Hringtengjum Suðurnesin – með göngu- og hjólastígum
Eysteinn Eyjólfsson,
formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar og formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.
Uppbygging göngu- og hjólastíga í Reykjanesbæ hefur verið á dagskrá frá 2014 og því verið sinnt eins og fjárhagur bæjarins hefur leyft hverju sinni. Betri fjárhagsstaða bæjarins – þökk sé ábyrgri fjármálastjórn undanfarin átta árin – hefur gert það verkum að hægt hefur verið að setja stóraukinn kraft í uppbygginguna undanfarin ár.
Eldri göngustígar í bænum hafa verið uppfærðir í heilsustíga, malbikaðir, breikkaðir, upplýstir og settir hafa verið niður bekkir meðfram þeim með reglulegu millibili og nýir heilsustígar hafa verið gerðir víða um bæinn. Búið er að loka heilsustígahringjum í Keflavík og Ytri-Njarðvík og hringurinn í Innri-Njarðvík lokast þegar Dalshverfi 3 byggist upp en framkvæmdir eru langt komnar við gatnagerð þar. Þá eru að hefjst framkvæmdir á Ásbrú við upplýstan heilsustíg sem tengjast mun stígakerfinu sem fyrir er og liggja í gegnum íbúabyggðina á Ásbrú að Háaleitisskóla.
Tengjum við Leiruna
Áður höfðum við tengt Reykjanesbæ við Leifsstöð með hjóla- og göngustíg upp af Vesturgötunni og gert náttúrustíga, þjappaða malarstíga, í Vatnsholtinu, í Njarðvíkurskógum og á Fitjum. Samhliða þessu hafa gangstéttir og stígar í Dalshverfum 1 og 2 í Innri-Njarðvík verið byggðar upp jafnt og þétt undanfarin ár – og var kominn tími til.
Stígagerð er fyrirhuguð í Höfnum og í náinni framtíð þarf að tengja Hafnirnar við hin hverfi bæjarins með hjóla- og göngustíg ásamt því að tengja við Suðurnesjabæ út í Garð. Hjóla- og göngustígur út í Garð væri mikilvæg tenging við Leiruna og myndi vera gerður í samvinnu við Vegagerðina og Suðurnesjabæ, sem búinn er að setja stíginn inn í aðalskipulagið sitt. Stígurinn út í Hafnir yrði einnig fyrsti áfanginn á hjóla- og göngustíg alla leið út á Reykjanestá og þaðan gætum við tengt okkur við stígakerfi Grindvíkinga sem komið er að golfvellinum að Húsatóftum.
Tengjum við Seltjörn
Reykjanesbær hefur fengið vilyrði frá Vegagerðinni um þátttöku í kostnaði við göngu- og hjólastíg sem tengja myndi Dalshverfi 3, nýjasta hverfið austast í bænum, við útivistarperluna okkar í Sólbrekkum við Seltjörn. Stigurinn í Sólbrekkur gæti komið í beinu framhaldi af Strandleiðinni eftir Stapagötu – gömlu þjóðleiðinni – og yfir Vogastapann að Reykjanesbæjarmerkinu, undir Reykjanesbrautina og niður í Sólbrekkur og svo áfram til tengingar við stíg sem Grindvíkingar hafa lagt. Verið er að hanna þennan stíg og vilyrði er komið fyrir framlagi frá Vegagerðinnni eins og áður segir.
Seltjörn og Sólbrekkur eru vaxandi útivistarperlur. Náttúrustígur með bekkjum hefur verið lagður í kringum Seltjörn, verið er að gera bílstæði og vonandi rís þar bálskýli með útikennslustofu og umhverfisvænum salernum í sumar eins Skógræktarfélag Suðurnesja stefnir að með aðstoð Reykjanesbæjar. Þá eru væntingar um að samstarf Reykjanesbæjar við Bláa lónið glæði Seltjörn nýju lífi í náinni framtíð.
Með stígnum að Seltjörn værum við búin að tengja Reykjanesbæ og Grindavík með hjóla- og göngustígum og ná með því mikilvægum áfanga í hringtengingu á Suðurnesjum. Slík hringtenging kæmi ekki aðeins okkur Suðurnesjamönnum til góða heldur væri ekki síður mikilvæg til þess að auðvelda ferðamönnum að njóta okkar stórkostlega svæðis hjólandi eða gangandi. Ég vona að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum haldi áfram uppbyggingu göngu- og hjólastíga – við í Samfylkingunni og óháðum í Reykjanesbæ munum setja stígagerðina á oddinn áfram eins og undanfarin ár.
Má bjóða þér í skipulagsrölt um Innri-Njarðvík 3. maí?
Mér finnst fátt skemmtilegra en spjalla um bæinn okkar og hef verið að bjóða íbúum með mér í skipulagsrölt og spjall. Næsta skipulagsröltið verður um Innri-Njarðvík þriðjudagskvöldið 3. maí og lagt verður af stað frá Víkingaheimum kl. 19:30. Allir eru velkomnir í röltið sem áætlað er að taki um tvær klukkustundir.