Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 HS Veitur hf – HS Orka hf
Föstudagur 4. júní 2010 kl. 09:20

HS Veitur hf – HS Orka hf

Í kjölfar kaupa Magma Energy Sweden AB á hlutabréfum í HS Orku hf hefur skapast mikil umræða og gætir þar oftar en ekki mikils misskilnings. Ljóst er að hlutverkaskipting milli ofangreindra félaga er fyrir marga ekki ljós og greinilega þörf á aukinni upplýsingagjöf. Fyrirtækið mun bæta úr því á næstu misserum fyrir viðskiptavini sína.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við viljum því vekja athygli á nokkrum staðreyndum vegna þessara mála.

HS Veitur hf og HS Orka hf urðu til 1. desember 2008 við uppskiptingu á Hitaveitu Suðurnesja hf. Uppskiptingin er ekki tilkomin vegna ákvörðunar eigenda Hitaveitu Suðurnesja hf heldur vegna lagasetningar alþingis. Samkvæmt lögum nr. 58 frá 7. júní 2008 var orkufyrirtækjum gert skylt að aðgreina samkeppnisþáttinn þ.e.a.s. framleiðslu og sölu á raforku frá einkaleyfisstarfsemi þ.e.a.s. dreifingu orkunnar til viðskiptavina, tengingu þeirra við dreifikerfið og þjónustu við þá.

HS Veitur hf eru nú 66,75% í eigu Reykjanesbæjar, 16,58% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, 15,42% í eigu Hafnarfjarðarbæjar og 1,25% í eigu 4 sveitarfélaga.

HS Orka hf er nú 98,53% í eigu Magma Energy Sweden AB og 1,47% í eigu 4 sveitarfélaga.

HS Veitur hf dreifa raforku til íbúa og fyrirtækja sem Landsnet (alfarið í opinberri eigu) afhendir inn á dreifikerfið og innheimtir gjöld fyrir dreifingu og flutning raforkunnar. Að teknu tilliti til fastagjalds má áætla að 60% raforkukostnaðar heimila sé vegna dreifingar og flutnings en um 40% raforkan sjálf sem er á lögbundnum samkeppnismarkaði.

Af orkureikningi hvers meðal heimilis (rafmagn, heitt og kalt vatn) má gera ráð fyrir að um 85% renni til HS Veitna hf en um 15% til HS Orku hf. Ákvarðanir um gjaldskrá, sölufyrirkomulag sem aðra þætti í rekstri HS Veitna hf eru teknar af stjórn sem alfarið er skipuð opinberum aðilum.

HS Veitur hf dreifa heitu vatni á Suðurnesjum, sem framleitt er af HS Orku hf í Svartsengi. HS Veitur hf dreifa heita vatninu annarsvegar frá dælustöð á Fitjum og hinsvegar frá tanki við Grindavík og selja til einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt gjaldskrá sem fyrirtækið setur um þjónustu sína. HS Orka hf getur ekki hækkað verðið á vatninu umfram verðlagsþróun og er skuldbundin til að framleiða og afhenda heitt vatn um ókomna framtíð. Uppsagnarfrestur er 25 ár en „þó er HS Orku hf óheimilt að segja upp þeim hluta samnings er lítur að öflun og afhendingu vatns til dreifingar í hitaveitu HS Veitna hf á núverandi dreifiveitusvæðum“ eins og segir í samningi aðila.

Sama gildir um ferska vatnið í Reykjanesbæ og Garði og um heita vatnið. Í Grindavík, Sandgerði og í Vogum annast HS Veitur hf vatnsöflunina en sveitarfélögin annast dreifingu og sölu innan sveitarfélaganna með eigin vatnsveitum.

HS Orka hf framleiðir raforku fyrir stóriðju og fyrir almennan markað. Samkeppni ríkir á almennum markaði og hækki HS Orka hf verðið umfram aðra geta viðskiptavinir auðveldlega keypt raforkuna af öðrum söluaðilum, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkusölunni eða einhverjum öðrum.

HS Orka hf framleiðir heitt vatn og aflar ferskvatns fyrir HS Veitur hf á Suðurnesjum. Tryggt er með orkukaupasamningi að innkaupsverð hækkar ekki umfram verðlagsþróun.
Þær auðlindir sem félagið nýtir nú eru annarsvegar í eigu Reykjanesbæjar og ríkissjóðs (Reykjanes) og Grindavíkurbæjar (Svartsengi).

Eignarhald á HS Orku hf hefur ekki og getur því ekki haft áhrif á orkuverð til almennings á svæðinu þar sem búið er að tryggja verðið á þeirri orku sem HS Veitur hf þurfa að afla sér til langs tíma.
Með eignarhaldi öflugra aðila á HS Orku hf eiga að geta skapast möguleikar til frekari framkvæmda, sem ekki voru til staðar þegar félagið var í meirihlutaeigu aðila sem vildi selja sinn hlut og gat því ekki né vildi styðja það til nýrra verkefna. Frekari virkjanir ættu að auka hagkvæmni rekstrar og gefa tækifæri til raunlækkunar orku þegar til lengri tíma er litið. Þá verða raunhæfari þau markmið að byggja upp fjölskrúðugt atvinnulíf á Suðurnesjum sem byggir á margs konar orkukrefjandi starfsemi. Það er og á að vera fagnaðarefni á þessum tímum ef tækifæri skapast til uppbyggingar, ekki mun af veita til að ná íslensku efnahagslífi upp úr þeirri djúpu lægð sem það nú er í.

Á stjórnarfundum og fundum með starfsmönnum hafa nýjir meirihlutaeigendur HS Orku hf lýst því yfir að engar breytingar séu fyrirhugaðar á nafni, rekstrarformi eða starfsmannahaldi félagsins. Það verði helst að um aukin umsvif verði að ræða gangi áform félagsins um stækkun virkjana og nýjar virkjanir upp.

Sú uppskipting sem ráðist var í í kjölfar lagasetningarinnar 2008 felur að sjálfsögðu í sér kostnaðarauka. Til þess að kostnaðaraukinn verði sem minnstur var ákveðið að samnýta sem mest þá þætti frá Hitaveitu Suðurnesja sem nýst gætu báðum félögunum. Má þar nefna húsnæði, hugbúnaðarkerfi, innkaup, afgreiðslu, þjónustuborð, bókhald, innheimtu, yfirstjórn o.fl. Starfsmenn eru því allir áfram starfsmenn HS Orku hf sem sinnir síðan þjónustu fyrir HS Veitur hf samkvæmt ítarlegum og vel skilgreindum verktakasamningi. Stjórnir félaganna eru hinsvegar algjörlega aðskildar og er þess vel gætt, sérstaklega í ljósi gjörbreytts eignarhalds, að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða. Væri reksturinn aðskilin algjörlega myndi það leiða til umtalsverðrar aukningar heildarkostnaðar sem deilast myndi á bæði félöginn og síðan í framhaldinu á viðskiptavini þeirra. Þessi hlutverkaskipti eru því hagkvæm.

Það er von okkar að ofangreindar upplýsingar auðveldi almenningi að átta sig á helstu staðreyndum varðandi félögin og nái að slá aðeins á þær rangfærslur sem alltof mikið er af nú um stundir.


Júlíus Jónsson,
forstjóri.



Albert Albertsson,
aðstoðarforstjóri.