Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hryðjuverkamaður frá Íslandi
Miðvikudagur 11. mars 2009 kl. 08:57

Hryðjuverkamaður frá Íslandi

Fámenna Ísland, litla þorpið í Evrópu, duglega, góða og heilbrigða þjóðarsálin. Einu sinni var gaman að vera Íslendingur í útlöndum. Fólk faðmaði mann fyrir það eitt að vera Íslendingur og vildi heyra meira um Ísland en það breyttist á einni nóttu. Síðast þegar ég var á erlendri grundu var öskrað að mér fyrir það eitt að vera Íslendingur en það var 12.október 2008.

Best í heimi
Íslendingar voru þekktir fyrir svo margt gott og gjöfult eins og dugnað, hreinleika, fegurð, gæði, tungumál, menningu og sögu. Það eigum við enn og þurfum að verja.
Við ætlum að vinna traust og virðingu á ný. Við öðlumst virðingu þegar búið er að draga menn til ábyrgðar. Menn sem tóku sér fé og knésettu almenning bæði hér heima og erlendis verða væntanlega ákærðir og þá fær þjóðarsálin frið og getur einbeitt sér að uppbyggingu.

Stöndum saman
Samfélagsleg ábyrgð stofnana, fyrirtækja og einstaklinga er mikilvægara nú sem aldrei fyrr. Það verða allir sem vettlingi geta valdið að standa vörð um heimili, fjölskyldur og atvinnulíf. Velvildarfólk allra barna sem búa á Íslandi þurfa að huga að einstaklingunum í kringum sig. Blítt bros,klapp á bakið eða hvatningarorð í eyru eru öllum börnum nauðsynleg í dag.

Viðskiptasiðferði
Hópur fólks lifði utan við samfélagið í engum tengslum við almenning. Ofurlaun, ofurþotur, ofurbílar, ofurhús á ofurverði fyrir ofurfólk sem bar svo mikla ábyrgð en þó enga þegar upp var staðið. Viðskiptasiðferðið var eflaust umhugsunarefni alla daga hjá stjórnendum fyrirtækja og stofnana. Viðskiptasiðferði snertir ákvarðanatökur stjórnenda varðandi starfsemi, launþega, hluthafa og samfélagið.

Margar óréttlátar ákvarðanir voru teknar og fjármunir streymdu úr bönkum og fjármálafyrirtækjum sem arður í vasa einstaklinga, jafnvel innherja. Ævisparnaður fólks brann upp á einni nóttu og eru sögurnar margar og ljótar.

Óréttlæti
Óréttlæti getur birst víða í samfélaginu og er undirrót ills. Á hverjum degi heyrast nýjar sögur um hvernig óréttlætið skellur á almenning eftir bankahrunið. Óréttlæti veldur óhamingju hjá þeim sem fyrir því verða. Það er óréttlátt að skera niður þjónustu við börn og ungar fjölskyldur.

Ríkidæmi er til og verður alltaf til. Sumir eru og verða alltaf ríkari en aðrir og er það vel, svo framarlega sem fjármunanna er aflað á heiðarlegan hátt. Við búum í fámennu samfélagi, það á enginn að taka sér eitthvað sem annar á eða blekkja til að bjarga eigin skinni.

Ég vil frekar vera fátæk í réttlátu þjóðfélagi en rík í óréttlátu þjóðfélagi svo ég svari nú spurningu sem birtist í niðurlagi greinar í blaði eins þekkts ráðgjafa fyrirtækis árið 2002. Hins vegar er hægt að vera ríkur í réttlátu þjóðfélagi, fer eftir því við hvað þú miðar.

Ingigerður Sæmundsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024