimtu en gert innheimtu mun erfiðari þar sem stöðvun orkuafhendingar til vanskilaaðila gengur ekki nema einnig sé stöðvuð orkuafhending til þeirra sem eru í skilum. Stöðvun orkuafhendingar hefur því í raun verið nánast óvirk innheimtuaðgerð hjá þessum aðilum sem er ekki ásættanlegt.
Varðandi vanskil standa síðan húsfélög mun betur að vígi en HS Veitur þar sem við vanskil eignast húsfélagið eða aðrir eigendur lögveð í eignarhluta vanskilaaðila til tryggingar kröfunni en lögveð hafa algjöran forgang komi til gjaldþrots. Hjá HS Veitum er krafan hinsvegar almenn krafa og þá á eftir öllum lögveðum og öðrum veðum og tapast því oftast að miklu eða öllu leiti.
Hvað varðar innheimtu þá taka lánastofnanir hana að sér og þó því fylgi einhver kostnaður þá kemur á móti lækkun fastagjalda með einum reikningi svo og seðilgjalda.

Að lokum er rétt að benda á lög nr. 26 frá 1994 um fjöleignarhús.
Í 1. gr. segir: „Fjöleignarhús telst í lögum þessum hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra“.
Í 13. gr. sömu laga segir að það sé skylda eiganda að vera í húsfélagi og fara eftir löglegum ákvörðunum þess og virða þær.
Í 48. gr. segir síðan: „Greiði eigandi ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði, þar með talin gjöld í sameiginlegan hússjóð, þá eignast húsfélagið eða aðrir eigendur lögveð í eignarhluta hans til tryggingar kröfunni. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta“.

Með von um að ofangreint skýri málin betur.


Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna hf.

Public deli
Public deli